Réttur til fiskveiða í landhelgi Íslands
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég vil þakka meiri hl. sjútvn. fyrir hennar afgreiðslu og hv. formanni sjútvn. fyrir að hafa ekki lengur en þetta tafið afgreiðslu málsins. En það er ákaflega hvimleitt þegar menn fá mál til nefndar og nenna ekki að halda nefndarfundi af því að þeim finnst ekki taka því, af því að það er bara eitt mál, og svo þegar koma stjórnarfrumvörp á eftir, þá telja þeir að það mál sem fyrir var eigi þá náttúrlega að vera víkjandi verkefni og eigi að afgreiðast einhvern tíma seinna.
    Hitt er þó sýnu verst þegar menn standa hér upp og vilja halda fram blekkingum í von um að með slíku tali sé hægt að komast fram hjá kjarna málsins. Lögþing þjóða setja lög og breytingar á lögum eru að sjálfsögðu breytingar á lögum. Þær breyta þess vegna einhverju. Og hverju breytir þetta? Þetta breytir því að Grænlendingar og Færeyingar eiga það ekki undir geðþóttaákvörðunum sjútvrh. Íslands hvort þeir hafi löndunarrétt á morgun eða ekki.
    Nú er það svo með þá ágætu menn sem það embætti skipa að þeir eru misglaðlyndir, þó ekki sé meira sagt. Og á því hafa Grænlendingar svo sannarlega fengið að kenna. Þetta veit hv. formaður sjútvn. e.t.v. ekki en mætti þó vita. Hér er þess vegna ekki verið að fjalla um mál að nauðsynjalausu. Hér er verið að fjalla um mál vegna þeirrar alvöru að þjóð sem hefur verið með viðskiptahalla við útlönd í fleiri, fleiri ár vísar frá sér gjaldeyristekjum, hún vísar þeim frá sér. Hún vísar frá sér möguleikum á þjónustu við flota sem er að veiðum fyrir utan 200 mílna landhelgi Íslands. Og hún er að byggja upp skipasmíðastöðvar í Noregi og í Skotlandi með þessum vinnubrögðum sínum á sama tíma og menn tala um það hér í þinginu að það þurfi að styðja við bakið á íslenskum skipasmíðaiðnaði. En hver er þá réttur þeirra sem hafa farið í það að læra járnsmíði og stunda þessa vinnu? Hver er réttur þeirra sem hafa verið
á netaverkstæðum og eru þar búnir að helga sér ákveðna iðn? Eiga þeir engan atvinnurétt í þessu landi? Á að standa þannig að lögum í landinu að við vísum verkefnum frá? Hvað hefur komið fyrir unga menn að ætla að verja svo fornaldarlegar kenningar? Hvað hefur komið fyrir? Það er ekki skrýtið þó að þeir hristi hausinn. ( JSS: Ekki einu einasta vísað frá.) Ekki einu einasta vísað frá. Það vill nú svo til að ég var staddur á Akureyri einn dag fyrir nokkrum árum þegar búið var að banna Grænlendingum löndun á Vestfjörðum. Og hvað var þar að gerast? Þar voru þjónustufyrirtæki sem við heimsóttum og ég spurði: Hvert hafið þið verið að selja ykkar þjónustu til útlanda? M.a. til Grænlands, sögðu þeir og voru nokkuð ánægðir með þau viðskipti. Og hvernig gengur það í dag, sagði ég. Það gengur ekkert í dag. Þeir eru steinhættir viðskiptunum vegna þess að það var lokað. Þeim var bannað að eiga viðskipti við Íslendinga varðandi hafnirnar og þeir svöruðu með því að hætta hinum viðskiptunum.
    Ég verð að segja eins og er að ég hefði gjarnan

viljað standa að því að opna þetta á víðari grunni þannig að ég gæti tryggt íslenskum iðnaðarmönnum, íslenskri verslun meira rými og þessari þjóð meiri tekjur. Ég þorði ekki að stíga stærra skref en þetta. En mig undrar, mig undrar stórlega að það skuli vera þannig ástatt að hér standi upp hv. 1. þm. Vestf., nokkuð við aldur, en svo víðsýnn að hann túlkar það svo vel hér í ræðu hvað um sé að ræða að mér finnst að þar fari hin nýja kynslóð þessa lands. En þegar ég hlusta á hv. 5. þm. Norðurl. v., þá finnst mér eins og grá fornöld fyrir árið 1900 sé komin hér upp í pontuna.