Öryggi í óbyggðaferðum
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð til að þakka flm. þessarar tillögu fyrir að hreyfa þessu máli sem full ástæða er til. Það hefur svo sem oft verið rætt áður að margt sem lýtur að skipulagningu ferðalaga, upplýsingum og stjórnun hvað snertir umferð, bæði okkar sjálfra og útlendinga, um landið má betur fara og þarf að takast fastari tökum. Við gjöldum auðvitað á þessu sviði eins og víða annars staðar bæði fátæktar og fámennis. En ég held að tímabært sé að hreyfa við þessum málum og nauðsynlegt að stjórnvöld taki þau til rækilegrar skoðunar. Nærtæk eru dapurleg dæmi um afleiðingarnar þegar illa tekst til.
    Ég vil upplýsa það að við höfum rætt það í tvígang eða svo, ég og dómsmrh., að skipuleggja starf í einhvers konar hópi þar sem helstu aðilar sem þessum málum tengjast á sviði löggæslu, ferðamála, slysavarna o.s.frv. kæmu saman og legðu á ráðin um það hvernig væri best hægt að koma við fyrirbyggjandi aðgerðum og beita fræðslu og öðrum slíkum ráðstöfunum. En ég vil jafnframt láta það koma fram sem mína skoðun að ég held það sé líka óhjákvæmilegt, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, að fara yfir réttarstöðu yfirvalda og ræða hvort nauðsynlegt sé að styrkja hana, styrkja réttarstöðu yfirvalda þegar á það reynir hvort heimilt sé að stöðva feigðarflan sem fyrirsjáanlega felur í sér mikla hættu fyrir viðkomandi. Á það hefur einmitt verið bent í umræðum undanfarnar vikur að það orki mjög tvímælis hvort fyrir hendi sé yfirleitt nægjanlega sterk réttarstaða stjórnvalda til að gera það sem sýslumaðurinn góði gerði, að koma í raun og veru í veg fyrir að menn fari sér að voða.
    Nú skil ég vel þau rök sem hér eru færð fram af flutningsmönnum og hv. 1. flm. gerði grein fyrir í framsögu, að menn vilja ógjarnan grípa til mikilla boða eða banna í þessum efnum umfram það sem ekki er hægt að komast hjá. Að sjálfsögðu er æskilegt að ferðalög manna um landið geti verið sem frjálsust. En þær aðstæður geta
sannanlega skapast, og eru jafnvel viðvarandi á miðhálendi landsins svo að dæmi sé tekið yfir vetrartímann, að ferðalög illa búinna einstaklinga eða hópa og illa skipulögð eru feigðarflan, eru áhætta sem orkar stórlega tvímælis að réttlætanlegt sé að leyfa mönnum að taka. Ég er hér að tala um þetta burt séð frá því hvort tryggingar hefðu verið framreiddar vegna útgjalda sem kynnu að leiða af leit eða björgun ef til slíks kemur.
    Ég hef þess vegna oft og iðulega velt því fyrir mér hvort ekki sé óhjákvæmilegt að stjórnvöld hafi einhverjar heimildir í sínum höndum til að mynda til að taka upp skráningarskyldu á ferðalög erlendra hópa um tiltekin svæði á tilteknum árstíma. Það er vel þekkt víða erlendis frá að menn þurfa að tilkynna ferðalög sín, skrá sig og fá formleg leyfi til að skipuleggja ferðalög eða leiðangra um ákveðin svæði á ákveðnum árstímum.

    Þetta er aðeins eitt af mörgum atriðum sem ég hygg að sé þarft að skoða í þessu sambandi. Mér finnst jákvætt að hv. Alþingi skuli hafa tekið málið upp með þessum hætti og er fyrir mitt leyti reiðubúinn til samstarfs við hið háa Alþingi eða þingnefndir sem kunna að vinna að þessu máli hér á næstunni.
    Ég þarf ekki, herra forseti, að hafa um þetta mikið fleiri orð. Ég vona að um þetta geti verið samstaða því það er auðvitað mikilvægt að um þær reglur eða það sem út úr slíku starfi kemur, hvort sem það er hér á Alþingi eða eitthvað sem stjórnvöld hafa með höndum, sé sæmileg samstaða. Hér er að nokkru leyti til um býsna viðkvæmt svið að ræða þar sem öðrum þræði vakir í umræðunni spurningin um það hvort nauðsynlegt sé og þá hvernig að takmarka með einhverjum hætti eða stýra umferð um landið, annars vegar erlendra ferðamanna og síðan jafnvel okkar landsmanna sjálfra. Og þess vegna er mikilvægt að slík mál séu skoðuð af yfirvegun og rósemi og hvorki gengið í raun og veru lengra né skemmra heldur en skynsamlegt og sanngjarnt er talið.