Uppskurður og hagræðing í ríkiskerfinu
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Mér kom í hug þegar hv. 4. þm. Austurl. var að krefjast þess hér að ráðherrar núv. ríkisstjórnar og sérstaklega framsóknarráðherrarnir kæmu hér í salinn til að fylgjast með þessari umræðu, taka eftir því hvernig efnisinnihaldið væri raunverulega vantraust á núverandi ríkisstjórn, að það væri alveg jafnmikil þörf á að kalla ráðherra fyrrv. ríkisstjórnar, samflokksráðherra Framsfl. úr fyrri ríkisstjórnum, til setu hér við þessa umræðu. Einn hæstv. ráðherra er nú kominn hér í salinn síðan þessi ósk var borin fram og það hefur komið einn ráðherra ríkisstjórnarinnar, þó að hann sé nú ekki framsóknarmaður, til þess að fylgjast með ... (Gripið fram í.) Gæti verið framsóknarlegur, hann gæti verið það.
    Þessi umræða er fyrst og fremst metingur á milli þessara tveggja flokka. Enn þá treystir Sjálfstfl. ekki Framsfl. og Framsfl. ekki Sjálfstfl. og þeir eru að metast á um hvor hefur gert verri hluti. Þeir settust hér í ríkisstjórn 1983 eftir mjög góða fjármálastjórn Ragnars Arnalds. Ragnar Arnalds hafði stjórnað ríkiskassanum á þann veg að hann skilaði afgangi ár hvert en það var ekki lengi verið að skipta yfir þegar þessir herrar tóku við stjórnartaumunum. Og nú koma þeir hér upp og tala um það að nauðsyn sé að söðla um og nauðsynlegt sé að gera einhverja mjög merka hluti, koma sér niður á núlllausn í sambandi við ríkisfjármálin eins og gert hefur verið í sambandi við samskipti aðila vinnumarkaðarins.
    Þessi umræða er ekkert annað en þessi umfjöllun og það fylgir því miður lítil alvara bak við þetta. Maður getur ekki lesið það út úr þeim punktum sem framsóknarþingmenn hafa talið upp eftir upphafsorðum tillögunnar. Annar punkturinn eða annar liðurinn í þessari tillögu er orðaður
þannig, með leyfi forseta: ,,Stofnanir verði sameinaðar, starfsemin einfölduð og hagræðingu komið á. Lagðar verði niður stofnanir þar sem færa má starfsemina undir aðrar stofnanir.`` Mikil viska og skipulagningarhugsjón er saman komin í þessum eina þætti. Það er ekki nema eðlilegt að framsóknarþingmenn hafi þurft þó nokkuð mikinn tíma til þess að byggja upp þessa tillögu og þær efnahagstillögur sem þeir lögðu fyrir sinn flokk og við höfum reyndar ekki séð mikið af. (Gripið fram í.) Þá hef ég því miður bara kannski eins og sumir látið eiga sig að lesa þau. Vitaskuld er þörf á því að breyta til í sambandi við ríkisreksturinn. En ég veit ekki hvort það er endilega rétta leiðin til þess að flytja svona sýndartillögu eins og hér hefur verið flutt. Ætli það væri ekki eðlilegra og betra að framsóknarþingmennirnir beittu áhrifum sínum við ráðherrana sína, að þeir tækju sig til í ríkisstjórninni? Þeir byrjuðu á að vinna hlutina t.d. í þingflokki Framsfl., gerðu þar ályktanir sem þeir kæmu síðan inn í ríkisstjórn og þar væri fjallað um. Við þingmenn hinna stjórnarflokkanna mættum svo kannski sjá það eftir að búið væri að leggja þessar tillögur inn í ríkisstjórn. Og það væri ekki gengið frá öllum hlutum

inni í ríkisstjórn eins og virðist hafa verið gert núna undir forsæti Framsfl. Tillögur um ákveðnar aðgerðir í sambandi við fjárlög, niðurskurð á fjárlögum, eru kokkaðar inni í ríkisstjórn og síðan sýndar þingmönnum. Þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð með flutningi þessarar þáltill. eru á ósköp svipaðan máta. Hér er verið að veifa tillögu sem er ekkert annað en metingartillaga milli Framsfl. og Sjálfstfl. um liðna tíð.