Afnám jöfnunargjalds
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Lög um jöfnunargjald á innflutning voru samþykkt á hv. Alþingi 1978. Jöfnunargjald var lagt á þá tollflokka sem tollar voru felldir niður af vegna samkomulags annars vegar við EFTA og hins vegar við EB. Á öllum stigum málsins, þegar fjallað var um jöfnunargjald, var það alveg ljóst að fella skyldi þetta gjald niður þegar við breyttum okkar skattkerfi og hyrfum frá söluskatti og til virðisaukaskatts. Þetta kom fram ekki einungis í stjórnarfrumvörpum heldur einnig í þingmannafrumvörpum, þar á meðal í frv. sem hæstv. fjmrh., sem þá sat á þingi í efri deild, flutti. Í greinargerð með því frv. var sagt skýrt og skorinort að þetta gjald skyldi fellt niður þegar virðisaukaskattur yrði upp tekinn.
    Í lögunum um virðisaukaskatt sem samþykkt voru 1987 er skýrt tekið fram að ekki sé gert ráð fyrir að jöfnunargjald verði lagt á eftir að virðisaukaskatturinn gangi í garð. Til þess að kóróna síðan allt saman var fyrir ári síðan gerð samþykkt í ríkisstjórninni í tengslum við kjarasamninga þar sem sagt var beinlínis að jöfnunargjaldið yrði hækkað tímabundið úr 3% í 5% en fellt niður þegar virðisaukaskattur kæmi til framkvæmda. Þetta er loforð sem gefið er og kemur fram í bréfi hæstv. forsrh. til Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna og er dags. 30. apríl 1989, loforð ríkisstjórnarinnar hæstv. í tengslum við kjarasamninga. Hverjar voru svo efndirnar? Efndirnar voru þær að áfram er haldið að heimta inn 5% jöfnunargjald og gert er ráð fyrir því að þetta gjald komi til með að setja í ríkissjóð um 500 millj. kr. Sé það hins vegar reiknað út hve gjaldið ætti að skila miklu inn ef það er lagt á allt árið væri það líklega u.þ.b. milljarður.
Af þessum ástæðum, virðulegur forseti, hef ég ákveðið í framhaldi af umræðum sem urðu hér um frv. til laga um breytingu á virðisaukaskattslögum fyrir jól að spyrja hæstv. fjmrh. á þessa leið:
,,1. Hvenær á árinu verður jöfnunargjaldið afnumið?
    2. Verður hlutfallið óbreytt þangað til gjaldið verður afnumið eða verður það lækkað í áföngum?``
    Ef gjaldið er fellt niður allt í einu er eðlilegast að miða við 1. júlí, og í reynd mætti maður halda því fram að svo hlyti að vera, en ef annar háttur á að vera á óska ég eftir að hæstv. ráðherra skýri það hér.