Uppskurður og hagræðing í ríkiskerfinu
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Tillaga þessi um uppskurð og hagræðingu í ríkiskerfinu er hér tekin fyrir á þeim tíma þegar yfirleitt fáir þm. eru í salnum, á matartíma. Það er auðvitað algerlega út í bláinn sagt hjá hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni að sjálfstæðismenn hafi hvorki tíma né vilja til þess að ræða þessi mál. Ég hef sem oddviti sjálfstæðismanna í fjvn. rætt þessi mál ítrekað, við ýmis tækifæri hér á Alþingi og annars staðar á undanförnum mánuðum og undanförnum missirum þannig að þetta er mikill misskilningur. Annaðhvort hefur hv. þm. ekki fylgst með ellegar það er hreinn útúrsnúningur að halda því fram að við höfum ekki áhuga á þessum málum og að við höfum ekki vilja til að ræða þessi mikilvægu mál.
    Sú tillaga sem hér liggur fyrir er góðra gjalda verð. Hún er að mínum dómi staðfesting á því að innan stjórnarflokkanna, í Framsfl. a.m.k., eru til menn sem skilja það að þörf er á því að taka á fjármálum ríkisins með öðrum hætti en gert hefur verið að undanförnu og þessu ber vitaskuld að fagna. Ég met það svo að tillagan sem flutt er, að ýmsu leyti í samræmi við minn málflutning um þessi mál, sé stuðningur við það sem ég hef haldið fram. Hvort hér er talað um það að setja á laggir vinnuhóp eða ekki skiptir ekki máli. Við höfum fyrir augum vinnuhóp sem er að fjalla um ríkisfjármál þessa dagana. Það er hæstv. ríkisstjórn sjálf. Hæstv. ríkisstjórn er sá vinnuhópur sem hefur tekið að sér að leggja fyrir Alþingi, fyrst fyrir þm. stjórnarflokkanna og síðan fyrir Alþingi tillögur um úrbætur í ríkisfjármálum. Og þessi vinnuhópur hefur auðvitað besta aðstöðu allra vinnuhópa í landinu þegar það er hæstv. ríkisstjórnin sjálf.
    Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr starfi þessa vinnuhóps sem hefur á bak við sig allt það sérfræðingalið sem ein ríkisstjórn hefur á að skipa. En mér er nær að halda samkvæmt fréttum að það sem út úr starfi þessa vinnuhóps komi verði ekkert annað en smávægilegt krukk, smávægilegur niðurskurður á fé til hinna þörfustu framkvæmda. Þar verði ekki tekið á rekstrarmálum ríkissjóðs. Þar verði ekki tekið á eyðslu og sóun hjá æðstu stjórn ríkisins, hjá ráðherrunum sjálfum, í aðalskrifstofum ráðherranna þar sem þeir raða hverjum gæðingnum á fætur öðrum að jötunni, gæðingum sem síðan safna í kringum sig liði sem eyðir fé ríkisins og skattborgaranna. Ég hygg þess í stað að í þeim vinnuhóp verði tekið á með þeim hætti að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur, þ.e. á það fé sem á að ganga til bráðnauðsynlegra framkvæmda víðs vegar um landið og til ýmissa félagslegra málefna. Ég hef auðvitað ekki séð þær tillögur, en það hefur spurst út m.a. í fjölmiðlum hvernig þær muni líta út.
    Ég held þess vegna að þó að þeir flm. sem hér standa fyrir þessari tillögu hafi af góðum hug lagt til að kallaður verði saman vinnuhópur til þess að fara í þetta verk, þá hafi hæstv. ríkisstjórn tekið fram fyrir hendurnar á þeim. Og það er auðvitað svo að í sjálfri

ríkisstjórninni er enginn vilji til þess að fara þá leið sem hér er lögð til, heldur með allt öðrum hætti. Hæstv. ríkisstjórn vill ekki eða hefur ekki burði til þess að ráðast að því að skera upp ríkiskerfið til þess að ná þar einhverjum sparnaði og samdrætti.
    Ég vakti á því athygli hér fyrir fáum kvöldum í umræðum um þessi mál, sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson hefur ekki hirt um að taka eftir, að þegar hæstv. fjmrh. lagði fram fjárlagafrv. sitt hér í haust, þá hækkuðu útgjöld fjmrn. sjálfs um 51% eða um 1804 millj. kr. Meðan fjárlagafrv. byggði á því að verðlag og þar með útgjöld ríkisins samkvæmt verðlagsbreytingum hækkaði umn 16% hækkaði hæstv. fjmrh. sitt eigið ráðuneyti um 51%. Ég held þess vegna að sá vinnuhópur sem nú er að starfi sem er ríkisstjórnin sjálf, hafi ærið verk að vinna að ráðast í það að taka á sparnaði þar á bæ og annars staðar.
    Ég get alveg sagt þessum hv. þm. það að ef hæstv. fjmrh. hefur ekki vilja eða burði til að taka á málum í sínu eigin ráðuneyti, þá er hætt við að svo fari að ráðherrar í öðrum ráðuneytum verði ekki eins viljugir að taka á málum hjá sér. Sá hæstv. fjmrh. sem ekki getur tekið til á sínum eigin bæ er lélegur við að taka til á hinum bæjunum. Hann hefur ekki vald til þess eða burði. Þess vegna þurfa þeir sem fyrir málum ráða að byrja heima hjá sér til þess að þeir hafi möguleika á því að ráða við það verkefni að takast á við málin þegar fjær dregur í stjórnkerfinu, þar á meðal hjá samráðherrum sínum.
    Ég ætla ekki að hnýta á nokkurn hátt í þennan tillöguflutning. En hann sannar auðvitað að þeir sem hér eru flm. og hafa þó skilning á því, sem ég fagna, að þörf sé á að taka á þessum málum, þeir ráða ekki ferðinni. Þeir hafa ekki nein tök á því að fá hæstv. ríkisstjórn, sem þeir styðja, til þess að fara að í samræmi við það sem þeir telja að þörf sé á. Og þó að þeir vilji kalla saman einhvern nýjan vinnuhóp eftir að ríkisstjórnin sjálf hefur starfað sem vinnuhópur, þá er hætt við að sá vinnuhópur verði burðaminni og ekki líkur til þess að hæstv. ríkisstjórn taki frekar tillit til þess heldur en þegar hún sjálf er búin að vera viku eftir viku í því að móta tillögur um niðurskurð ríkisútgjalda.
    Ég veit, virðulegi forseti, að tími er takmarkaður í umræðum um þáltill. Ég hefði auðvitað haft tilhneigingu til að ræða þessi mál afar ítarlega, en sjálfsagt gefst ekki tími til þess. Við fulltrúar minni hl. í fjvn. höfum lagt hér fram plögg og mjög ítarlegar upplýsingar varðandi þróun ríkisfjármála síðustu árin og það er hægt að bæta við þær upplýsingar fyrir hv. þm. Ég skal ljúka máli mínu, virðulegi forseti, vegna tímatakmarkana og aðeins segja það að við skulum sjá hvað kemur út úr starfi þess vinnuhóps sem verið hefur að verki undanfarna daga og undanfarnar vikur, þ.e. hæstv. ríkisstjórnar sjálfrar, um niðurskurð í útgjöldum ríkisins og þá kunnum við að sjá framan í það að til þessara hv. þm. er ekkert tillit tekið.