Starfræksla H1-heilsugæslustöðva
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Virðulegi forseti. Hv. þm. hefur hér beint til mín fsp. sem hann hefur gert grein fyrir og er í tveimur liðum.
    Fyrri liðurinn er: ,,Hvað hefur heilbrrh. gert til að tryggja að H1-heilsugæslustöðvar séu starfræktar með eðlilegum hætti?``
    Heilbrrh. hefur gert allt sem lög heimila til að tryggja það að H1-heilsugæslustöðvar séu starfræktar með eðlilegum hætti. Í landinu eru átján H1-heilsugæslustöðvar. Af þeim eru ellefu í nýbyggðu eða nýkeyptu og endurbættu húsnæði. Á tveimur stöðum er verið að byggja húsnæði sem lokið verður við á næsta ári og á fimm stöðum eru H1-stöðvar í eldra húsnæði sem þó hefur verið lagfært og endurbætt mjög verulega á síðustu árum.
    Hvað varðar tækjabúnað stöðva hefur hann stöðugt verið í uppbyggingu og víðast hefur tekist að ná þeim tækjastaðli sem Læknafélag og landlæknisembættið telja að þurfi að vera á þessum stöðvum.
    Hvað varðar mönnun stöðva hefur hún undanfarin ár víðast hvar gengið vel. Hjúkrunarfræðingar hafa yfirleitt fengist til starfa á H1-stöðvum og oft til lengri tíma, en tvær undantekningar hafa verið frá þessu, á Þórshöfn og á Þingeyri.
    Það hefur gengið vel einnig að manna H1-stöðvar læknum þó að nokkuð hafi brugðið til verri vegar nú síðustu tvö árin. Læknar hafa yfirleitt setið til langframa á þessum stöðvum en undantekningar frá þessu eru þó hinar sömu stöðvar, þ.e. á Þingeyri og á Þórshöfn, og nú síðustu tvö árin á Flateyri. Á stöðinni á Raufarhöfn hefur ekki setið læknir mjög lengi en þeirri stöðu er nú gegnt frá Kópaskeri þar sem læknir situr og er það með góðu samkomulagi við heimamenn.
    Sl. ár hafa læknar yfirleitt dvalið stuttan tíma á Þórshöfn en þess á milli hafa læknar á Vopnafirði sinnt þar læknisstörfum og hafa meginhluta sl. árs
verið ráðnir tveir læknar á Vopnafjörð, m.a. vegna þessa ástands. Þar sem verst hefur gengið að fá lækna til starfa er, eins og fyrr sagði, á Þingeyri og Flateyri og þar virðist ekki lausn í sjónmáli, að fá lækni til lengri dvalar eins og sakir standa.
    Með vísun til þessara upplýsinga tel ég að tekist hafi, eins og sagt var fyrst, að halda starfi H1-heilsugæslustöðva, er á heildina er litið, með nokkuð eðlilegum hætti en því miður eru þarna á undantekningar sem reynt er að bregðast við á hverjum tíma, m.a. með því að fá lækna til þess að sitja þar skamman tíma í senn og má nefna það að meira að segja landlæknir hefur sjálfur hlaupið þar í skarðið öðru hvoru.
    Seinni liður fsp. var: ,,Eru laun lækna á H1-heilsugæslustöðvum lægri en ef þeir væru starfandi á H2-heilsugæslustöð?``
    Hvað varðar laun lækna eru föst laun lækna á H1-stöðvum hærri en laun lækna á H2-stöðvum, enda hafa þeir stöðuga vaktskyldu. Heildarlaun lækna fara

hins vegar að verulegu leyti eftir fjölda íbúa í læknisumdæminu og þar sem fámenn umdæmi eru eru laun lækna verulega lægri en þar sem fjölmenni er. Af þessum ástæðum eru laun lækna t.d. á Þingeyri og Flateyri lægri en á öðrum H1-stöðvum og getur það að sjálfsögðu átt og á vafalaust nokkurn þátt í því að erfiðlega hefur gengið að manna þessa staði.
    Af hálfu ráðuneytisins, landlæknisembættisins og læknasamtakanna er nú unnið að því að endurskoða kjör lækna á H1-heilsugæslustöðvum með hliðsjón af þeim launum sem læknum eru greidd á sjúkrahúsum, en öll samningamál þar að lútandi koma að sjálfsögðu í hlut fjmrn. þegar lengra kemur.
    Svo sem kunnugt er hefur læknadeild Háskóla Íslands takmarkað þann fjölda kandídata sem útskrifast á hverju ári og kemur það glögglega niður á læknisþjónustunni á heilsugæslustöðvum í landinu nú þegar því að 36--40 læknakandídatar sem útskrifast árlega fylla ekki einu sinni þær kandídatsstöður sem til eru á sjúkrahúsunum og með vaxandi fjölda kvenna í þessum hópi, sem lítið hafa leitað út til heilsugæslunnar, er fyrirsjáanlegt að framboð lækna til heilsugæslustöðva muni minnka á næstu árum, að öllu óbreyttu.
    Ég hef því hugleitt að nauðsynlegt muni reynast að taka á ný upp starf læknakandídata á heilsugæslustöð sem nauðsynlegan þátt í námi þeirra til þess að öðlast lækningaleyfi, en til þess að það geti orðið þarf að breyta reglugerð um lækningaleyfi og sérfræðileyfi og lög þar að lútandi eru á þann veg nú að læknadeildin er ákvarðandi um þetta fyrirkomulag.
    Í ráðuneytinu eru nú í undirbúningi breytingar hvað þetta varðar, bæði á lögum og reglugerð, til þess að bregðast megi við svo sem hér hefur verið lýst og ég vona, ef það tekst, bæði hvað varðar hugmyndir um námið, að það sé nauðsynlegur hluti þess að læknakandídatar starfi á heilsugæslustöð, svo og einnig um breytt fyrirkomulag launa, að þá muni okkur takast að snúa þarna vörn í sókn og að á næstunni muni ganga betur að manna þessar einmenningsstöðvar, en það er rétt eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að þetta er að sjálfsögðu óviðunandi ástand.