Skipulag svæðisins umhverfis Gullfoss og Geysi
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Í júní 1986 gerðu Skipulag ríkisins og Biskupstungnahreppur samning við Einar E. Sæmundsen um gerð aðalskipulags fyrir svæðið umhverfis Geysi í Haukadal. Að þessu verkefni hefur verið unnið síðan í samráði við Geysisnefnd og Náttúruverndarráð. Fyrir liggur tillaga sem unnið hefur verið eftir, m.a. þegar íþróttahúsinu var breytt í hótel. Ekki hefur náðst samstaða um þessa tillögu þannig að hægt sé að auglýsa hana samkvæmt skipulagslögum og er ástæðan fyrir því aðallega sú að óvissa ríkir enn um skiptingu lands. Fljótlega verður þó reynt að ná samkomulagi um tillögu sem auglýst verður. Skipulag ríkisins hefur einnig í samvinnu við Náttúruverndarráð, Biskupstungnahrepp og Ferðamálaráð unnið að gerð tillögu að skipulagi þjónustumiðstöðvar við Gullfoss. Tillagan miðaði við að miðstöðinni yrði valinn staður við nýjan Kjalveg þar sem hreinlætisaðstaða verður og bifreiðastæði fyrir hópferðabifreiðar og fleira. Ekki hefur enn fengist endanleg niðurstaða úr þeirri vinnu.
    Á vegum Skipulagsstjórnar ríkisins og viðkomandi sveitarfélaga er nú unnið að gerð svæðisskipulagsáætlana fyrir Grímsnes-, Grafnings- og Þingvallahreppa annars vegar og hins vegar fyrir Hveragerði, Selfoss og Ölfushrepp. Reiknað er með að tillögur liggi fyrir í byrjun árs 1991. Í þessum svæðisskipulagsáætlunum er lögð mikil áhersla á samgöngumál, ferðamál, náttúruvernd, skógrækt, landgræðslu og sumarbústaði. Hjá embætti skipulagsstjóra ríkisins er mikill áhugi fyrir því að hafinn verði í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir undirbúningur að svæðisskipulagi sveitarfélaganna í uppsveitum Árnessýslu, þ.e. Laugardals-, Biskupstungna-, Hrunamanna- og Gnúpverjahreppa. Í því svæðisskipulagi verður lögð megináhersla á samgöngumál, ferðamál, náttúruverndarmál, sumarbústaði o.fl. Í svæðisskipulaginu verður væntanlega jafnframt sýnt fram á tengingu helstu
ferðamannastaða á öllu Suðvesturlandi í allsherjar útivistarsvæði íbúa þéttbýlisstaðanna.
    Virðulegur forseti. Í tilefni af þeirri fsp. sem hér er til umræðu mun ég óska eftir því við Skipulag ríkisins að umræddri vinnu verði hraðað eftir föngum þannig að skipulagningu svæðisins umhverfis Gullfoss og Geysi verði lokið eins fljótt og kostur er. Ég vænti þess að þessi orð mín hafi svarað fsp. hv. þm.