Réttur til fiskveiða í landhelgi Íslands
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Friðjón Þórðarson:
    Herra forseti. Það er rétt að eyríkin þrjú í Norður-Atlantshafi, Færeyjar, Ísland og Grænland, hafa nokkur undanfarin ár átt sérstakt samstarf á vettvangi Norðurlandaráðs, hið svokallaða útnorðursamstarf í Vestnorræna þingmannaráðinu. Þessi lönd hafa að sjálfsögðu þurft að vinna saman, ekki síst á sviði hafréttar og í margvíslegum öðrum málum. Það mál sem hér um ræðir er einfalt. Það snertir samvinnu þessara ríkja. Ég get ekki séð annað en að það sé útlátalaust fyrir Íslendinga að hlutast til um að þetta frv. verði samþykkt. Mér finnst það mjög vel til fallið og tek undir orð síðasta hv. ræðumanns að samþykkja frv. og leitast þar með við að styrkja samstarf hinna þriggja þjóða, sem er sjálfsagt og nauðsynlegt á mörgum sviðum.