Flugfélagið Flying Tigers
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég ætla að þakka fyrirspyrjanda fyrir fsp. og taka undir þau orð hans að hér er um gífurlegt stórmál að ræða. Ég held að hér sé um að ræða miklu stærra mál en margir hv. þm. hafa gert sér grein fyrir vegna þess að framtíð okkar veltur að verulegu leyti á því að við getum komið okkar afurðum á markað í Austurlöndum fjær og þar með dregið úr framboði á þá markaði sem við seljum þegar á í dag og komið ferskri vöru á dýrasta markað í heimi, dýrasta markað í heimi sem er Tókíó. Dýrasti fiskmarkaður í heimi er þar. Og þangað eigum við að stefna í vaxandi mæli okkar afurðum.
    Ég ég vildi bara undirstrika það að hér er um mikið stórmál að ræða og taka undir það enn og aftur. Hér þarf í fyrsta lagi að gera bráðabirgðaráðstafanir og í öðru lagi einhverjar skammtímaáætlanir og í þriðja lagi langtímaáætlanir um það að við séum samkeppnishæf í þjónustu við flugvélar sem þessar. Því ef við getum gert fragtina ódýrari frá Íslandi til Japans fáum við þeim mun hærra skilaverð til íslenskra afurða sem þýðir auðvitað bætt lífskjör landsmanna. Þetta er slíkt stórmál. Og ég kemst ekki hjá því að minna örlítið á, þrátt fyrir þessa ágætu bjöllu, að til þess að þetta flug, til þess að það verði virkilega spennandi að lenda hér, þá þarf annan jafnstóran flugvöll og flugvöllinn í Keflavík. Vegna öryggisástæðna, til þess að þessar flugvélar þurfi ekki að vera að fljúga með 20 tonn af aukaeldsneyti fram og aftur hér í loftinu. Þá er rekstrarhagkvæmni þessara flugvéla yfir landið miklu, miklu meiri, sem nemur þessum 20 tonnum í þessum flugvélum sem þýðir að þeir geta boðið okkur ódýrari fragt og hærra skilaverð fyrir afurðirnar.