Flugfélagið Flying Tigers
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson):
    Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fyrir hæstv. samgrh. svohljóðandi fsp.:
    ,,Hvað hefur samgönguráðherra gert til að tryggja að flugfélagið Flying Tigers lendi áfram í Keflavík og flug með ferskan fisk til Japans geti haldið áfram ótruflað?``
    Markmið mitt með þessari fsp. er fyrst og fremst að fá svar við því hvort samgrh. líti svo á að honum beri að stuðla að því að flugvöllurinn sé sem mest notaður til flugs í þjónustu Íslendinga, til flutnings á fiski og öðru sem við þurfum að koma til útlanda og að það frelsi eigi að ríkja í þessum efnum að menn setji ekki fótinn fyrir þá aðila sem hafa verið að vinna að uppbyggingu á vöruflutningaflugi til útlanda.
    Það má alltaf deila um stærð mála. Ég tel að hér sé um gífurlegt stórmál að ræða. Ég tel að á sínum tíma, þegar Íslendingar þurftu að verjast í þorskastríðinu, hafi það ráðið úrslitum að við gátum fundið nýja markaði fyrir okkar vörur. Ég tel að í þeim samningaviðræðum sem nú standa yfir í Evrópu um viðskiptakjör Íslands í náinni framtíð sé stærsta málið hvort við nú vinnum vasklega að því að efla okkar markaði í Asíu til að tryggja að samningsaðstaðan sé á þann veg að við getum samið. Við vitum að fiskeldi í landinu hefur þörf fyrir hindrunarlaust flug og þjónustu frá Keflavík sem tryggi það að hægt sé að koma slíkum afurðum ferskum á markað. Við vitum það einnig að íslenskur sjávarútvegur hefur þörf fyrir slíkt flug. Og síðast en ekki síst, þeir sem hafa staðið í því að skipuleggja þetta vegna
hestaútflutnings.
    En ég vil ekki ganga á tíma minn. Forseti hefur slegið í bjölluna en sennilega hefði ég átt að kveðja mér hljóðs utan dagskrár í stað þess að vera hér með fsp.