Skipulags- og byggingarlög
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að gera athugasemd í tilefni af orðum hv. 13. þm. Reykv. hér áðan þar sem hún sagði að ekki væri hægt að líkja saman stjórnkerfi Íslendinga og annarra Norðurlandaþjóða að því er skipulagsmál snerti vegna þess að það væru svo sterkar fylkisstjórnir á Norðurlöndum og þess vegna þyrfti að efla yfirstjórn skipulagsmála hér á landi og þá væntanlega á vegum ríkisins. Þetta er misskilningur hjá hv. þingmanni. Það sem ég rakti mjög ítarlega í minni fyrri ræðu var hvernig meðferð skipulagsmála á Norðurlöndum hefur verið að breytast frá því að vera meira og minna undir yfirstjórn ríkisins yfir í það að vera á vegum sveitarfélaganna nær eingöngu. Fylkisstjórnirnar hafa sáralítið að gera með skipulagsmál á Norðurlöndum. Það eru núna sveitarfélögin sem hafa fengið þessi mál í sínar hendur. Það eru sveitarfélögin sem ráða því hvort þau leita staðfestingar aðalskipulags til ráðherra og það eru sveitarfélögin sem hafa alfarið með deiliskipulag að gera. Og það er þessi valddreifing sem ég er að tala um og þetta frv. gengur auðvitað þvert á þá stefnu sem verið er að framkvæma allt í kringum okkur. Fylkisstjórnir skipta þar engu máli.
    Ég ætla ekki að ítreka það sem ég sagði hér áðan í löngu máli. En vegna ræðu hæstv. félmrh. þar sem hún ítrekar að verið sé að einfalda málsmeðferð og auka sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga hlýt ég að árétta að þetta er ekki rétt eins og ég rakti mjög ítarlega áðan. Það er verið að auka vald ríkisins í skipulagsmálum, taka vald frá sveitarfélögunum og færa það yfir til ríkisins. Hvar í lögum er það t.d. skylda að skipulagsstjórn ríkisins eigi að samþykkja deiliskipulag? Hvergi. Það er ekki í neinum lögum í dag. En skv. þessum lögum á núna að gera það að skyldu að deiliskipulag allra sveitarfélaga verði að samþykkjast af ríkinu. Og ekki nóg með það, ef ágreiningur verður þá er það skipulagsstjórn
ríkisins sem á að skera úr um en ekki sveitarfélögin eða samtök þeirra. Og einnig --- hvernig stendur á því að að núna á að fá skipulagsyfirvöldum ríkisins það vald að taka ákveðin svæði í ákveðnum sveitarfélögum og gera það að skilyrði að einstaka byggingar meira að segja þurfi að samþykkjast af ríkinu eða ríkisstofnunum eins og gert er í 17. gr.? Um það eru engin ákvæði í núgildandi lögum. Það er verið að færa þarna nýtt vald frá sveitarfélögum til ríkisins. Og hvers vegna eiga t.d. Ísfirðingar að una við það að skipulagsstjórn ríkisins taki ákvörðun um það að ekki megi byggja við Silfurtorg án þess að skipulagsstjórn ríkisins samþykki? Eða Akureyringar að ekki megi byggja við Ráðhústorgið á Akureyri nema skipulagsstjórn ríkisins samþykki? Eða Hafnfirðingar að ekki megi byggja við Ráðhústorgið við Strandgötu í Hafnarfirði án þess að skipulagsstjórn ríkisins samþykki? Hér er um að ræða ákvæði sem færa það vald til skipulagsstjórnar ríkisins að geta tekið ákvarðanir af þessu tagi og geta sett áskilnað af þessu tagi inn í deiliskipulag. Það er því auðvitað alrangt

sem hæstv. ráðherra heldur hér fram að það sé verið að auka sjálfsforræði sveitarfélaga. Það er verið að draga vald frá sveitarfélögum og yfir til ríkisins.
    Ég vil að lokum leiðrétta það sem hér hefur komið fram að það sé hægt að leggja að jöfnu annars vegar málsmeðferð deiliskipulags og aðalskipulags, sem ég hef gert að meginefni í mínum málflutningi hér, og hins vegar málskotsrétt einstakra aðila til ráðherra. Ég hef flutt hér frv. um það efni sem er alveg sjálfstætt mál sem ég minntist reyndar ekki á í minni framsöguræðu. Það er auðvitað tvennt ólíkt. Það getur vel verið að við hæstv. félmrh. gætum náð fullri samstöðu um það ef við settumst niður hvernig málskotsrétti eigi að vera háttað, ég efast ekkert um það. Ég vil ekki draga neitt frá almenningi í þeim efnum, að hann geti ekki firrt sig einhvers konar valdníðslu ef um hana er að ræða. En þetta eru ólík mál. Annars vegar málsmeðferð skipulagsins sem verið er að flytja nú í auknum mæli frá sveitarfélögunum yfir til ríkisins og hins vegar hvernig málskotsréttur manna eða einstaklinga eigi að vera í þjóðfélaginu.
    Ég vil líka og tók það margoft fram í minni ræðu að það sé haft samráð við fólkið í landinu um skipulagsmál og fólkið eigi að hafa aðstöðu til að móta sitt nánasta umhverfi. En það á ekki að gera með svo smásmugulegum og flóknum reglum eins og þarna eru í þessu lagafrv. Það gildir ekki það sama í öllum sveitarfélögum í þessu efni og sveitarfélögin þurfa að geta haft svigrúm til þess að móta sjálf sínar kynningarreglur en þurfa ekki að vera háð reglum af þessu tagi.
    Ég er alveg sannfærður um það að þegar þetta frv. fer nú til umsagnar frá hv. félmn. til sveitarfélaganna í landinu munu mótmælin þaðan verða það sterk að þetta frv. þurfi að umskrifa meira eða minna áður en það getur orðið að lögum hér frá hv. Alþingi.