Dómsvald í héraði
Miðvikudaginn 14. febrúar 1990


     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki fara efnislega út í umræður í þessu máli. Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs er fyrst og fremst sú að mig langar að varpa fram einni spurningu til hæstv. dómsmrh. Fyrir henni þarf ég kannski að hafa örstuttan fyrirvara.
    Með setningu þessara bráðabirgðalaga í janúar varð sú breyting á að því er varðar bæjarfógetaembættið í Bolungarvík að þarverandi bæjarfógeti var gerður að héraðsdómara og við bæjarfógetaembættinu í Bolungarvík tók síðan sýslumaðurinn og bæjarfógetinn á Ísafirði. Enn fremur fylgdi þessu sú röskun að starfandi lögregluþjónar úr Bolungarvík voru kallaðir til starfa til Ísafjarðar, í það lögsagnarumdæmi. Þetta hefur mætt mikilli andstöðu í Bolungarvík og undirskriftalistar hafa gengið. Hvort hæstv. ráðherra hefur fengið vitneskju um slíkt skal ég ekki um segja, en ég hygg þó að svo sé.
    Nú skil ég þetta svo að þetta fyrirkomulag eigi ekki að gilda nema til 1. júní n.k. og mín spurning er því til hæstv. dómsmrh.: Má ekki treysta því að þá verði málin komin í hið sama horf og þau voru í þegar bráðabirgðalögin voru gefin út, þ.e. bæjarfógeti verði staðsettur í Bolungarvík og að löggæsla eigi sér stað á þeim stað eins og verið hefur? Þetta er stór spurning því að ég hygg að a.m.k flestir Bolvíkingar hugsi á þá leið að það gæti verið byrjunin á því að flytja þessa embættismenn frá staðnum og til Ísafjarðar. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra treysti sér til að lýsa því yfir að óbreytt skipan verði tekin upp þegar þessi tími er liðinn. Fyrir utan hitt, sem kannski er rétt að benda á líka, að þetta var gert á afskaplega slæmum tíma að því er varðaði árferðið og árstíma að ætla mönnum að keyra Óshlíð og sinna vinnuskyldu inni á Ísafirði.
    Það mætti auðvitað segja margt varðandi dómskerfið í landinu sem er meingallað í framkvæmd og það bitnar á æðimörgum einstaklingum í þessu landi. Hvort sú breyting sem hér er lagt til að verði gerð kann að bæta ástandið skal ég ekki gerast dómsaðili um, en það er enginn vafi á því að á þessu þarf að verða breyting.
    Hér hafa verið rifjuð upp nokkur dæmi um það hvernig þetta blasir við hinum almenna manni úti í þjóðfélaginu sem þarf að sækja undir dómsvaldið og líka dæmi um það að framkvæmdarvaldið hefur seilst æ lengra yfir á hendur Alþingis og Alþingi hefur látið miklu meira af sínu valdi til framkvæmdarvaldsins en
góðu hófi gegnir. Ég skal ekki fara frekar út í það en víða mættu menn taka til hendinni.
    Hv. þm. Skúli Alexandersson var að tala hér um löggjöf sem var sett í desember. Ég vil aðeins í lokin minna á lagasetningu sem fór fram hér í maí sl., þegar gerð var breyting á almannatryggingalögum. Með því átti a.m.k. að gera tilraun til þess að verja það fólk sem yrði fyrir mistökum í aðgerðum af höndum lækna og sjúkrastofnana og víðar. Þetta var samið úti í bæ. Það er ekki enn farið að setja reglugerð vegna þessara laga. Og það er kominn

febrúar. (Gripið fram í.) Já, ég ætlaði einmitt að minna á það hér að í umræðum í gær var það upplýst hér held ég að hæstv. forsrh. væri búinn að semja reglugerðir fyrir væntanleg lög sem ættu að samþykkjast hér. Þetta var tiltölulega lítil lagabreyting sem var gerð í maí og allir voru sammála um, en það er ekki farið að setja reglugerðina, ekki mér vitanlega, þannig að það er víða pottur brotinn í þessu kerfi okkar og það er nánast hneisa að þurfa að horfa upp á svona vinnubrögð af hálfu framkvæmdarvaldsins sem á að fara auðvitað eftir vilja Alþingis í þessu sem öðru.