Þorsteinn Pálsson (um þingsköp) :
    Frú forseti. Það er rétt að við höfðum óskað eftir því að þessi umræða gæti farið fram hér í dag. Ég taldi alveg víst að hæstv. forsrh. mundi að eigin frumkvæði vilja vera viðstaddur þessa umræðu, en þegar ég tók eftir því hér síðdegis að hann var ekki staddur í þinghúsinu vakti ég athygli forseta á því að ég teldi nauðsynlegt að hann yrði viðstaddur umræðuna. Ég tók hins vegar alveg skýrt fram að ef hann ætti erfitt með að vera við umræðuna í dag væri það okkur að meinalausu, eða a.m.k. mér, að umræðan frestaðist fram á mánudag. Hæstv. forsrh. greindi mér frá því að það stæði yfir framkvæmdastjórnarfundur sem hann á mjög erfitt með að víkja sér frá. Á því hef ég fullan skilning og ég tel eðlilegt að Alþingi sýni stjórnmálaflokkunum þá tillitssemi þegar þannig stendur á að umræðum sé frestað. Ég tek þess vegna alveg heils hugar undir ósk hv. 2. þm. Vestf. og tel fyllilega eðlilegt að umræðunni sé frestað.