Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit
Miðvikudaginn 14. febrúar 1990


     Frsm. heilbr.- og trn. (Jón Sæmundur Sigurjónsson):
    Herra forseti. Ég hef eiginlega litlu að bæta við það sem hæstv. heilbrrh. sagði. Hann færði nákvæmlega út það sem ég hefði viljað gert hafa. Ég sagði áðan í upphafi ræðu minnar að umræðan hafi farið um víðan völl. Og hv. 1. þm. Suðurl. bætti þar um betur og vó í sama knérunn og aðrir þeir sem tamt er að tala um Evrópubandalagið. ( Gripið fram í: Hvar var hann að vega?) Í sama knérunn, það held ég sé rétt eftir haft úr Njálu. Það heitir ekki að höggva heldur vega. ( Gripið fram í: Hvað þýðir það?) Við skulum tala um það á eftir.
    Engu að síður lá ég undir þeim ásökunum sem landsbyggðarþingmaður að vilja færa vald frá landsbyggðinni hingað suður. Ég held að hv. 1. þm. Suðurl. hafi ekki kynnt sér það frv. sem hér er til umræðu. Þar stendur einfaldlega: ,,Í þeim tilvikum, þar sem Hollustuvernd ríkisins fer með beint eftirlit skv. lögunum,,, sem sagt verkefni Hollustuverndar, ekki heilbrigðisnefndanna. Þar með gæti stofnunin beitt sama valdi og sömu þvingunarúrræðum og heilbrigðisnefndir. Og eins og stendur í athugasemdum með þessu lagafrv., með leyfi forseta: ,,Í þeim tilvikum, þar sem Hollustuvernd ríkisins fer með eftirlitið, er engum slíkum lagafyrirmælum til að dreifa, þannig að heilbrigðisnefndir hafa þurft að grípa til ráðstafana vegna eftirlits, sem Hollustuvernd ríkisins er falið. Þetta er á allan hátt óeðlilegt.`` Og það er einmitt þetta sem verið er að lagfæra. Það er ekki verið að færa neitt vald frá landsbyggðinni eins og hv. 1. þm. Suðurl. vildi ýja að. Það er ekki verið að taka neitt þaðan í burtu sem hefur verið þar áður. Það er einungis verið að gefa Hollustuverndinni nákvæmlega sömu möguleika til að fylgja eftir sínu eftirliti og heilbrigðisnefndirnar hafa. Og eins og ég sagði áðan er ekkert því til fyrirstöðu eftir sem áður að Hollustuverndin feli heilbrigðisnefndunum að hafa framkvæmdina með höndum. Þannig er þetta mál
vaxið. Þetta er lítið mál og einfalt og ég held að við ættum að samþykkja það hér eins og það er.