Uppskurður og hagræðing í ríkiskerfinu
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Flm. (Stefán Guðmundsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil nú þakka þær umræður sem hér hafa orðið um þetta mál og ég tek undir það með hv. 10. þm. Reykv. Guðmundi G. Þórarinssyni sem er einnig flm. að þessari till. að ég held að hér sé mjög merku máli hreyft og vel þess virði að eyða góðum tíma í að ræða þetta mál. Ég vona að það verði gert í meðferð þeirrar þingnefndar sem þetta fer til og fái þar góða umfjöllun eins og ég hef getið um áður.
    Ég vil aðeins, í sambandi við það sem hér kom fram hjá hv. þm. Friðriki Sophussyni, þegar málið var hér til umræðu, segja honum og skýra frá því sem þó var gert hér áðan af hv. þm. Alexander Stefánssyni. Hv. 1. þm. Reykv. Friðrik Sophusson sagði að við værum örlítill minnihlutahópur, þessir fjórmenningar sem að þessum tillögum stæðu, í þingflokki Framsfl. Ég vil aðeins leyfa mér að lesa hér örfáar línur þar sem segir af miðstjórnarfundi Framsfl. sem er nú æðimikil samkoma í okkar starfi, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Miðstjórnarfundurinn lýsir yfir ánægju með það starf sem nefnd á vegum þingflokks Framsóknarflokksins hefur unnið að stefnumótun fyrir flokkinn í efnahags-, atvinnu- og byggðamálum.``
    Þetta er nú sú samþykkt sem gerð var þar og var mikil ánægja með störf þessarar nefndar og miðstjórnarfundurinn lýsti yfir fullum stuðningi við og voru vissulega meginuppistaðan í þeim samþykktum sem gerðar voru á þessum fundi. Það skýtur því ærið skökku við í þessum málflutningi. Staðreyndin er sú að þessar tillögur sem þessi nefnd hefur gert og verið vikið hér að hafa mjög mikið fylgi innan raða Framsfl., yfirgnæfandi fylgi. ( EgJ: Af hverju byrjið þið þá ekki?) Við erum byrjaðir.
    Hv. 5. þm. Austurl. spurði um það hér áðan af hverju við gerðum tillögu um að settur yrði á stofn vinnuhópur til að leysa úr þessum málum. Ég tel það, og við flm. allir, rökrétt, að þannig eigi að vinna að þessum málum. Þetta verður ekkert gert eins og einhver hókus pókus, einn tveir og þrír, þó við vitum það og viðurkennum að það er morandi af fyrirtækjum í eigu þess opinbera þar sem má hagræða í rekstri. Það má sameina fyrirtæki og við höfum líka lagt til að fyrirtæki væru seld í eigu ríkisins og sagt að þau væru betur komin í eigu einstaklinga. Þetta segir í tillögunni. Menn verða að lesa það sem þar stendur. Við viljum að það verði gert, en þetta kostar allt vinnu. Það þarf að hagræða í ríkiskerfinu og ná fram auknum sparnaði. Það er ekki nóg að segja heimilunum í landinu að spara og þeim sem í atvinnurekstrinum standa. Það þarf líka að spara í ríkiskerfinu því þar er fjármagnið og þar er hægt að spara ef menn ganga með opin augun til þess verks.
    Hv. 2. þm. Norðurl. v. talaði hér og ég get tekið undir margt af því sem hann sagði þó að ég sé honum ekki sammála á allan hátt, en þó veit ég það, ekki bara af því að hlusta á þingmanninn tala hér, ég hef oft heyrt hann tala áður í sambandi við þessi mál,

að hann er okkur sammála í þessum málum og hefði trúlega getað orðið meðflutningsmaður okkar að þessari tillögu.
    Það hefur einnig verið sagt hér, og það gerði hv. þm. Pálmi Jónsson, að í tillögum ríkisstjórnarinnar um sparnað væri ekki gripið á þessum þáttum heldur öðrum. Þær koma nú fljótlega í ljós og þá mun það koma fram. Það getur vel
verið að hv. þm. hafi hitt býsna vel í mark. Það breytir engu um rétt okkar til þess að flytja þessa tillögu hér og reyna að fá hana samþykkta, nema síður væri. Hún hlýtur þá einmitt frekar að undirstrika nauðsyn þess að við fáum slíka tillögu samþykkta hér, fáum fram greinilegan vilja Alþingis til að taka á þessu máli.
    Hv. þm. Egill Jónsson talaði hér og ég verð að segja það að ég var ekki alveg sáttur við ummæli hans. Mér fannst nefnilega Egill Jónsson vera farinn að verja kerfið. Og ég verð að segja að ég átti nú síst von á því. En það hefur sjálfsagt fyrst og fremst verið til að vera á móti tillögunni. Ég hef ekki trú á að það sé þankagangur þingmannsins, hann sé þannig réttur.
