Breytingar á XXII. kafla hegningarlaga
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég held áfram fyrirspurnum um sama efni í raun, en þessari fsp. er beint til hæstv. dómsmrh. Hún varðar breytingar á XXII. kafla hegningarlaganna sem fjallar um skírlífisbrot eða kynferðisbrot.
    Nefndin sem ég gat um áðan gerði tillögur um breytingar á þessum lögum og fylgdi reyndar frv. með tillögum nefndarinnar og greinargerð um þær breytingar. Helstu markmið nefndarinnar með þeim breytingum voru:
    1. Að ákvæði um kynferðisbrot verði ókynbundin.
    2. Að ákvæði um kynferðisbrot verði samræmd í anda ríkjandi viðhorfa nú á dögum og með hliðsjón af breytingum annars staðar á Norðurlöndum.
    3. Að gleggri skil verði milli verknaðarlýsinga en í gildandi ákvæðum, sérstaklega varðandi mörkin milli nauðgunar og annarrar kynferðislegrar nauðungar.
    4. Að refsivernd verði almennt aukin með því að leggja ýmsar kynferðisathafnir að jöfnuði við samræði.
    5. Að refsivernd barna og ungmenna verði styrkt frá því sem nú er.
    Þetta frv. var reyndar lagt fram með tillögum nefndarinnar en annað ítarlegra frv. var skrifað sem nefndin sem slík vann ekki, heldur formaður nefndarinnar og ritari sem er deildarstjóri í dómsmrn. Þetta frv. var síðan lagt fram á 111. löggjafarþingi á árunum 1988--1989, en fór til nefndar og hlaut ekki
afgreiðslu. Þegar málið var til umfjöllunar hér á þinginu komu fram ýmsar athugasemdir við nokkrar greinar frv. og á fund allshn. Ed. sem hafði málið til umfjöllunar komu fulltrúar Samtaka gegn kynferðislegu ofbeldi, fulltrúar Kvennaráðgjafar, Kvennaathvarfs og afbrotafræðingur sem setið hafði í nauðgunarmálanefnd. Allir þessir fulltrúar skiluðu ítarlegum greinargerðum um skoðanir sínar á málinu og reynslu af störfum í grasrótinni ef svo má segja og lögðu til nokkrar breytingar á frv. þó að allir væru í raun ánægðir með að komnar væru fram breytingar á þessum kafla hegningarlaganna.
    Nú vil ég spyrja hæstv. dómsmrh.:
    1. Hyggst hann láta fara fram endurskoðun og breytingar á þessum kafla hegningarlaganna, sem fjallar um kynferðisbrot, í samræmi við athugasemdir og tillögur sem komu fram við þessa umfjöllun síðast þegar málið var lagt fram?
    2. Hvenær hyggst dómsmálaráðherra leggja fram frumvarp til laga um breytingar á þessum kafla hegningarlaganna?