Skattskylda orkufyrirtækja
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Halldór Blöndal (um þingsköp):
    Herra forseti. Þegar ég talaði hér áðan um þingsköp sagði ég að það hefði komið fram í máli hæstv. fjmrh., sem hér er nú staddur, að Alþfl. hafi átt hugmyndina að því að leggja tekjuskatt á orkufyrirtæki í þessari lotu á jólaföstu. Hæstv. iðnrh. kallaði mig ósannindamann þegar ég hafði þessi ummæli eftir hæstv. fjmrh. Nú er hæstv. fjmrh. kominn hér í deildina. Ég hef gert ráðstafanir til þess að fá vélritaðan þann þátt sem við vorum í í gærkvöldi, ég og hæstv. fjmrh., þannig að hægt verði að fá þessi ummæli orðrétt. Ég hef beðið um þessi ummæli og þá reynir á hvort ég fari rétt með það sem hæstv. fjmrh. sagði. Ef ég var ósannindamaður að þessum orðum get ég ekki betur heyrt en hæstv. iðnrh. kalli hæstv. fjmrh. ósannindamann. Nú er hæstv. fjmrh. hér í deildinni og vildi ég nú skora á hæstv. iðnrh. að endurtaka þau ummæli hér, að það séu ósannindi að Alþfl. hafi átt hugmynd að því að leggja tekjuskatt á orkufyrirtæki nú í þessari lotu.
    Hæstv. iðnrh. sagði jafnframt að það hefðu verið ósannindi þegar ég talaði um það og hafði eftir honum þau ummæli að frv., eins og það liggur nú fyrir, feli í sér almenna og verulega verðhækkun. Ég hygg að ástæðulaust sé, herra forseti, að endurtaka oftar en ég hef gert þau ummæli sem ég hef haft eftir hæstv. orkuráðherra um þessi mál og skal ég, til að níðast ekki á þolinmæði hæstv. forseta, enn einu sinni vekja athygli á ummælum hæstv. orkuráðherra á almennum vettvangi þannig að úr því megi fá skorið hvor fari nær sannleikanum, ég í mínum ummælum eða hann í ummælum sínum hér áðan.
    Ég vil í þriðja lagi, hæstv. forseti, og það snertir málsmeðferð, vekja athygli á nokkrum orðum í Þjóðviljanum hinn 9. febr. sl. þar sem rætt er við Bolla Bollason hagfræðing í fjmrn. Þar segir svo, og er hann borinn fyrir því: ,,Hins vegar sé alveg sjálfsagt að skoða allar tæknilegar athugasemdir frá
orkufyrirtækjunum og raunar sé verið að fara yfir öll þessi mál. Bolli sagði að það hefði samt að öllu leyti verið hentugra ef fyrirtækin hefðu komið fram með sínar athugasemdir fyrr, enda hefðu fyrirtækin haft alla möguleika til þess þar sem þessi skattlagning hefði staðið til í 1 1 / 2 ár og iðnrh. haft drög að frv. í höndum síðan í lok októbermánaðar.`` Svo mörg voru þau orð.
    Ég heyrði að hæstv. iðnrh. las hér áðan upp úr gögnum frá endurskoðanda Landsvirkjunar og fór þar að sjálfsögðu rétt með. Á hinn bóginn hlýt ég að mótmæla því, herra forseti, þegar hæstv. iðnrh. kallar mig ósannindamann að því að Landsvirkjun hafi talið að þessi skattlagning hefði í för með sér 46% hækkun á rafmagnsverði og kallar mig ósannindamann þegar ég hef það eftir Aðalsteini Guðjohnsen og Eiríki Briem, má ég segja, að slík hækkun á verði Landsvirkjunar þýði 30% hækkun á verði á heimilisrafmagni og á öðrum töxtum hjá rafveitum. Ég held að nauðsynlegt sé að þetta komi fram. Aðrar missagnir í ummælum hæstv. ráðherra verða að bíða.

    Ég skal ekki þreyta hæstv. forseta með því að hafa þessi orð lengri. En hvað sem um þessa athugasemd má segja er öldungis ljóst að hæstv. fjmrh. er ósannindamaður að mati ráðherra Alþfl. að því að það væri Alþfl. sem hefði átt hugmyndina að orkuskattinum nú.
    Ég var svo auðvitað sammála öllum þeim aðfinningum sem hæstv. orkuráðherra setti fram um gæði þess frv. sem hér liggur fyrir og get bætt ýmsum við. T.d. get ég minnt á það, úr því hann fór að tala um ónýtar holur, að mikið er af ónýtum holum fyrir norðan og Hitaveita Akureyrar skuldar af þeim sökum, hefur tekið erlend lán til að standa undir þeim borkostnaði. Eftir þeim endurmatsreglum sem eru í frv. er ekki gert ráð fyrir því að til þessa verði tekið tillit. Þetta vildi ég að fram kæmi.
    Að síðustu aðeins þessi orð, herra forseti. Fyrr í dag vorum við að ræða hér frv. um umhverfismál. Þá hefur ríkisstjórnin þann háttinn á að slíta í sundur frv. sem felur í sér að bæta við einu ráðuneyti og nauðsynlegt fylgifrv. með því. Tefur þannig þingstörf í báðum deildum og gerir þingið eiginlega hálfbroslegt í augum þjóðarinnar, allra þeirra sem nenna að setja sig inn í málavöxtu. Í dag verðum við vitni að því að hæstv. iðnrh. leggur áherslu á að fá að taka hér til máls. Hann veit að tregða hans til að taka fyrr þátt í umræðunum veldur því að talsmaður Sjálfstfl. í málinu hefur ekki lengur þingskapalegan rétt til að svara málefnalega þeim málflutningi sem hann hafði uppi. Þetta veldur því að nauðsynlegt er að svara hæstv. iðnrh. á öðrum vettvangi. Það verður gert og jafnframt mun ég að sjálfsögðu kynna mér það hjá endurskoðanda Landsvirkjunar hvort það sé rétt sem hæstv. iðnrh. sagði, að ég hefði farið með fleipur og útúrsnúninga þegar ég vitnaði beint í hans ummæli, nema ef hæstv. iðnrh. er að tala um það að rétt sé að afskrifa Blönduvirkjun áður en hún verður tekin í notkun.