Uppskurður og hagræðing í ríkiskerfinu
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég sagði áðan eitthvað á þá leið að ég teldi að þessi tillaga væri gagnleg og væri flutt í þeim tilgangi að ná árangri. En eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar verð ég nú að segja að ég dreg það í efa að þessi tillaga sé flutt í öðru skyni en í sýndarmennskuskyni. Hann fjallaði í ræðu sinni aðallega um það að sjálfstæðismenn hefðu engan áhuga á og hefðu ekkert gert í sambandi við að hagræða í ríkiskerfinu. Mér finnst það nú einmitt benda til þess, ef menn þurfa að nota svona málflutning eftir að hafa hlustað alla vega á einn sjálfstæðismann, að vera með slíkar yfirlýsingar, það bendir eindregið til þess að menn ætli sér ekki neitt annað með þessu en að sýnast, þykjast, enda náttúrlega við hæfi sem stuðningsmenn ríkisstjórnar sýndarmennskunnar.
    Ég var að tala hér um vinnuhóp. Hv. þm. sagði að það væri hópur sem væri að vinna og svaraði ekki spurningunni sem ég spurði, af hverju væri ekki hægt að fela ráðgjafarfyrirtækjum að taka út þessi ríkisfyrirtæki. Og það þarf engan sérstakan vinnuhóp sem millilið milli ráðuneyta og þeirra fyrirtækja sem mundu gera það. Nema þá að þessi vinnuhópur sé settur sérstaklega á fót til þess að stíga á bremsurnar eftir pólitískum duttlungum hv. nefndarmanna í umræddum vinnuhóp, passa upp á það að þetta verði ekki gert og hitt verði ekki gert, svoleiðis bremsuhóp. Vinnuhópurinn á að verða einhverjir sérstakir pólitískir gæðingar sem bremsa af að það verði raunverulega hægt að taka upp þennan rekstur á hlutlausan hátt. Þannig verð ég að líta á þennan vinnuhóp eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. Hér er því tillaga í fallegum umbúðum, en meiningin er, ég verð að álíta að meiningin sé bara að sýnast eins og ég sagði áðan, sýndarmennska, enda við hæfi. Hv. þm. sagði enn fremur að sjálfstæðismenn hefðu ekkert gert, ekki komið með neinar hugmyndir. Hann hefur þá ekki fylgst með því að ég hef nýlega lagt hér
fram þáltill. um einkavæðingu þar sem yrði efnt til samkeppni um tillögur um einkavæðingu til þess að selja ríkisfyrirtækin. Það er ódýrasta leiðin, hagkvæmasta leiðin, fá tillögur sem kosta ekki mikla peninga og enginn nefndarhópur eða vinnuhópur á svimandi háum launum við að búa til skoðanir.
    Ég vildi bara taka fram að því miður verður maður fyrir vonbrigðum með slíkan málflutning eins og hjá hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni. Og ég verð að segja það að sá vinnuhópur sem nú stjórnar landinu, hæstv. ríkisstjórn, sem er náttúrlega að uppistöðu til sósíalískir draumóramenn, er ekki líklegur til að gera mikið gagn í þessum efnum.