Aðstoð við gjaldþrota fólk og eignalaust
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Ég flyt hér till. til þál. um aðstoð við gjaldþrota fólk og eignalaust. Flm. ásamt mér er hv. þm. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir. Tillagan hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna nú þegar á hvern hátt er hægt að aðstoða fólk sem verður gjaldþrota eða eignalaust á Íslandi. Könnun þessari skal lokið fyrir þinglausnir vorið 1990.``
    Ég vil leyfa mér að lesa meðfylgjandi greinargerð:
    ,,Um tvö þúsund bú voru tekin til gjaldþrotaskipta á síðasta ári en um eitt þúsund árið 1988. Spáð er svipuðum fjölda gjaldþrota árið 1990 og jafnvel enn fleiri. Hér er um að ræða bæði fyrirtæki og einstaklinga en bú þeirra eru þó í miklum meiri hluta. Stór hópur Íslendinga missir líka allar eigur sínar um þessar mundir þó að bú þeirra séu ekki tekin til skiptameðferðar.
    Það má áætla að ein vísitölufjölskylda sé á bak við hvert gjaldþrot. Þannig snerta gjaldþrot og eignamissir síðustu ára tugþúsundir Íslendinga. Gjaldþrota fólk heldur áfram að vera fólk þó að bú þess sé tekið til skipta. Eignalaust fólk heldur líka áfram að vera fólk þó að það tapi eigum sínum.
    Gjaldþrot eru af misjöfnum toga spunnin. Sumir verða gjaldþrota af því að þeir reisa sér hurðarás um öxl í viðskiptum eða í daglegu lífi. Samkvæmt upplýsingum frá borgarfógetanum í Reykjavík vex stöðugt sá hópur ungs fólks sem á mál í skiptameðferð vegna þess að það kaupir of mikið af lausafjármunum með afborgunarkjörum. Þannig ýta viðskiptahættir í þjóðfélaginu undir gjaldþrot hjá ungu fólki.
    Aðrir verða gjaldþrota vegna ábyrgða sem þeir axla fyrir vini og vandamenn eða í viðskiptum á milli fyrirtækja og einstaklinga. Má í því sambandi nefna hlut banka og lánastofnana sem lána stöðugt út á nafn ábyrgðarmanna frekar en getu skuldara til að standa í skilum. Mál er að setja lög til að sporna við þess háttar lánastarfsemi.
    Enn aðrir verða gjaldþrota vegna keðjuverkandi áhrifa og gjaldþrota annarra sem þeim eru að öðru leyti ekki skyld. Þannig gerist nú æ algengara að gjaldþrot eins fyrirtækis valdi gjaldþroti eða missi eigna hjá fyrirtækjum sem eiga hjá því peninga. Alltaf missir nokkur hópur fólks bú sitt og eignir vegna óreglu og óreiðu og því miður færist í vöxt að fólk notar sér gjaldþrot á vafasaman hátt í viðskiptum.
    Háir vextir ýta þó öðrum þáttum frekar undir gjaldþrot hjá fólki og fyrirtækjum og gífurlegan eignamissi. Á meðan okurvextir gera vaxtagjöld að hæsta kostnaðarlið í bókhaldi fyrirtækja hljóta laun fólksins að verða aukaatriði í rekstrinum. Í kjölfarið fylgja hærri skattar en nokkru sinni fyrr og nú síðast ranglátir eignarskattar. Hvert fyrirtækið á fætur öðru gefst upp og lokar eða er tekið til skipta. Fólkið missir atvinnu sína og eigur vegna vaxta og skattheimtu. Þetta er hörmuleg þróun sem grefur hratt undan eignarrétti fólksins í landinu; grefur undan þreki

þess og trú á ættjörðina.
    Gjaldþrotum fylgir ekki bara tap eigna fyrir þolendur heldur líka mikil röskun á stöðu og högum gjaldþrota fólks og einkum og sér í lagi á högum fjölskyldu þess og ástvina. Áhyggjum af þessu tagi fylgja svefnlausar nætur og margs konar lasleiki og sjúkdómar sem geta auðveldlega dregið fólk til dauða. Þunglyndi og brostnar vonir hafa leitt fólk út í að svipta sig lífi.
