Dómsvald í héraði
Miðvikudaginn 14. febrúar 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég er sammála því sem fram hefur komið hér í umræðunni um að skjótra viðbragða var þörf þegar það mál kom upp sem er tilefni þessa frv. sem við erum að ræða hér nú. Ég vil hins vegar benda á að þegar þinghlé var gert hér fyrir jólin, þá var það með þeim orðum að það yrði kallað saman eigi síðar en 22. jan. og ég þykist þess reyndar fullviss að þó að það hefði verið kallað saman fyrr til þess að afgreiða mál sem þetta hér, þá hefðu þm. verið reiðubúnir til þess að afgreiða það á einum degi ef á hefði þurft að halda.
    Ég er sammála því að það er óviðunandi að í landinu ríki réttaróvissa. En mér segir reyndar einnig svo hugur um að mér hefði ekki veitt af þessari viku ef okkar vinnuáætlanir eiga að standast eins og þær eru fram settar. Eins og fram kom við undirbúning og umræðu um frv. til l. um aðskilnað dóms- og umboðsvalds vorum við kvennalistakonur allan tímann sammála því að þá breytingu þyrfti að gera og vildi ég láta það koma fram hér. En í framhaldi af orðum mínum um setningu þessara bráðabirgðalaga vil ég geta þess að ég undraðist hversu seint þau komu fram hér. Ég bjóst við að sjá þau á fyrsta degi þingsins þegar við komum til starfa eftir jólahlé. Það er sjálfsagt að fjalla um bráðabirgðalög svo fljótt sem verða má, en e.t.v. eru einhverjar skýringar á þessari töf af hálfu ráðuneytisins.
    Mig langaði aðeins til að láta þessi sjónarmið koma hér fram og varpa tveimur spurningum til hæstv. dómsmrh. varðandi undanþáguna sem er að finna í síðasta málsl. 2. gr. um skilyrði til þess að vera dómarar. Ég spyr: Er þetta eina undanþágan sem er að finna í lögum og hve margir hinna nýskipuðu dómara fullnægja ekki skilyrðum 7. liðar 1. mgr. 32. gr. laga um meðferð einkamála í héraði?