Dómsvald í héraði
Miðvikudaginn 14. febrúar 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur orðið af þessu tilefni og ég vil sérstaklega þakka öllum hv. þm. sem hér hafa tekið til máls fyrir undirtektir þeirra við meginefni þess máls sem hér er á dagskrá. Það gleður mig sannarlega að heyra að menn eru hér mjög sammála um þetta meginatriði. Ég bjóst raunar við því og gekk kannski að því nokkuð vísu, en engu að síður þykir mér það sérstakt ánægjuefni.
    Hins vegar skal ég láta ósagt í þessu sambandi hvort í leiðinni er hægt að bæta fyrir allar misfellur í skattalöggjöf, fiskveiðistjórn eða hverri annarri löggjöf sem um er að ræða. Ég held þó að það sé alveg rétt sem kom hér fram hjá hv. 4. þm. Vesturl. að það sem hér er að gerast mun hafa ómæld áhrif í framtíðinni, ekki síst hér á Alþingi í sambandi við vinnubrögð og í sambandi við viðhorf til lagasetningar almennt, enda fannst mér í rauninni sá grunntónn víða koma fram í máli þeirra manna sem hér töluðu.
    Í máli hv. 3. þm. Vestf. var beint til mín sérstakri spurningu varðandi Bolungarvík. Vissulega er mér alveg ljóst hvaða áhrif þessi breyting sem er tímabundin hefur haft þar í bænum. Ég get lýst því hér yfir alveg ákveðið að minn vilji er sá að aðstæður í þessu efni fari til sama horfs eftir 1. júní nk. eins og það var áður en þessi breyting varð. Og ástæðan er fyrst og fremst sú að Alþingi Íslendinga hefur nýverið tekið þá ákvörðun að bæjarfógetaembættið í Bolungarvík verði ekki lagt niður, það verði þar áfram og hluti þess er auðvitað lögreglustjórn í kaupstaðnum. Þarf náttúrlega ekkert að minnast á landfræðilegar aðstæður í þessu sambandi, þær eru augljósar.
    Í máli hv. 4. þm. Vesturl. og raunar hv. 2. þm. Norðurl. e. var minnst á löggjöfina, nýsetta, um fíkniefnadómstólinn og möguleikann á fjölgun í dómnum. Það er alveg rétt, þessi löggjöf var sett hér fyrir jól og það kom líka greinilega fram á þeim tíma að það var að beiðni þeirra aðila sem þar vinna. Kjarninn í þeirri löggjöf stendur auðvitað eftir sem áður, að hægt er að fjölga þar ef mönnum sýnist svo, eftir umfangi mála, og um það var löggjöfin fyrst og fremst. Það sem síðar gerðist, að viðkomandi dómari sagði sig frá dómi, er auðvitað af þeim ástæðum sem hér er verið að fjalla um í raun í dag og það hefur nú þegar verið settur dómari í hans stað til þess að málin hafi áfram sinn gang.
    Um það hvort leggja eigi þann dóm niður eða ekki vil ég sem fæst segja á þessari stundu. Það kemur vafalaust til greina en það er vitaskuld þá þingsins að fjalla um það ef menn vilja fella það inn í þessa löggjöf.
    Það komu fram til mín tvær fsp. frá hv. 6. þm. Vesturl. Ég held að ég svari þeirri fyrri best með því að gera grein fyrir hvaða skilyrði eru í lögum um það að menn taki dómarasæti. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    Engan má skipa í fast dómarasæti nema hann, í fyrsta lagi, sé svo andlega og líkamlega hraustur að

hann geti gegnt stöðunni. Í öðru lagi, sé 25 ára gamall. Í þriðja lagi, sé lögráða og hafi forræði fjár síns. Í fjórða lagi, hafi óflekkað mannorð. Í fimmta lagi, hafi íslenskan ríkisborgararétt. Í sjötta lagi, hafi lokið embættisprófi í lögfræði við Háskóla Íslands eða jafngildu prófi við aðra háskóla samkvæmt íslenskum lögum. Og í sjöunda lagi, hafi enn fremur þrjú ár samtals verið alþingismaður, skrifstofustjóri Alþingis eða
deildarstjóri eða fulltrúi í skrifstofu þess, ráðuneytisstjóri, skrifstofustjóri, deildarstjóri eða fulltrúi í Stjórnarráðinu, fulltrúi héraðsdómara, lögreglustjóri eða fulltrúi hans, kennari í lögum við Háskólann, gegnt málflutningsstörfum að staðaldri eða verið settur héraðsdómari eða gegnt opinberu starfi sem lögfræðipróf þarf til. Leggja má saman starfstíma í hverri einstakri af starfsgreinum þessum. Undantekningu frá ákvæðum þessa töluliðar má gera um þann er sérstakan orðstír hefur getið sér fyrir ritstörf um lögfræðileg efni.
    Settur héraðsdómari og dómari samkvæmt 30. gr. skal fullnægja ákvæðum 1.--6. töluliðar, sem ég hér áðan las, þessarar greinar. Þó má til bráðabirgða og ef sérstaklega stendur á, setja yngri mann en 25 ára, þó ekki lengur en þrjá mánuði í senn.
    Seinni liður fsp. hv. 6. þm. Vesturl. var um það hvort þeir héraðsdómarar, sem settir voru samkvæmt þessum bráðabirgðalögum, fullnægi tilteknum skilyrðum. Þeir voru raunar settir inn með mikilli skyndingu, bráðabirgðalögin voru sett þann 13. jan., sem mig minnir að hafi verið laugardagur. Þann 15. jan., á mánudegi, var búið að manna öll þessi embætti, að vísu utan eitt, sem var mannað daginn eftir. Þeir héraðsdómarar fullnægja allir þessum skilyrðum. Þannig að sú varúð sem var viðhöfð í bráðabirgðalögunum, til hennar kom ekki, það þurfti ekki að gjalda þeirrar varúðar sem þar var viðhöfð, þannig að þetta atriði er í lagi.
    Hæstv. forseti. Ég vona að ég hafi svarað, eftir því sem efni standa til, þeim fsp. sem til mín var beint, en þakka að öðru leyti fyrir þá umræðu sem hér hefur fram farið.