Starfræksla H1-heilsugæslustöðva
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson):
    Herra forseti. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. heilbrrh. tveggja spurninga í þessari fsp.:
,,1. Hvað hefur heilbrrh. gert til að tryggja að H1-heilsugæslustöðvar séu starfræktar með eðlilegum hætti?
    2. Eru laun lækna á H1-heilsugæslustöðvum lægri en ef þeir væru starfandi á H2-heilsugæslustöð?``
    Ég tel að ekki sé nóg að hafa skráð í Lagasafni Íslands að á þessum og hinum staðnum skuli starfrækt H1-heilsugæslustöð ef æðstu yfirmenn gera sér ekki grein fyrir því að þessar stöðvar verður að manna. Lengi vel var þannig staðið að mönnun læknishéraða á Íslandi, ef með þurfti, að það var skylda og hluti af því sem læknakandídatar urðu að gangast undir að sinna þar læknisskyldu vissan tíma. Og ég veit ekki betur en að íbúar þessara svæða séu allir skyldugir að íslenskum lögum til að greiða skatta til Háskóla Íslands til að mennta þá sem þar stunda nám í læknisfræði og ég vil hafa þessar skyldur gagnkvæmar ef með þarf.
    Hitt nær náttúrlega engri átt, ef rétt er, að með launagreiðslum sé svo mismunað þeim sem starfa við H1-heilsugæslustöðvar gagnvart hinum sem vinna við önnur læknisstörf í landinu að það sé ástæðan fyrir því að menn komi sér hjá því að sækja um þessi störf og sinna þeim.