Gleraugnakaup barna og unglinga
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Mér skildist á hæstv. ráðherra að það væri jafnvel álitið að það þyrfti ekki lagabreytingar við til þess að setja reglugerð um gleraugu. Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að vinda bráðan bug að því að reyna að koma þessum málum í lag. Ég held að ekki geti verið nokkur vafi á því að það sé hægt að flokka gleraugu undir hjálpartæki. Auðvitað er þörfin misjöfn en við þekkjum það að það eru jafnvel tilfelli þar sem öll börn í einni fjölskyldu þurfa að nota gleraugu frá unga aldri og það segir sig sjálft að þetta er mikill útgjaldaliður fyrir slík heimili og ég tala nú ekki um einnig fyrir aldraða vegna þess að við vitum það öll að gleraugu eru mjög dýr. Þess vegna vildi ég, um leið og ég þakka hv. fyrirspyrjanda, 7. þm. Norðurl. e., fyrir að bera fram þessa fsp. og vekja þannig aftur athygli á þessu máli, endilega hvetja hæstv. ráðherra til þess að vinda nú bráðan bug að því að koma þessum málum í höfn.