Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit
Miðvikudaginn 14. febrúar 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Hér hafa gerst dálítið einkennilegir hlutir. Hv. 2. þm. Austurl. flutti hér snarpa ræðu. Í henni kom tvennt fram. Annars vegar fann hann hjá sér hvöt til að tala um Efnahagsbandalag Evrópu og hluti sem eru á viðræðustigi gagnvart samningum. Og það taldi hann rétt að gera undir þeim málaflokki sem hér er á dagskrá og fjallar um Hollustuvernd ríkisins. Ég hef litið svo á að hennar völd væru ærin þó EB yrði ekki sett undir hana líka. En hv. þm. hvetur menn til að fara að kynna sér þessi mál og ætlar mér sennilega það hlutverk. Og ég vil spyrja hann hér og nú: Hvað veit hv. 2. þm. Austurl. um það hvað ég hef kynnt mér í þessum efnum? Hvaða persónuupplýsingar hefur hann til að fylgja slíku eftir? Er njósnakerfi starfandi í kringum hvern þingmann til að lesa út úr hausnum á honum hvað hann veit og hvað hann veit ekki? Hvaðan koma svona yfirlýsingar og á hverju eru þær byggðar? Eru menn færir um að standa við þær?
    Ég veit ekki betur en ég hafi gefið mér ærinn tíma til að kynna mér þessi mál og ég tel mig vita eitt og annað um þau. Aftur á móti er ég ófær um að fullyrða hvort hv. 2. þm. Austurl. veit meira eða minna. Ég hef einfaldlega ekki hugmynd um það hvað hann veit um málið, ekki hugmynd um það, og engin tök á því að komast að því.
    Hin yfirlýsingin, sem ekki var betri, var sú að hann hafi ekki kynnt sér það mál sem nú átti að fara að greiða atkvæði um. Hann lýsti því hreinlega hér yfir að hann hefði ekki kynnt sér málið. Nú verður það ekki borið með réttu á hv. 2. þm. Austurl. að hann kynni sér ekki mál, svo vel þekki ég til hans vinnubragða að yfirleitt eyðir hann verulegum tíma í að kynna sér mál og henda reiður á þeim skjölum sem hann hefur undir höndum. En í þessu tilfelli lýsir hann yfir að hann hafi ekki kynnt sér málið. Að
þeim orðum sögðum, herra forseti, óska ég hér og nú eftir því að það verði nafnakall um þetta mál og það komi fram hvort þingmenn hér í salnum greiði atkvæði án þess að hafa kynnt sér málið sem þeir ætla að fara að greiða atkvæði um.