Starfræksla H1-heilsugæslustöðva
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson):
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svör hans. Ég vil bæta því við að ég tel að sú skylda hvíli á heilbrrn. og hæstv. ráðherra að leggja til lagabreytingar hér á Alþingi, ef þess þarf með, til að knýja fram lausn á þessu máli. Ég gæti sagt hér eitt og annað varðandi ástæðuna fyrir læknisleysi á Flateyri, en kannski er það nú svo að skynsamlegra sé að vera ekki að rifja þau mál upp en þá voru mín varnaðarorð að engu höfð og hefði verið nær fyrir heilbrrn. að gá að sér á sínum tíma en að stefna því máli í þá ófæru sem það fór í. Ég hins vegar þakka heilbrrh. fyrir hans svör og þó sérstaklega fyrir það að hann lýsir því yfir að ástandið sé óviðunandi og á því verði að taka.