Breytt tilhögun við afgreiðslu fjárlaga
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Háttvirtur þingheimur. Ég flyt hér till. til þál. um breytta tilhögun við afgreiðslu fjárlaga. Hún hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að breyta þurfi tilhögun við afgreiðslu fjárlaga þannig að fjárlög verði framvegis afgreidd fyrir þinglausnir á vorin. Eins verði kannað hvort rétt sé að flytja til fjárlagaárið. Fjárveitinganefnd er falið að ganga frá drögum að frumvarpi þar að lútandi fyrir þinglausnir 1990.``
    Ástæðan fyrir því að þessi tillaga er flutt er sú að Alþingi lendir jafnan í tímaþröng með afgreiðslu fjárlaga fyrir jól og áramót. Þessu tímaleysi fylgja margvísleg vandamál fyrir Alþingi og alþingismenn. Í fyrsta lagi leiðir tímaþröngin til þess að alþingismönnum gefst síður tækifæri til að kynna sér þingmál til hlítar, brjóta þau til mergjar. Vinna í þingnefndum skilar ekki þeim árangri sem þarf. Fyrir bragðið er þingheimur ekki nægilega vel heima í hverju máli.
    Í öðru lagi fylgir þessu mikil vinna hjá þingmönnum í fjvn. Alþingis. Þannig gefst þeim ekki nægilegur tími til að sinna öðrum þingstörfum eins og lög gera ráð fyrir.
    Í þriðja lagi kallar þessi skorpuvinna á meiri yfirvinnu og mikið álag hjá starfsfólki Alþingis, fjmrn., Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, Ríkisendurskoðunar og fleiri stjórnardeilda. Síðast en ekki síst býður þessi
staða því heim að Alþingi lendir í hringiðu óvandaðra vinnubragða. Hópar þingmanna nota sér stöðuna til þess að knýja fram niðurstöður í óskyldum málum. Það er í rauninni kjarni málsins og ástæðan fyrir því að þessi tillaga er flutt.
    Við gerð fjárlaga núna fyrir jólin kom upp sú staða að stjórnin og stjórnarandstaðan sömdu um framgang þingmála hér á hv. Alþingi. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að ríkisstjórnin hefur öflugan meiri hluta á þinginu. Því er meirihlutavilji fyrir því að mál sem stjórnin leggur fram nái fram að ganga að lokinni eðlilegri umfjöllun í þingflokkum og þingnefndum. Tímaþröngin varð aftur á móti til þess að hópur þingmanna notaði sér á vægast sagt ódýran hátt stöðuna til að knýja á um að óskyld mál næðu fram að ganga annars staðar í þjóðfélaginu. Í því sambandi leyfi ég mér að vitna í frétt í Morgunblaðinu frá 19. des. Þar telur hv. þm. Ólafur G. Einarsson, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, upp ýmsa afarkosti sem sjálfstæðismenn settu Alþingi til að þingmenn fengju lokið nauðsynlegum störfum fyrir jól. Í fréttinni segir þingmaðurinn orðrétt:
    ,,Þetta er skilyrði af okkar hálfu ef á að vera hægt að halda hér áram í sæmilegri sátt og ljúka þingi fyrir jól.``
    Eitt af því sem hv. þm. Ólafur G. Einarsson átti við í þessari frétt var að í staðinn fyrir að fá það sem hann kallaði sæmilega sátt um að ljúka þinghaldi átti ríkisstjórnin að láta af ákveðnum kröfum í sambandi við spítalarekstur Reykjavíkurborgar.

    Í sömu frétt er talað við Guðmund Bjarnason heilbrrh. þar sem hann telur að fallið verði frá þessum hugmyndum hans um heilbrigðismál. Þannig er ljóst að hin svokölluðu skilyrði þingflokks sjálfstæðismanna höfðu strax þvingandi áhrif á störf Alþingis. Nú kunna skilyrði og afarkostir af þessu tagi að hafa misjöfn áhrif á þingmenn. En flm. leið á þessum tíma eins og gísl í höndum flugræningja. Þannig miðar þessi þáltill. ekki síst að því að losa Alþingi úr klóm pólitískra hryðjuverkamanna um jól.
    Þann skamma tíma sem flm. hefur setið á Alþingi hefur hann stundum heyrt talað um virðingu Alþingis og oft héðan úr ræðustól. Því er stundum slegið fram í málflutningi þegar rök eru á þrotum. Virðulegi forseti. Ég vil því ljúka þessu með því að spyrja hvort afarkostir af því tagi sem ég las upp hér áðan séu samboðnir þeirri virðingu sem þingheimur vill halda.
    Að svo mæltu leyfi ég mér að óska eftir að þessi till. fái aðra umræðu og vísa henni til hv. fjvn.