Málefni Slippstöðvarinnar á Akureyri
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Það er rétt sem hæstv. iðnrh. sagði að Byggðasjóður hefði veitt lán til þessa skips en það er ekki að hans frumkvæði heldur lá það fyrir áður en byrjað var á smíði skipsins, þannig að það eru engar fréttir.
    Ég vitnaði hér í ummæli, annars vegar blaðafulltrúa ríkisstjórnarinnar og ég var að spyrja iðnrh. hvort málið hefði verið tekið á dagskrá ríkisstjórnarinnar á þeim grundvelli sem blaðafulltrúi ríkisstjórnarinnar hefur tilgreint.
    Á hinn bóginn var ég að vitna í ummæli hæstv. forsrh. þar sem hann talar um að málið eigi að leysast í gegnum Fiskveiðasjóð. Blaðafulltrúi fjmrn. segir að það eigi að gerast í gegnum Ríkisábyrgðasjóð, forsrh. talar um að það eigi að gerast í gegnum Fiskveiðasjóð. Um það voru mínar fsp. til hæstv. iðnrh, hvor þessara leiða yrði valin. Það hefur alltaf legið fyrir að viðskiptabanki, hver sem væri, mundi ekki lána stofnlán af þessu tagi til smíðinnar, það hefur alltaf legið fyrir. Og það er hreinn útúrsnúningur að blanda Landsbankanum í þetta mál með þeim hætti sem hæstv. iðnrh. hefur gert. En þetta er hins vegar bara venjulegur málflutningur hjá þessum hæstv. ráðherrum, þeir tala hver með sínu nefi. Fulltrúi fjmrh. um Ríkisábyrgðasjóð, forsrh. um Fiskveiðasjóð, iðnrh. um Landsbankann. Svo situr hér fyrir framan mig einn ráðherra úr Norðurlandskjördæmi eystra. Það væri fróðlegt að fá að vita hvað hann hefur til málanna að leggja og hvernig hann hugsar sér að leysa þetta mál.
    En meðan þannig er unnið að málinu er ekki von á góðu og má auðvitað búast við því að atvinnuleysið haldi áfram fyrir norðan hjá starfsmönnum Slippstöðvarinnar. Þá er ekki við því að búast að hægt verði að semja um ný verkefni sem liggja fyrir um leið og þetta mál er leyst.