Afnám jöfnunargjalds
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Vegna seinni ræðu hv. fyrirspyrjanda vil ég geta þess að þau áhrif söluskattskerfisins sem tengjast jöfnunargjaldinu eru auðvitað enn við lýði fram eftir því ári sem nú er að líða þó að söluskatturinn hafi að forminu til lokið tilveru sinni um síðustu áramót. Þess vegna eru engin einföld og bein tengsl milli þeirrar dagsetningar hvenær söluskatturinn er ekki lengur innheimtur og hvenær áhrifa hans, sem jöfnunargjaldinu er ætlað að tengjast, hættir að gæta.
    Í öðru lagi vil ég lýsa þeirri skoðun, sem ég hef reyndar gert áður hér á Alþingi, að ýmsir telja að í viðræðum okkar Íslendinga við Evrópubandalagið sé nauðsynlegt að um leið og við höldum til haga því að innan Evrópubandalagsins eru margvíslegir styrkir til útflutningsatvinnugreina og greina sem eru í samkeppni við íslenskar útflutningsgreinar geti verið skynsamlegt út frá íslenskum hagsmunum að íhuga annars vegar jöfnunargjaldið og hins vegar spurninguna um það hvenær Evrópubandalagið hættir að mismuna og styrkja á sínum vettvangi vegna þess að það er auðvitað enginn frjáls markaður eða frjáls samkeppni ef Evrópubandalagið dælir botnlaust og vitlaust styrkjum í helstu samkeppnisatvinnuvegi Íslendinga en við eigum síðan að vera með algjörlega gjaldalausan og frjálsan innflutning og framleiðslu á öllum sviðum. Það er engin sanngirni í því.
    Ég er ekki að segja að þetta sé mín skoðun. Ég er einfaldlega að lýsa því að það eru margir sem hafa haldið þessu fram og það er margt til í þessu sjónarmiði og auðvitað verðum við að halda öllu okkar til haga þegar við setjumst að þessum samningum. Það var m.a. þetta sem ég átti við þegar ég í fyrri ræðu minni benti mönnum á það að tilvera þessa jöfnunargjalds væri ekki alveg eins einföld út frá íslenskum hagsmunum og fyrirspyrjandi vildi vera láta. Ef menn hins vegar eru bara með einhverja orþódoxíu frjálsrar verslunar
á vörunum til að mynda sína afstöðu má kannski finna stoð þess sem hv. fyrirspyrjandi sagði hér í sinni ræðu, en ég hélt nú að við værum fyrst og fremst að hugsa um íslenska hagsmuni, hagsmuni íslenskra framleiðsluatvinnuvega og íslenskra útflutningsatvinnuvega.
    Fyrirspyrjandi spurði svo: Hvenær á árinu verður þessi ákvörðun tekin? Ég get ekkert dagsett það hér og nú hvenær sú ákvörðun verður tekin en hún verður tekin á árinu.