Skipulags- og byggingarlög
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Anna Ólafsdóttir Björnsson:
    Virðulegi forseti. Ég get ekki látið hjá líða að taka örlítinn þátt í þessari umræðu þótt ég eigi sæti í þeirri nefnd sem mun fjalla um málið. Ég get á margan hátt tekið undir þau orð hv. 2. þm. Reykv. að hér sé um nokkuð aukna miðstýringu að ræða og kvennalistakonur hafa hingað til ekki verið mjög hrifnar af slíku. Hins vegar tel ég að hér sé um tilhneigingu að ræða sem á sér ákveðnar orsakir og þær orsakir geta að hluta til einnig tengst aukinni valddreifingu eða rétti hvers íbúa sveitarfélags til þess að hafa áhrif á umhverfi sitt.
    Öll atriði í þessu frv. sem varða samvinnu og samræmingu milli sveitarfélaga tel ég af hinu góða, þ.e. þær áherslur sem þar eru lagðar. Og ég held að það sé löngu orðið nauðsynlegt að slík samvinna taki á sig eitthvert form, þótt e.t.v. megi gagnrýna hvert það form er í þessu frv. Það varðar íbúa allra sveitarfélaga mjög miklu að heildarsýn og samræming sé í góðu lagi. Það varðar einnig hvern og einn íbúa sveitarfélags miklu hvernig þær breytingar, sem fyrirhugaðar eru á umhverfi þessara íbúa eru settar fram, hversu mikil kynning er og hverra kosta íbúar eiga völ séu þeir ósáttir við þá breytingu eða skipulag á umhverfi sem fyrirhugaðar eru. Ég treysti sveitarfélögum og nefndum þeirra mætavel til þess í megindráttum að vera einfærar um að móta hugmyndir. Ég tel þó að í ákveðin atriði í þessi frv. um samráð séu sveitarstjórnum til góðs og þeim raunar þóknanlegar. Þá á ég einkum við þá kynningu sem er ætlast til að sé á aðalskipulagi. Ég vísa þá sérstaklega til þeirra opnu funda sem ætlast er til að sveitarstjórnir efni til þar sem þær fá tækifæri til þess að ræða málin við íbúa sveitarfélagsins og heyra skoðanir að undangenginni kynningu, með greinargerð sem ég geri ráð fyrir að geti þjónað sínum tilgangi verði rétt að staðið. Ég treysti raunar sveitarstjórnum til þess að útbúa slíkar greinargerðir þannig að gagn verði að. Ég vænti þess að
sú hugsun sem er í þessu frv. miðist ekki síst við rétt íbúa sveitarfélaga til þess að hafa áhrif, séu þeir t.d. ekki sammála eða vilji hafa áhrif á það sem kjörnir fulltrúar þeirra eru að gera á hverjum tíma.
    Ég vil í þessu sambandi minna á frv. til l. um breytingu á sveitarstjórnarlögum sem flutt var veturinn 1986--1987. Flm. var María Jóhanna Lárusdóttir. Efni frv. er á þá leið að sveitarstjórn sé skylt að láta fara fram atkvæðagreiðslu um einstök mál ef 1 / 10 hluti kjósenda óskar þess eða þriðjungur sveitarstjórnar. Í sveitarfélögum með færri en 1000 íbúa átti jafnframt að miða við fjórðung kosningarbærra manna. Þetta er liður í valddreifingu sem gengur enn lengra en að fela sveitarfélögum aukin verkefni og get ég þó mjög vel tekið undir að slíkt sé af hinu góða. Ég get heldur ekki látið hjá líða að taka undir orð hv. 13. þm. Reykv. um það að sá munur sem er á samfélaginu á Íslandi og skipulagi þjóðfélags á öðrum Norðurlöndum er mikill, þar sem fylkisstjórnir eða héraðsstjórnir eru hér ekki virkur samræmingaraðili. Þar af leiðandi

höfum við ekki sömu möguleika á að nýta það stig stjórnsýslunnar til samræmingar þannig að það er eðlilegt e.t.v. að menn líti þá til landsins alls. En ég hef vissulega mínar efasemdir um það hvort slíkt á við í öllum þeim tilvikum sem lagt er til í þessu frv.
    Varðandi þá umræðu sem hv. 2. þm. Reykv. hafði hér um umhverfismál vil ég taka undir það sjónarmið hans að skipulagsmál séu mjög mikilvægur þáttur umhverfismála og fagna því raunar að hann skuli bera umhverfismálin svo mjög fyrir brjósti. Það hefur ekki verið neitt launungarmál að kvennalistakonur hefðu kosið að það frv. um verkefni umhverfismálaráðuneytis sem nú liggur fyrir væri nokkuð á annan veg. Kvennalistakonur hafa viljað veg þess ráðuneytis sem mestan og kvennalistakonur hafa mjög oft bent á hversu ríkur þáttur í umhverfinu skipulag og skipulagsleysi er. Þó tel ég að í þessu frv. sé stigið skref í rétta átt, einkum þar sem fjallað er um samræmingu þessara mála og verði þróun mála sú síðar að skipulagsmál heyri undir umhverfisráðuneyti, þá geri ég ráð fyrir að það skref sem hér verður e.t.v. stigið með samþykkt þessa frv. verði þá fet í áttina.
    Það eru nokkur atriði í sambandi við byggingarhluta þessa frv. sem mér þykir auk þess rétt að gera að umtalsefni. Það er sérstaklega sú kvöð sem lögð er á sveitarfélög og ráðamenn skipulags- og byggingarmála að hyggja meira að aðgengi fatlaðra en nú er gert. Þetta tel ég mjög gott og mundi raunar ekki hika við að styðja allar þær leiðir sem hægt væri að fara til þess að gera fötluðum sem léttast að fara ferða sinna.
    Annað jákvætt atriði er hertir skilmálar vegna öryggismála, t.d. öryggis bygginga með tilliti til jarðskjálfta. Það hlýtur að vera mjög eðlileg þróun.
    Í þriðja lagi vil ég nefna ábyrgð hönnuða og það samráð og þær kröfur sem gerðar eru til hönnuða, sem ég held að sé mjög nauðsynlegt að taka undir. En eins og fram hefur komið í máli mínu er ég ekki reiðubúin á þessari stundu að taka undir frv. í heild. Mér finnst hins vegar full ástæða til þess að vekja athygli á því sem ég tel til bóta og vona að þeir hlutar frv. fái eðlilega afgreiðslu. Ég geri ráð fyrir að í umfjöllun í nefnd verði hægt að sníða af
einhverja þá annmarka sem of mikil miðstýring og of lítil valddreifing kunna að setja í þessu máli.
    Ég vil þó að lokum benda á að þarna er um mjög margþætt mál að ræða og þó að samræming málaflokka sé vissulega af hinu góða, þá má ekki blína um of og stöðva góð mál með kröfu um allsherjarsamræmingu. Ég vona að það sem ég hef tínt til og tel jákvætt strandi ekki á heildarendurskoðun af einhverju tagi eins og allt of oft vill verða.