Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit
Miðvikudaginn 14. febrúar 1990


     Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Hv. 2. þm. Vestf. hóf þessa umræðu með skarpri ræðu. Þar lýsti hann andstöðu við þetta frv. á þeim grundvelli að með því væri verið að færa nokkuð af verksviði og valdsviði heilbrigðisnefnda sem starfa í héruðunum úti um landið yfir til Hollustuverndar. Hann hvatti þm. til að standa á verði gegn slíkum tilhneigingum af hálfu ríkisstjórnar en sagði jafnframt að þar hefði heimskan tekið völdin.
    Ég vil taka undir það með hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni að ástæða sé til að standa á verði gegn slíkum tilhneigingum. Og þó svo að hér hafi talað hæstv. heilbrrh. og hv. 5. þm. Norðurl. v. hafa þeir ekki sannfært mig um það að með þessu frv. sé ekki verið að ganga í þá átt sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson hefur lýst.
    Í fyrri ræðu sinni sagði hv. 5. þm. Norðurl. v. að með þessu frv. væri ekki verið að gera neina breytingu á starfssviði Hollustuverndar og heilbrigðisnefnda um landið. Ef ekki er verið að gera neina breytingu hvers vegna er þá verið að flytja slíkt frv.? Röksemdir hv. þm. í fyrri ræðu hans voru engar aðrar en reyna að breiða yfir frv. með því að það væri þýðingarlaust og gagnslaust. Skýringar hans í seinni ræðu voru litlu betri. Ég vil þess vegna taka hér undir með hv. 2. þm. Vestf. og öðrum þeim sem talað hafa með svipuðum rökum og mæla gegn þessu frv. sem er að mínu viti ekki einungis óþarft heldur einnig til óþurftar.
    Hv. 5. þm. Norðurl. v. vitnaði í fornt mál og kvað það vera tekið úr Njálu. Ég sé að í greinargerð þessa frv. er sérkennilegt orðalag sem menn hafa kannski haldið að væri úr fornu máli. En þar segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Til þess að kippa ofangreindu á klakk`` --- til þess að kippa ofangreindu á klakk --- ,,telur ráðuneytið eðlilegt að Hollustuvernd ríkisins búi yfir sömu ráðum til þess að knýja á um ...`` --- ég get nú bara ekki lesið þetta lengur því ég gleymdi gleraugunum mínum heima. En ég les þó fullvel að með þessu frv. ætlar ráðuneytið sér að kippa á klakk þeim ráðum sem Hollustuvernd ríkisins þarf að búa yfir til að koma þessum málum í það horf sem ráðuneytið telur við þurfa. Þetta er nú helsti hátíðlegt orðalag og ég fullyrði að það er ekki úr Njálu. ( GB: Ég veit ekki hver er höfundur.) Hæstv. ráðherra segist ekki vita hver er höfundur að frv. sem hann flytur. ( GB: Nei, að svona orðalagi.) Ég verð að lýsa því yfir að mér þætti ástæða til fyrir hæstv. ráðherra að fylgjast með því hver semur þau frv. sem hann flytur hér á hinu háa Alþingi. Og að áður en hann fer í rökræður um mál hafi hann a.m.k. lesið yfir greinargerðina, meira en það sem honum þykir við þurfa í sínum málflutningi.
    En nóg um þetta. Ég lýsi sem sé yfir stuðningi við þau sjónarmið sem fram komu í skarpri ræðu hv. 2. þm. Vestf. og lýsi andstöðu við þetta frv.