Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 14. febrúar 1990


     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Það verður að segjast eins og er að það er talsvert óeðlilegt í sjálfu sér að hæstv. félmrh. skuli ekki vera viðstaddur þegar þetta mál er rætt, ekki síst þar sem málinu hefur verið frestað hvað eftir annað til þess að koma því við.
    Það má kannski einu gilda, en mér finnst ástæða til að bæta örlitlu við þetta mál. Rökin fyrir þessu frv. hafa komið greinilega fram í framsögu hv. 1. flm., 17. þm. Reykv., og hef ég litlu við þau að bæta, en ég vil aðeins rifja það upp að þegar þetta mál kom upp á sl. hausti kom samstundis upp ákveðin andstaða gegn þessari kröfu félmrh., bæði innan ríkisstjórnarinnar og í stjórnarflokkunum. Og ekki aðeins það, heldur vil ég rifja einnig upp að í húsnæðisstjórn var andstaða mjög hörð gegn þessu máli og raunar meðal aðila sem eru tengdir þessari löggjöf meira en aðrir, þ.e. aðila vinnumarkaðarins, og í þingflokki Framsfl. --- það má auðvitað segja um hv. formann þingflokksins, áður en hann fór út úr dyrunum hér áðan, að auðvitað var þögn hans sama og samþykki. Staðreyndin er sú að þegar þetta mál var fært inn í þingflokk Framsfl. frá ríkisstjórninni var ekkert hik á þingflokknum, allir sögðu nei. Því var algjörlega hafnað að þessi ákvörðun félmrh. fengi fram að ganga í þessu formi sem niðurstaðan varð svo um.
    Því var haldið fram, sem ég tel að hafi verið skynsamleg niðurstaða í málinu miðað við þau rök sem fram voru sett, að Byggingarsjóður ríkisins væri að fara á hausinn ef hann fengi ekki þessa tilteknu hækkun. Það voru fyllilega rök í málinu að gefinn yrði tími eitthvað fram eftir þessu ári til þess að skoða málið í heild einnig í samráði við aðila vinnumarkaðarins, leita að samræmingu á ákvæðum um vexti í húsnæðissjóðunum báðum miðað við það að tryggja ætti stöðu þeirra sem átti að vera orðin svo bágborin sem haldið hefur verið fram en sem betur fer hefur ekki við rök að styðjast.
    Það var alltaf talað um það að eðlilegt væri að sú vaxtabreyting sem gerð yrði yrði látin ná yfir báða byggingarsjóðina. Þá gæti þar orðið um litla hækkun að ræða sem skilaði jafnvel miklu meira inn í sjóðina en þessi takmarkaða aðgerð sem þarna var viðhöfð sem þarf ekki að rökstyðja í raun og veru meira. Þetta er það mesta óréttlæti sem sýnt hefur verið í sambandi við þennan viðkvæma málaflokk.
    Á þessa málamiðlun var ekki fallist og félmrh. þvingaði fram sína ákvörðun sem hún hafði í sjálfu sér heimild til samkvæmt gildandi lögum, að taka ákvörðun um þessa vexti, en auðvitað varð ríkisstjórnin að samþykkja það í heild sem hún og gerði. Þessi meðferð málsins er í sjálfu sér mjög óeðlileg, ekki síst þegar það liggur fyrir að svo hörð andstaða var gegn málinu að ekki var þingmeirihluti fyrir því. En vegna ákvæða í gildandi lögum þurfti ekki að bera þetta undir Alþingi og þar af leiðandi varð þessi gerningur að veruleika sem er óeðlilegt í alla staði.

