Skipulags- og byggingarlög
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hv. 13. þm. Reykv. sem hér talaði áðan að ég var nokkuð undrandi á ræðu hv. 2. þm. Reykv. og tel ekki að það frv. sem hér er til umræðu gefi tilefni til þeirrar gagnrýni sem hann setti fram á frv. Ég vísa því á bug sem fram kom í máli hans að hér sé um mikla miðstýringu að ræða, hér sé verið að búa til mikið bákn og hér sé verið að skerða rétt sveitarfélaganna með þessu frv.
    Ég tel mig einmitt, virðulegi forseti, hafa gert grein fyrir því í minni framsöguræðu áðan og skal ekki endurtaka það að hér er verið á margan hátt að einfalda málsmeðferð og auka sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna.
    Ég tel einnig að það séu mjög margir sem hafa komið hér að verki og nefni í því sambandi að raunar hafa skipulags- og byggingarlögin verið í endurskoðun sl. fimm ár. Eins og fram kom í máli síðasta ræðumanns var einmitt frv. til skipulagslaga lagt fram á þinginu 1986--1987 og fékk hér rækilega umræðu og umfjöllun í nefnd þar sem fram komu ýmsar umsagnir um það. Og það frv. var síðan tekið til sérstakrar skoðunar aftur í ráðuneytinu ásamt því að taka tillit til þeirra umsagna sem fram höfðu komið um málið. Hv. síðasti ræðumaður vék einmitt að því að um þetta frv. til skipulagslaga 1986--1987 hafi verið rækilega fjallað í sveitarstjórnum. Það frv. sem við ræðum nú byggir einmitt á því skipulagsfrv. ásamt þeirri endurskoðun sem fram hefur farið að undanförnu á byggingarlögunum. Ég tel því að þarna hafi komið mjög margir að verki.
    Ég vil nefna það einnig að þegar þetta frv. var fullbúið fór Félag byggingarfulltrúa yfir frv. aftur og gerði nokkrar athugasemdir við það sem einnig var tekið tillit til en það eru einmitt byggingarfulltrúarnir sem gleggst þekkja til þessa máls.
    Ég nefndi það áður að ég teldi að verið væri að auka sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga á ýmsum sviðum í þessu frv. Ég skal ekki tefja hér tímann og rifja það upp sem ég sagði í minni framsöguræðu, læt nægja að benda á það sem sagt er t.d. um deiliskipulagið, en þar er að mínu viti verið að einfalda málsmeðferðina. Það þarf t.d. ekki að leita staðfestingar ráðherra að því er varðar deiliskipulag nema í undantekningartilvikum eða þegar um er að ræða deiliskipulag fyrir eldra hverfi. Og ég sé ekki af hverju hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson þarf að agnúast út í það þó hér sé gert ráð fyrir því að eftir að sveitarstjórn hefur fjallað um deiliskipulag þurfi jafnframt að koma til samþykki Skipulags- og byggingarstofnunar ríkisins. Til hvers er það? Það segir beinlínis í 21. gr. frv., með leyfi forseta: ,,Er samþykki stofnunarinnar til staðfestingar því, að deiliskipulag sé í samræmi við gildandi aðalskipulag ...`` Er nokkuð athugavert við það þó að Skipulags- og byggingarstofnun sé falið að athuga það hvort deiliskipulag sé í samræmi við gildandi aðalskipulag? Ég nefni það einnig að Samband ísl. sveitarfélaga á

þrjá fulltrúa af fimm í skipulagsstjórn eftir þessa breytingu, ef að lögum verður, svo ég nefni bara tvær af fleiri breytingum í þessu frv. sem auka sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Og þetta frv. eykur líka samráð við fólkið í landinu. Ég veit ekki hvort það er það sem hv. þm. á við þegar hann talar um miðstýringu. En í frv. sem hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson hefur lagt hér fram á hv. Alþingi er hins vegar verið að takmarka samráðsrétt fólksins í landinu og raunverulega að taka af því málskotsrétt þegar það telur á rétt sinn gengið í byggingar- og skipulagsmálum. Fólk getur nú leitað úrskurðar hjá ráðherra ef það telur á sig hallað. En hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson taldi það alveg nægja ef fólk teldi á rétt sinn hallað að það gæti leitað til dómstóla. En það tekur tvö til þrjú ár. Ef þetta frv. sem hv. þm. hefur lagt hér fram er lýsing á því hvernig Sjálfstfl. vill halda á byggingar- og skipulagsmálum og takmarka rétt fólksins þá vil ég bara leyfa mér að vona að við náum að samþykkja þetta frv. áður en og ef til þess kemur að Sjálfstfl. fer að hafa einhver áhrif á stjórn landsins.
    Ég vil minna á það líka og það kom fram í máli hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur að það er full ástæða til þess að hafa eftirlit með sveitarstjórnunum í þessum málum og varðveita málskotsrétt til handa fólkinu. Það kennir reynslan okkur. Ég virði og tek undir að það á auðvitað að auka sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna í þessu máli en fyrir því þurfa líka að vera ákveðin takmörk. Það er rétt sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði að á sl. tíu árum hafa ráðuneytinu borist 60 kærur frá Reykjavík einni og ellefu sinnum hefur ráðuneytið neyðst til þess að fella úr gildi byggingarleyfi, þar af níu sinnum í Reykjavík. Mér finnst þetta einmitt lýsa því að það þurfi nokkurt aðhald og eftirlit í þessum málum. Ég hef veitt því sérstaka athygli í minni tíð sem félmrh. hvernig borgaryfirvöld hér í Reykjavík umgangast skipulags- og byggingarlög. Þau umgangast þau rétt eins og þetta sé hvert annað marklaust plagg sem þau þurfi ekkert að fara eftir í sínum byggingar- og skipulagsmálum.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki tefja þessa umræðu lengur. Ég ítreka það sem ég sagði að málið hefur fengið mjög ítarlega umfjöllun og hefur raunverulega verið í umræðu hér á þingi, í ráðuneytinu og hjá sveitarfélögum í langan tíma.
    Ég vil svo í lokin nefna það af því að hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson gerði að umtalsefni afstöðu eins nefndarmanna í þessari nefnd, Sigurgeirs Sigurðssonar, formanns Sambands ísl. sveitarfélaga, að mér fannst hann gera nokkuð mikið úr hans afstöðu í nefndinni. Sigurgeir Sigurðsson skilaði ekki neinu séráliti í þessari nefnd, heldur hafði hann fyrirvara sem ég vil lesa hér, með leyfi forseta: ,,Einn nefndarmanna, Sigurgeir Sigurðsson, gerir þó þann fyrirvara að þótt hann telji margt til bóta í frv. gerir hann athugasemdir við þá þætti þess er varða aðalskipulag, staðfestingu þess, kynningu og endurskoðun, sem hann telur vera of langan og flókinn feril miðað við það sem gerist og gangi í grannlöndum okkar. Þá telur hann ákvæðið

um deiliskipulag m.a. í eldri hverfum verða of þungt í vöfum.``
    Að öðru leyti get ég ekki betur séð en formaður Sambands ísl. sveitarfélaga styðji það frv. sem hér er lagt fram. En frv. mun að sjálfsögðu fá skoðun í félmn. og ég vænti þess að það geti orðið að lögum hið allra fyrsta.