    Hv. þm. vitnaði til ummæla sem ég hafði viðhaft á næstsíðasta degi þingsins, að mig minnir hann hafi sagt, í vor, við umræður um ákveðið mál, að við skyldum bíða og sjá hvað gerðist í þingflokki Framsfl. daginn eftir eða þá seinni part þess dags. Það skiptir ekki máli hvort heldur var. Það er alveg rétt. Ég sagði þar ákveðna hluti og ég man eftir að það var ekki hann sem tók undir þá heldur var það hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson sem hvatti mig til þess að standa við það sem ég væri þar að segja. Og ég tel mig hafa staðið við það. Á þessum þingflokksfundi sem ég vitnaði þar til að þessi mál yrðu rædd var settur á laggirnar vinnuhópur frá þingflokki Framsfl. til að vinna að tillögum um efnahags-, atvinnu- og byggðamál. Þessar tillögur okkar eru hér. Við settum þessa vinnu í gang, lögðum í þetta mikla vinnu og hér eru að mínu viti gagnmerkar tillögur um marga þætti og sú tillaga sem hér er flutt er einn kafli úr þessum tillögum okkar. Við munum, ef ég get róað einhverja hér inni, halda áfram að flytja tillögur sem hér er getið um. Við ætlum að láta reyna á það hvort við höfum ekki unnið gott verk. Og ég er alveg sannfærður um það,
eins og ég sagði áðan og vitnaði til miðstjórnar Framsfl., að yfirgnæfandi meiri hluti framsóknarmanna er okkur fjórmenningunum sammála.
    Hér hefur aðeins verið vikið að tillögu á þskj. 399 frá fjvn. sem studd er af þingmönnum allra flokka. Ég fagna auðvitað þessari tillögu. Hv. þm. Egill Jónsson spurði um það hér áðan af hverju við hefðum ekki flutt þessar tillögur fyrr. Það er ósköp eðlilegt að spurt sé. Ég gæti hins vegar líka spurt hv. þm. Egil Jónsson á móti: Af hverju flutti fjvn. ekki slíkar tillögur fyrr en nú í vetur? Þörfin var jafnmikil. Ég skal bara viðurkenna það að mér ofbýður, mér er farið að ofbjóða í þessum efnum. Þess vegna stend ég að þessari tillögu og flyt hana. Og ég held að þetta sé eina leiðin til að vinna þessu máli gagn.

    Í framsögu minni fyrir þessu máli dró ég fram nokkrar tölur um eyðslu umfram fjárlög. Ég sagði það að á síðasta ári hefðu aukafjárveitingar numið eitthvað um 800--1000 millj. kr. En hverjar voru aukafjárveitingarnar árið áður? Hverjar voru aukafjárveitingarnar árið 1988? Ætli þær hafi ekki verið rúmlega 2,5 milljarðar. Er ekki orðin ástæða til þess fyrir okkur, þingmenn góðir, að við förum að taka á þessum málum? Eitt enn langar mig að leiðrétta hér í umræðunni sem sneri ekki að þessum tillögum okkar. Þar vék hv. þm. Egill Jónsson að ummælum hæstv. forsrh. um Kópasker og sagði að forsrh. hefði lagt til að Kópasker yrði lagt af. Þetta eru hrein ósannindi. Þetta eru ekki ummæli forsrh. Þetta eru ummæli þingmannsins Egils Jónssonar en ekki Steingríms Hermannssonar. Og það er ómaklegt að víkja svona að mönnum sem ekki eru hér staddir í þingsölum til þess að geta skýrt mál sitt. Það er ómaklegt. ( EgJ: Ég er með útskriftina.) Já. Hæstv. forsrh. sagði ekki að það ætti að leggja Kópasker af. Byggðamál getum við rætt síðar. Þau þyrftu hér drjúgan tíma. Þar hefur því miður margt farið úrskeiðis og þau þarf að taka föstum tökum og við höfum einmitt í þessu nál. okkar fjallað um byggðamál og við munum sjálfsagt flytja einmitt tillögu sem mun víkja að byggðamálum.
    Að endingu þakka ég þeim sem hér hafa tekið til máls. Þó að menn séu eitthvað að hnýta í okkur framsóknarmenn og flm. þessarar till. er það út af fyrir sig aukaatriði í mínum huga. Aðalatriðið er að þessi tillaga sem hér er flutt fáist samþykkt hér á Alþingi og hinir hæfustu menn veljist til að vinna þau verk sem við leggjum hér til, að gera tillögur um hagkvæmni og sparnað í ríkiskerfinu.