Gleraugnakaup barna og unglinga
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Virðulegur forseti. Hv. 7. þm. Norðurl. e. hefur beint til mín fyrirspurn sem hann hefur nú gert grein fyrir. Frv. það sem hér var vitnað til var flutt á 110. löggjafarþingi sem 256. mál. Frv. gerði ráð fyrir því að sjúkratryggingar greiddu allan kostnað við gler og fasta upphæð sem samsvaraði meðalkostnaði við gleraugnaumgerðir fyrir börn og unglinga að 18 ára aldri og fyrir elli- og örorkulífeyrisþega sem njóta tekjutryggingar. Einnig var gert ráð fyrir að aðrir elli- og örorkulífeyrisþegar fengju greiddan kostnað vegna glerja.
    Með nál. heilbr.- og trn. frá 22. apríl 1988 var málinu vísað til ríkisstjórnarinnar með tilliti til þess að heildarendurskoðun laga um almannatryggingar færi fram og þá er spurt hvað ráðherra hafi aðhafst í málinu.
    Ráðherra sendi málið til endurskoðunarnefndar og óskaði eftir að hún tæki afstöðu til tillögunnar þegar hún sendi frá sér lokanefndarálit sitt. Ég hef leitað upplýsinga frá nefndinni sem er nú á lokastigi sinna starfa, þessara endurskoðunarstarfa, og í svari hennar kemur m.a. fram eftirfarandi:
    ,,Í b-lið 39. gr. almannatryggingalaganna er gert ráð fyrir veitingu styrkja til öflunar hjálpartækja og bifreiða sem nauðsynlegar eru vegna hamlaðrar líkamsstarfsemi eða vöntunar líkamshluta. Í lögunum sjálfum er ekkert um það getið til hvaða hjálpartækjakaupa styrk skuli veita.
    Tryggingaráð hefur sett reglur um framkvæmd b-liðar 39. gr. Í þeim reglum er hjálpartækjum skipt í flokka og styrkur greiddur sem ákveðið hlutfall af kostnaði við öflun hjálpartækja. Þegar ákveðið er að taka inn hjálpartæki á hjálpartækjalista Tryggingastofnunar sem styrkur er greiddur út á, þá er það gert að vandlega athuguðu máli og ávallt skoðað hvaða sjúkdómar séu ástæðan fyrir því að einstaklingurinn þurfi á hjálpartækjum að halda. Sjálfsagt má fullyrða að gleraugu séu hjálpartæki. Það er hins vegar svo að tryggingaráð hefur enn ekki treyst sér til að taka gleraugu inn á hjálpartækjalista stofnunarinnar þar sem
mörg önnur hjálpartæki sem ekki er síður þörf á að styrkja hafa ekki verið tekin inn á listann. Kostnaður við að bæta gleraugum við þau hjálpartæki sem styrkja skuli hefur ekki verið áætlaður en er vafalítið mjög mikill og um leið yrði að taka fleiri hjálpartæki inn á lista stofnunarinnar. Engar lagabreytingar þarf að gera á almannatryggingalögunum til að hægt sé að veita styrki til gleraugnakaupa. Það er fyrst og fremst ákvörðun tryggingaráðs að ákveða hvort gleraugu skuli flokkast sem hjálpartæki eða ekki.
    Nefnd sú sem er að endurskoða almannatryggingalögin telur hins vegar að gleraugu verði að flokka sem hjálpartæki og því eigi að greiða styrki til þeirra sem á gleraugum þurfi að halda eftir ákveðnum reglum þar um. Mun það álit nefndarinnar koma fram í endanlegum tillögum hennar um

hjálpartækin þó það kalli ekki á beinar tillögur um breytingar á almannatryggingalögum.``
    Svo hljóðar það svar og við það vil ég bæta því áliti mínu að ég tel að eðlilegt og nauðsynlegt sé að taka upp stuðning vegna gleraugnakaupa eins og eða hliðstætt því sem kom fram í frv. því sem hv. þm. vitnaði hér til með fyrirspurn sinni. Og ég tel eðlilegt að það mál verði skoðað hið fyrsta ef það er svo að ekki þurfi að gera á þessu lagabreytingu eins og hér kemur fram í þessu svari frá nefndinni. Álit nefndarinnar hljóðar um, að eðlilegt sé að þessi hjálpartæki séu einnig styrkt eins og ýmis önnur. Ég vil hins vegar bæta því enn einu sinni við hér, eins og ég hef reyndar gert nokkuð oft áður, að ég treysti því og veit reyndar að þessu nefndarstarfi er að ljúka og ég mun geta lagt hér inn í þingið nú fyrir vorið frv. að nýjum almannatryggingalögum þó svo að úr því sem komið er séu ekki miklar líkur á að það verði afgreitt fyrir vorið. Kannski tækist að afgreiða það á haustþinginu og þá ætti a.m.k. að vera alveg ljós vilji og hugsun nefndarinnar hvað þennan þátt varðar og vonandi ýmsa fleiri þætti sem hafa verið hér til meðferðar á seinustu þingum og verið vísað til þessarar margumræddu endurskoðunar.