    Lítil börn vaxa úr grasi við aukna spennu og vonleysi, verða bæld í umgengni við önnur börn og þola oft miskunnarlausa áreitni í skólum. Rosknir foreldrar og aðrir ástvinir rata í miklar raunir á efri árum þegar æskilegt er að um hægist hjá eldra fólki. Þannig snertir hvert gjaldþrot marga Íslendinga á mismunandi hátt. Það má ætla að gjaldþrot síðustu tveggja ára og yfirstandandi árs snerti beint meira en tuttugu og fimm þúsund manns.
    Gjaldþrot er í rauninni nútímavergangur. En nú eru miklu fleiri Íslendingar á vergangi en þegar pestir og móðuharðindi urðu til þess að fólk flosnaði upp á sínum tíma. Vergangur heyrir því ekki sögunni til hér á landi þrátt fyrir allt tal um stóraukna velferð í nútímaþjóðfélagi.
    Gjaldþrot leiða nú til þess að stöðugt fleiri landsmenn hugsa sér að flytja til annarra landa með fjölskyldur sínar og óvíst hve margir koma aftur til baka. Fjöldinn allur er þegar lagður af stað. Þjóðfélagið má ekki við því að missa fólk úr landi á þennan hátt. Það er fyrsta skylda hvers ríkisvalds að búa þegnum sínum viðunandi þjóðfélag og sérstaklega þegar áföll dynja yfir. Skemmst er að minnast aðstoðar vegna náttúruhamfara í Vestmannaeyjum og áttu þó mun færri Íslendingar um sárt að binda þá en nú er vegna gjaldþrota.
    Þáttur ríkis og sveitarfélaga er líka stór í gjaldþrotum einstaklinga. Gjaldheimtur og opinberir innheimtumenn biðja líklega um flest gjaldþrotaskipti hjá einstaklingum hér á landi, oft vegna smáupphæða, til þess að afskrifa megi skattaskuldir fólks og slétta þannig út dálka í reikningum hins opinbera. Oftar en ekki eru þessar skattaskuldir vegna áætlunar á gjaldendur en ekki vegna raunverulegra tekna. Þess vegna er ábyrgð hins opinbera stór, hún er líka mikil.
    Því er lagt til að ríkisstjórnin kanni þegar í stað á hvern hátt þjóðfélagið getur brugðist við gjaldþrotum þegna sinna. Oft hefur gjaldþrota fólk ýmis réttindi sem það veit ekki af og þarf að upplýsa það um. Eins er oft brotinn á fólki réttur á ýmsan hátt án þess að því sé það ljóst. Gjaldþrota fólk hefur stofnað með sér samtök, G-samtökin, og Alþingi hefur viðurkennt þau með framlagi á fjárlögum. Flm. telur því rétt að fjmrh. ráði til sín fulltrúa úr hópi gjaldþrota fólks í þessum samtökum svo ráðherra og ríkisstjórn kynnist þessum málaflokki frá fyrstu hendi.
    Virðulegi forseti. Gjaldþrot eru enn þá feimnismál á Íslandi en því verður að breyta. Gjaldþrota fólk verður sjálfkrafa annars eða þriðja flokks við missi eigna sinna og missi stöðu sinnar í þjóðfélaginu. En því verður að breyta. Gjaldþrota fólk líður miklar

kvalir á sál og líkama og margir missa heilsuna og láta jafnvel lífið. Ástvinir þjást með og sérstaklega börnin sem oft bera harm sinn í hljóði. Þessum kvölum verður að linna. Gjaldþrot á aðeins að taka til eigna manna en ekki til persónu þeirra. Þess vegna þarf ný viðhorf og ný lög. Þjóðfélag sem tekur ekki á þessum vanda er og verður annars eða þriðja flokks þjóðfélag.``
    Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að mæla með að till. fari til síðari umræðu og allshn.