Öryggi í óbyggðaferðum
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Friðjón Þórðarson:
    Herra forseti. Hér er um að ræða till. til þál. um öryggi í óbyggðaferðum. Hún er flutt af átta þingmönnum úr öllum flokkum. Hv. 1. flm., 12. þm. Reykv., hefur gert glögga grein fyrir málinu og er kannski ekki þörf á að bæta þar miklu við. Ég vil þó drepa á nokkur atriði.
    Tillagan gengur í þá átt að fela ríkisstjórninni að gera ráðstafanir til að bæta öryggi þeirra sem ferðast í óbyggðum með því að samræma og setja reglur og lög eftir því sem við á. Ég hygg hér sé hreyft máli og ekki að ástæðulausu, eins og nánar kemur fram í greinargerð, því dæmi finnast um það, bæði gömul og ný, að ýmis slys og óhöpp henda bæði innlenda og erlenda ferðamenn sem hafa átt leiðir um óbyggðir þessa lands. Á það er bent í greinargerð að tillagan sé flutt í þágu allra til að bæta öryggi ferðamanna sem leggja leið sína í óbyggðir. Þar er vikið að óeigingjörnu starfi manna í björgunarsveitum og slysavarnafélögum sem ærið mörg dæmi finnast um. Það er minnst á að frá því vorið 1985 hafi verið starfrækt hér á landi tilkynningarþjónusta fyrir ferðamenn sem nánar er greint frá hér. Það er vikið að hlut vátryggingafélaga, á hvern hátt þau geta komið til liðs við að bera uppi þann mikla kostnað sem oft og iðulega hlýst af slíkum fjallleitum.
    Flm. hafa einkum í huga nokkur atriði þegar þessu máli er hreyft og sem sérstaklega þarf að athuga þegar fjallað er um öryggi í óbyggðaferðum. Í fyrsta lagi má nefna fræðslu fyrir ferðamenn, starfrækslu tilkynningarþjónustu, eins og ég benti á. Það er bent á hvernig sameina má tilkynningarþjónustu og ráðgjöf. Það er vikið að hlut tryggingarfélaga. Það er nefnt að skýrari reglur þurfi um akstur í óbyggðum en nú gilda. Fyrir nokkrum dögum kom til umræðu í þinginu þál. sem samþykkt var fyrir einu ári eða svo um akstur utan vega. Það er ekki sama hvernig ferðast er um óbyggðirnar. Það þarf að gæta þar margra hluta.
    Það er vikið að því að heimildir þurfi að vera til svo að hægt sé að banna ferðalög inn á tiltekin svæði eða jafnvel hefta ferðir einstakra manna inn á hálendið undir vissum kringumstæðum. Það er rétt að væntanlega þarf að athuga þetta efni sérstaklega. Ég hef stundum sagt þá sögu í þessu sambandi þegar nokkrir, ég held franskir, ferðamenn sem ætluðu að leggja leið sína illa útbúnir á Vatnajökul vissu þeir ekki fyrri til en allt í einu var kominn upp að hlið þeirra sýslumaður Norð-Mýlinga og bæjarfógeti Seyðfirðinga og bannaði þeim að leggja á jökulinn. Ég veit ekki til hvaða heimilda hann hefur skírskotað, en þarna var þó a.m.k. mættur sýslumaður í fullu úníformi og eins og við vitum bera útlendingar oft og iðulega meiri virðingu fyrir úníformi og stjörnum en við gerum hér á landi. Hvort sem sýslumaður hafði formlega heimild eða ekki dugði það í þessu tilfelli og þessir fávísu ferðamenn hættu við jökulferðina.
    Af því að ég skipaði þennan ágæta sýslumann í starfið hef ég stundum sagt við hann síðar þegar ég

hitti hann: Svona eiga sýslumenn að vera. Það er ekki alltaf tími til að velta fyrir sér hvort pottþéttar heimildir eru til að ráða fram úr málum þegar svona stendur á.
    Svo er auðvitað nauðsynlegt að auka löggæslu í óbyggðum en það getur verið ærið kostnaðarsamt. Eigi að síður er hér bent á nokkur atriði sem full þörf er á að athuga til hlítar að mínum dómi og reyna að finna lausn á því máli sem vissulega er mikið oft og tíðum. Það er æskilegt að hraða þeim aðgerðum sem tillagan gerir ráð fyrir og vinna þær í sem bestri samvinnu við þá mörgu aðila sem þetta mál varðar.
    Þessi fáu orð læt ég nægja til að lýsa viðhorfi mínu til þessarar tillögu.