Aðgerðir vegna tillagna nauðgunarmálanefndar
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Virðulegi forseti. Aðeins örstutt. Eins og reyndar kom fram í máli mínu fyrr, þá er það rétt að skýrsla þessi og málsmeðferð hefur lítið verið til umræðu í heilbrrn. Og af því að fyrirspyrjandi, hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir, sagði að það hefði verið mikið ýtt á eftir þessu í ráðuneytum við einstaka ráðherra og aðstoðarmenn þeirra, þá er mér kunnugt um það að nokkuð var fjallað um skýrslu þessa af hálfu aðstoðarmanna þriggja ráðherra á haustmánuðum en einnig þar var heilbrrn. ekki með í ráðum og ekki með í því starfi frekar en við skýrsluna sjálfa, enda nefndin sem þar er skipuð ekki skipuð skv. tilnefningum frá aðilum heldur valin af ráðherra og starfar á ábyrgð hans.
    En einhverra hluta vegna er það svo að þetta mál hefur legið utan garðs í heilbrrn. Ég kannast við það og man eftir því að við hv. fyrirspyrjandi höfum að vísu rætt þetta mál einhvern tíma síðsumars 1989 og svo aftur við fjárlagaafgreiðsluna nú fyrir jólin. Það er rétt að hv. fyrirspyrjandi hefur vissulega spurt mig að því hvað væri að gerast í þessum málum hjá okkur. Þegar við áttum tal saman fyrr á sl. ári eða í fyrra skipti um þetta mál sérstaklega kom í ljós að þessi skýrsla var ekki einu sinni til í heilbrrn., hafði aldrei verið send þangað og aldrei beðið þar um neina umfjöllun og hafði þess vegna ekki verið tekin þar til neinnar meðferðar. Eins og ég nefndi líka áðan, þá var hún þess vegna ekki til umræðu eða tillögur þar að lútandi við gerð eða undirbúning fjárlagafrv. fyrir þetta ár.
    Það kom einnig fram í máli hv. fyrirspyrjanda að gert væri ráð fyrir að nýta það sem nú þegar er til í kerfinu af aðstöðu og starfsfólki. Þá er það nú svo því miður að ég hygg að í flestum heilbrigðisstofnunum telji menn sig nú hafa meira en nóg að gera að glíma við þau verkefni sem þar eru fyrir og nýjum verkefnum verði ekki bætt
inn öðruvísi en til þess komi a.m.k. aukinn mannafli og kannski einnig bætt aðstaða. Um það ætla ég þó ekki að segja neitt frekar á þessu stigi af því að málið hefur ekki verið skoðað svo.
    Ég vil þó geta þess að einn af flöskuhálsunum í heilbrigðisþjónustunni hefur um árabil verið talinn slysavarðstofa Borgarspítalans. Þar hefur verið gríðarlegt álag á starfsfólki sem hefur reynt að gera sitt besta en á seinasta ári komu upp nokkrar athugasemdir, og reyndar líka á árunum þar áður, um þjónustu þessarar deildar. Ég setti því á laggirnar sérstakan starfshóp til að fjalla um starfsemi slysavarðstofunnar og hvernig mætti auka og bæta þjónustu þar. Það komu ítarlegar tillögur fram um það og reyndar náðist nokkuð af þeim inn í fjárlagafrv. og var samþykkt með fjárlögum fyrir þetta ár þannig að ég vonast til að þar megi nokkuð bæta þjónustu. En einnig í þeim tillögum var fyrst og fremst verið að fjalla um þá starfsemi sem þar hefur verið fyrir hvað þjónustustig varðar og hvernig bæta mætti það og

auka, en ekki gert ráð fyrir nýrri starfsemi eins og þeirri sem hér er verið að tala um og neyðarmóttaka sú sem hér er rætt um kom aldrei til tals í þeirri nefnd varðandi endurskipulagningu á starfsemi slysadeildarinnar, sem mér skilst að í tillögum nauðgunarmálanefndarinnar sé talinn hugsanlega sá staður þar sem ætti að koma fyrir þessu neyðarathvarfi.