    Ég vil einnig rifja það upp að lögin 1986 voru sett í samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins og það frv. sem lögin hvíla á var samþykkt hér samhljóða á hv. Alþingi. Í þessum lögum eru alveg skýr ákvæði um meðferð vaxta. Hins vegar gefur þetta frumhlaup, sem ég kalla, sem gert var hér á sl. ári, fullkomna ástæðu til að setja þarna á varnagla þannig að það sé ekki hægt að fremja svona óeðlilega framkvæmd og mismuna fólki eins og þarna er gert eftir geðþótta einhvers ráðherra sem vill hafa sitt fram í viðkomandi ríkisstjórn.
    Það er ljóst að umræðan um þetta mál, bæði úti í þjóðfélaginu og hér á Alþingi, á sl. ári sýndi að það er nauðsynlegt að taka þessi mál til meðferðar. Það hefur legið fyrir en ekki verið farið eftir þeim tilmælum að svo væri gert þannig að það fengist einhver heilstæð stefna að því er varðar vexti í húsnæðiskerfinu í heild. Þetta er nauðsynlegt að gera og það verður að ætlast til þess að ríkisstjórnin sýni þann manndóm að færa rök fyrir því hvernig að þessu á að standa til frambúðar.
    En ég vil aðeins segja það í lokin að þessi tilvitnun í Kvennalistann er náttúrlega í alla staði óeðlileg, að það skuli vera hægt að skýla sér á bak við eitthvert samkomulag sem hefur verið gert við Kvennalistann um þetta. Það samkomulag var náttúrlega hreint skrípi og var gert hér í einhverju ofboði til þess að knýja fram ákveðið mál sem var í raun ekki þingmeirihluti fyrir hér á Alþingi. Þar á ég við húsbréf í þeirri mynd sem þau eru.
    Og ég ætla aðeins að skjóta því hér inn, sem sýnir í hvaða stöðu þessi mál eru núna í Húsnæðisstofnun, að það er komin fram beiðni frá Húsnæðisstofnuninni um það að fá heimild til að fjölga starfsmönnum í stofnuninni, fastráðnum starfsmönnum fyrir utan þessa lausráðnu, upp í 61 fastráðinn starfsmann úr 39 sem núna eru starfandi. Og þetta er rökstutt með því að nú séu komin svo mikil ný verkefni, svo sem eins og ráðgjafardeild og húsbréfadeild og hvað eina, að það þurfi að fjölga fólki. Ég tel að það sé fullkomin ástæða til þess að stöðva þessa þróun meðan verið er að leita að raunveruleikanum í þessum málum. Þegar ráðgjafarstofnun Húsnæðisstofnunar var sett á fót 1984--1985 af þáverandi ríkisstjórn var ákveðið að færa til
starfsfólk innan stofnunarinnar til að sinna þessu hlutverki og það var gert án þess að fjölga nokkuð fólki. Það var tekið úr tæknideildinni og fært yfir í ráðgjafardeild og fært milli deilda þannig að það jafnaðist út og þannig hefur þessu hlutverki verið sinnt til þessa dags. Nú kemur skriðan og samkvæmt þessu þætti mér ekki ótrúlegt, ef að þessu verður gengið sem ég vona að verði ekki, að fjöldi starfsmanna í Húsnæðisstofnun yrði brátt orðinn einhvers staðar um 80--90 manns án þess að árangur eða aukin þjónusta komi í ljós í sambandi við reksturinn í heild. Þess vegna er fullkomin ástæða til að stokka þessi mál upp og átta sig á því hvort það er ekki rétt þá að gera miklu róttækari breytingar á húsnæðiskerfinu en til þessa hefur verið gert. Mér

sýnist að einhver ákveðin nefnd sem er að störfum sé að setja fram hugmyndir sem hljóta að kalla á þau viðbrögð að það sé þá jafnvel eðlilegt að fela bankakerfinu stóran hluta af húsnæðiskerfinu og stokka upp algerlega það aðstoðarkerfi eða félagslega kerfi sem menn vilja tala um þannig að það yrði þá einhver stjórnskipuð stjórn eða stofnun sem hefði með þetta að gera.
    Að sjálfsögðu er þetta ekki tengt þessu máli hér en mér þótti ástæða til að nefna þetta hér því að á fundi sem ég sat í morgun í einni lögskipaðri nefnd kom þessi beiðni fram með miklum látum og kröfum um að það yrði afgreitt samstundis, sem ég að sjálfsögðu í umboði þingsins neitaði. Þetta er eitt af því sem blandast inn í þessi mál, en ég vil eindregið mælast til þess að þm. átti sig á því að þó hér sé ekki um fyrirferðarmikil mál að ræða, þá er það nauðsynleg breyting meðan núgildandi lög eru við lýði að setja þetta ákvæði inn svo að misvitrir stjórnendur í ríkiskerfinu á hverjum tíma láti sér ekki detta í hug að mismuna þegnunum að því er varðar ákvæðin um vexti í ákveðnum lánaflokkum. Það ætti að vera einfalt mál, en því miður er það það ekki með þeirri ákvörðun sem félmrh. fékk ríkisstjórnina til að samþykkja. Þess vegna legg ég eindregið til að þetta frv. verði að lögum á þessu þingi.