Skattskylda orkufyrirtækja
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Halldór Blöndal (um þingsköp):
    Herra forseti. Það er út af fyrir sig undarlegt að formaður þingflokks Alþfl. skuli ekki hafa séð ástæðu til þess að taka efnislegan þátt í þeim umræðum sem hafa orðið um það frv. sem hér var verið að ræða, um tekjuskatt á orkufyrirtæki. Ég hef ekki haft uppi neinar getsakir um Alþfl. Það sem ég sagði var að ég hvatti hæstv. iðnrh. til að endurtaka þau ummæli sem hann viðhafði hér meðan fjmrh. var fjarstaddur, að það væru ósannindi að það væri hugmynd Alþfl. að leggja tekjuskatt á orkufyrirtæki nú í þessari lotu. Þetta sagði hæstv. fjmrh. í sjónvarpinu í gær. Hæstv. iðnrh. kallaði mig ósannindamann að þessu hér áðan. Hér eru ráðherrarnir báðir, sá sem viðhafði umræðuna í sjónvarpsþættinum og hinn sem talaði svo digurbarkalega hér áðan. Mér finnst, herra forseti, ekkert óeðlilegt þótt stjórnarandstaðan vilji komast til botns í þessu máli, sérstaklega þegar svo er komið að ráðherra orkumála er farinn að klína ummælunum á stjórnarandstöðuna og hafa svo uppi hrópyrði um að málflutningur sé óheiðarlegur hjá þeim sem spyr.