Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Það sem fær mig hingað upp eru þær fjórar fsp. sem hv. 6. þm. Reykv. hefur lagt hér fram um nauðgunarskýrslu sem nefnd samdi á þarsíðasta ári.
    Til að taka á þessum málum er ekki nóg að breyta hegningarlögunum. Það frv. sem lagt var fyrir á síðasta þingi um það hvernig ætti að breyta XII. kafla almennu hegningarlaganna hefur lítið vægi í þeim efnum. Þar er verið að mæla fyrir þyngri refsingu en ekkert tekið á málsmeðferðinni sem slíkri. Til þess þyrfti að breyta lögunum um meðferð opinberra mála. Þegar málið kom til umræðu í Ed. á síðasta þingi var talað um það af hæstv. dómsmrh., sem þá var Halldór Ásgrímsson, að í kjölfarið mundu fylgja breytingar á lögum um meðferð opinberra mála. Ég held að til að koma þessum málum í viðunandi horf í réttarkerfinu þurfi að taka verulega á þeim lögum um það hvernig staðið skuli að rannsókn þessara mála og einnig hvaða meðferð brotaþolar skuli fá í kerfinu í heild. Ekki aðeins í dómskerfinu heldur líka í heilbrigðiskerfinu. Ég vil þess vegna skora á hæstv. dómsmrh. að taka til athugunar lögin um meðferð opinberra mála með þetta að markmiði.