Uppskurður og hagræðing í ríkiskerfinu
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Guðmundur G. Þórarinsson:
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu að mínu viti ein af mikilvægustu tillögunum sem lagðar hafa verið fram á Alþingi Íslendinga í langan tíma. Hér er þess freistað að fá þingið, fá alþm. til þess að fjalla um ríkisreksturinn á hlutlægan hátt, um tillögur og úrbætur til að ná tökum á þessum mikilvæga rekstri. Það hlýtur því að vekja mikla athygli að þm. almennt virðast ekki hafa mikinn áhuga á þessu máli ef marka má af setu manna hér í salnum, ekki síst þegar tekið er mið af því að fjölmargir þm. gera hallann á ríkissjóði að umræðuefni í fjölmörgum af sínum ræðum og stærsti stjórnmálaflokkur landsins, Sjálfstfl., gerir það iðulega.
    Ég verð þess vegna að játa það að ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum, sérstaklega með þátttöku sjálfstæðismanna í þessum umræðum. Mér er eiginlega spurn eftir þeirra málflutning: Hvaða tillögur hafa sjálfstæðismenn gert til úrbóta í ríkisrekstrinum? Þær eru vandfundnar. Hvert er innlegg þeirra í þessa umræðu? Hv. þm. sjálfstæðismanna á Austurlandi sem hér talaði áðan eyddi meginhluta af sínum ræðutíma í fræðilegar umræður um það hvað væri vinnuhópur, algert smáatriði í þessu efni.
    Sannleikurinn er sá, meginkjarni málsins er sá, að hallinn á ríkissjóði hefur verið mjög mikill undanfarin ár. Meginmálið er það að hvort sem það hafa verið fjármálaráðherrar Sjálfstfl. eða aðrir, þá hafa þeir ekki náð tökum á ríkisrekstrinum. Hallinn hefur verið svo mikill að það hefur jafnvel borið við að segja má að ríkissjóður hafi tapað sem svaraði 10--15 frystitogurum á tveimur árum með halla sínum. Það hlýtur að vera alveg ljóst að þessum halla verður ekki mætt eingöngu með tekjuöflun. Þess vegna verður að bregðast öðruvísi við vegna þess að við slíkan halla verður ekki búið. Hér er þess freistað að leggja fram vandaðar tillögur til úrbóta, hvernig bregðast skuli við. Það verði farið í uppskurð á ríkiskerfinu í heild
og það tekið alvarlega fyrir. Þegar slíkar tillögur liggja fyrir, ég held mér sé óhætt að segja ítarlegustu og vönduðustu tillögur um uppskurð á ríkiskerfinu sem ég hef séð lagðar fyrir Alþingi Íslendinga, þá kemur það fram að Sjálfstfl. hefur hvorki áhuga eða tíma til að taka þátt í umræðum um þær. Það hlýtur að vera athyglisvert.
    Það er alveg ljóst að það gengur ekki á samdráttartímum, þegar fyrirtæki og heimili eiga í erfiðleikum vegna samdráttar, að gera ráð fyrir því að ríkissjóður auki álögur á fyrirtæki og heimili til þess að standa betur sjálfur. Hann verður að bregðast öðruvísi við. Og einmitt nú í kjölfar kjarasamninganna, þegar sérstaklega er rætt um að skera niður framkvæmdir, hlýtur þetta mál að komast í brennidepil vegna þess að framkvæmdir ríkisins eru litlar. Þar er af litlu að taka. Og það er hörmulegt að verða þess áskynja þegar menn líta á þennan niðurskurð að það er verið að klípa eina og eina millj. af nauðsynlegum framkvæmdum hingað og þangað.
    Þess vegna er það skoðun flm. að það sé

reksturinn sem verður að taka fyrir. Eðli ríkisrekstrarins er slíkt að hann hefur náttúru til þess að vaxa. Hann hefur náttúru til að þenjast út. Bæði almenningur og þm. gera auknar kröfur og jafnóðum sem menn verða við þeim og auka kerfið, þá gleyma menn að taka tillit til gamla kerfisins sem verður að breyta og skera upp. Og það er einmitt þetta sem sagt er hér í greinargerðinni og hv. þm. Málmfríður Sigurðardóttir gerði að umræðuefni, að fjmrh. hafi í auknum mæli nánast starfað sem rukkarar. Þar undanskil ég ekki neinn flokk. Yfirleitt hafa fjmrh. lagt megináherslu á það að innheimta og leggja á skatta í stað þess að endurskipuleggja ríkiskerfið og reyna að ná fram hagræðingu. Það verður ekki lengur haldið áfram á þessari braut. Menn verða að taka þetta mál föstum tökum.
    Danir hafa nýlega fjallað mjög um þetta hjá sér og freista þess nú að leggja fram harðar tillögur til að skera upp ríkisreksturinn. Ríkisstjórn Schluters leitar jafnframt að mönnum í atvinnulífinu, að mönnum meðal þegna sinna sem hafa frumkvæði, þora að taka áhættu, þora að leggja allt sitt undir til þess að brjótast í framleiðslu og efla atvinnulífið. Hér er meira um það að slíkir menn liggi alla daga á hnjánum fyrir framan sjóði eða banka.
    Það hlýtur að verða að ítreka það hér að hann er undraverður sá litli áhugi sem sjálfstæðismenn sýna þessum málum, hann er undraverður.
    Menn gera það nokkuð að umræðuefni að það skuli vera stjórnarþingmenn sem flytja þessa tillögu. Tilgangurinn með því er augljós. Hann miðaði að því að fá Alþingi til að fjalla um þetta mikilvæga mál. Það er Alþingi sem hefur fjárveitingavaldið og þess vegna er það eðlilegt að Alþingi fjalli um þetta mál.
    Orðið ,,vinnuhópur`` sem hv. þm. Kristinn Pétursson gerði hér að umræðuefni er auðvitað eitt af þeim orðum sem notuð eru yfir hóp manna sem vinnur að útboðum. Slíkur hópur getur undir mörgum kringumstæðum ráðið aðila til starfa hvort sem það eru ráðgjafarfyrirtæki eða sérfræðingar og kannski er ekki alltaf breitt bil á milli vinnuhóps og nefndar. Hér var kannski orðið ,,vinnuhópur`` frekar notað vegna þess að áherslan liggur á því að í þessu felst
mikil vinna. En við höfum hugsað það þannig að þeir vinnuhópar hafi sem frjálsastar hendur til að leita til sérfræðinga og aðila til úrvinnslu.
    Virðulegi forseti. Tími minn er á þrotum. En ég ítreka það að hér er til umræðu afar mikilvægt mál. Hér er til umræðu þáltill. um að festa hendur á ríkisrekstrinum sem óneitanlega hefur farið úr skorðum. Og það hlýtur að vekja athygli að sá flokkur sem mest hefur talað um þessi mál hefur lítið lagt til málanna og hefur, að því er virðist, hvorki áhuga eða tíma til að taka þátt í umræðum um málið hér.