Dómsvald í héraði
Miðvikudaginn 14. febrúar 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Ég bað nú raunar um orðið áðan vegna þess að mér hafði yfirsést að svara spurningu frá hv. 2. þm. Norðurl. e., sem ég allra síst vildi að hefði niður fallið. Spurningin var eitthvað á þá leið hvort ég teldi að ráðherrar ættu að sitja við sama borð og aðrir þegnar landsins varðandi skattlagningu. Svar mitt er ósköp skýrt og ákveðið: Auðvitað eiga þeir að gera það, það er engin spurning.
    En varðandi þessa ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e. um skattamál, ég að vísu náði því ekki alveg í fyrri ræðu hans þar sem hann var að tala um aðstöðugjöldin sem eru náttúrlega skattstofn sveitarfélaga. En það var virðisaukaskatturinn. Ég held ég hafi orðað það þannig áðan um það mál sem hér er á dagskrá að ég gerði vitaskuld ekki ráð fyrir því að allar hugsanlegar misfellur í skattalöggjöf yrðu hér leiðréttar í leiðinni. En ég vildi þó aðeins, af því sem kom fram í seinni ræðu hv. þm., vekja athygli hans á því að það er á forræði fjmrn. en ekki dómsmrn. að úrskurða um það hvernig á að haga skattlagningu virðisaukaskatts, t.d. varðandi bifreiðir, og hvort sem það eru hálfkassabifreiðir eða ekki, þannig að það getur ekki verið málefni dómsmrn. að fjalla um skattlagninguna sjálfa.
    En mergur málsins er sá að það mál sem hér er til umræðu er náttúrlega ekki um skattlagningu eða skattlagningarmál. Auðvitað eiga allir menn að vera jafnir fyrir lögunum og það er kjarni þess sem hér er um að ræða.