Flugfélagið Flying Tigers
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Það sem hv. síðasti ræðumaður vék nú síðast að er að nokkru leyti úreltar upplýsingar. Auk þess stendur þetta allt til bóta og ég hvet hv. 5. þm. Austurl. til að styðja dyggilega við uppbyggingu á Egilsstaðaflugvelli sem mun leysa þetta mál innan vonandi ekki lengri tíma en tveggja til þriggja ára.
    Í öðru lagi vil ég segja að ég get ekki leynt þeirri skoðun minni og vil láta hana koma hér fram að ég tel þá verkaskiptingu sem er á þessu sviði innan Stjórnarráðs Íslands vitlausa. Ég tel að samgrn. eigi að sjálfsögðu að fara með alla yfirstjórn flugmála á Keflavíkurflugvelli, m.a. ákvarða þar lendingargjöld og afgreiðslugjöld. Væru þau verkefni í mínum höndum hefði ég þegar gripið til ýmissa ráðstafana sem ég tel að gætu gert Keflavíkurflugvöll og Ísland að miklu, miklu mikilvægari tengistöð og þjónustustöð fyrir innlend og erlend flugfélög heldur en hann er í dag. Þar liggja verulega miklir möguleikar vegna landfræðilegrar legu okkar og það er ljóst að ýmis stór evrópsk, amerísk og jafnvel alþjóðleg flugfélög hafa talsverðan áhuga á því vegna legu Keflavíkurflugvallar að nýta sér hann. Enn fremur liggur það fyrir að Sovétmenn hafa áhuga á því að skoða þessa staðsetningu fyrir ýmiss konar þjónustustarfsemi við sitt alþjóðlega flug á þessu svæði. Við gætum þess vegna keppt við flugvelli eins og Shannon-flugvöll á Írlandi og Gatwick-flugvöll og fleiri slíka sem hafa af því miklar tekjur og mikla vinnu að þjónusta alþjóðlegt flug á þessu svæði. Þarna bíða okkar miklir möguleikar en við munum ekki geta nýtt okkur þá sem skyldi fyrr en mörkuð verður sérstök stefna í þeim efnum. Við getum boðið upp á ákveðna afslætti til stórra viðskiptavina á þessu sviði o.s.frv. Og það liggur auðvitað í hlutarins eðli að slíkt getur opnað okkur gríðarlega hagstæða möguleika hvað útflutning í allar áttir snertir. Þarna þarf að mínu mati að marka stefnu.
    Ég vil taka það fram til að það misskiljist ekki að ég tel að okkar flugfélög, bæði Flugleiðir og Arnarflug, hafi verið að taka sér tak í þessum fragtflutningarmálum og það er vel. Ég veit að Flugleiðamenn hafa til að mynda gert talsverðar ráðstafanir til þess að veita aukna þjónustu fyrir útflytjendur á Ameríkumarkað á þessum vetri.
    En ég hef engu að síður, og það má koma hér fram, tekið ákvörðun um það að veita leyfi amerísku flugfélagi sem nýlega hefur sótt um fragtflutningaleyfi á flugleiðinni Evrópa-Ísland-Ameríka. Ég hef um það upplýsingar að það hefur sótt til bandarísku flugmálastjórnarinnar um sérstaka tilnefningu af hennar hálfu og þá liggur það í hlutarins eðli á grundvelli gagnkvæmnisréttinda loftferðasamninga þessara ríkja að það fær slíkt leyfi. Ég hef þess vegna veitt flugfélaginu Arrow Air, sem í samvinnu við Pan Am hefur sótt um að fá að flytja vörur á flugleiðinni Evrópa-Keflavík-Ameríka, tímabundin leyfi til slíkra

flutninga þangað til svör hafa borist við umsókn þess hjá bandarískum yfirvöldum.
    Ég vinn samkvæmt þeirri reglu, eins og kom hér reyndar fram í mínu máli áðan, að auðvitað viljum við helst að íslensk flugfélög sinni sem mestu af þessari þjónustu og að því hljótum við auðvitað að stefna að breyttu breytanda en við megum ekki láta það koma í veg fyrir að útflytjendum á vörum standi sem flestir möguleikar til boða. Þess vegna er að mínu mati nauðsynlegt að byggja á víðsýnni stefnu hvað það snertir að veita erlendum flugfélögum hér réttindi ef það opnar íslenskum útflytjendum meiri möguleika en þeim ella stæðu til boða, meiri möguleika og hagstæðari. Samkvæmt þeim reglum vinn ég og hef þess vegna, þó að það þýði jafnvel samkeppni við innlend flugfélög, veitt þessi leyfi eins og ég hef nú hér gert grein fyrir.