Gleraugnakaup barna og unglinga
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Málmfríður Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Á þingi veturinn 1988 fluttu þingkonur Kvennalistans frv. um viðauka við lög um almannatryggingar í þá veru að börn, unglingar og ellilífeyrisþegar fengju aðstoð til gleraugnakaupa eftir ákveðnum reglum. Í frv. þessu var vísað til ákvæða í 39. gr. almannatryggingalaga sem kveða svo á að Tryggingastofnun sé skylt að veita styrk til öflunar hjálpartækja sem nauðsynleg eru vegna hamlaðrar líkamsstarfsemi eða vöntunar líkamshluta. Í samræmi við þessa lagagrein greiðir ríkissjóður fullan kostnað heyrnartækja fyrir börn og unglinga til loka skólaskyldualdurs og hluta kostnaðar af heyrnartækjum fyrir þá sem eldri eru.
    Flm. frv. um aðstoð við gleraugnakaup rökstuddu mál sitt með því að eðlilegt væri að sömu reglur giltu um kaup á aðstoðartækjum vegna fötlunar á sjón og á heyrn. Hvor tveggja þessi fötlun kemur til vegna meðfæddra galla eða af völdum sjúkdóma eða slysa og er viðkomanda ósjálfráð. Markmið frv. var að sjónskertir sætu við sama borð og heyrnarskertir um aðstoð til hjálpartækjakaupa. Ekkert hefur heyrst um afdrif frv. síðan á vordögum 1988 og því hef ég leyft mér á þskj. 536 að beina fsp. til heilbr.- og trmrh. um hvað ráðherra hafi aðhafst í framhaldi af samþykkt Nd. 29. apríl 1988 um að vísa til ríkisstjórnarinnar frv. til laga um almannatryggingar þar sem fjallað er um aðstoð við börn og unglinga til gleraugnakaupa.