Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Hér hefur það gerst að vikið hefur verið verulega frá hinni skráðu dagskrá. Á eftir 2. dagskrármálinu er tekið fyrir það 11. Þetta er gert að ósk sjálfstæðismanna. Ég mundi ekki gera athugasemd við þetta af hendi forseta nema vegna þess að þann veg stendur á, sem ég tel tvímælalaust að taka verði tillit til, að málshefjandi hefur óskað eftir því að forsrh. sé hér við og hlýði á mál hans, en fyrir hálfum mánuði var boðaður framkvæmdastjórnarfundur Framsfl. Á hann koma menn af öllu landinu og vegna þess fundar eru hér fjarverandi allir ráðherrar flokksins og einnig formaður þingflokksins. Ég verð þess vegna að óska eftir því við hæstv. forseta að hann taki tillit til þessa og fresti þessari umræðu til reglulegs fundar í Sþ. og þá trúlega til mánudags.