Flugfélagið Flying Tigers
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Guðmundur G. Þórarinsson:
    Hæstv. forseti. Aðeins örstutt. Það mál sem hér er til umræðu er afar mikilvægt og ég hygg að almenningur hafi mest fylgst með því í fréttum. Flug Flying Tigers hefur verið mikilvægt vegna tengsla við ný markaðssvæði í Suðaustur-Asíu og víðar í Asíu. Fyrir ýmsa útflutningsaðila er mjög brýnt að fylgst sé náið með þeirri þróun sem þarna er um að ræða.
    Það er út af fyrir sig alltaf umhugsunarefni þegar þjónusta er veitt af samkeppnisaðila. Ég vil sérstaklega þakka fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál hér fyrir og samgrh. fyrir hans svör og taka undir með fyrirspyrjanda að það er mjög nauðsynlegt að einmitt hér á hinu háa Alþingi sé beint fsp. til utanrrh. þar sem hann geri nánari grein fyrir þessum samningum varðandi þjónustugjöldin.