Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég verð að hafa nokkurn formála að máli mínu um skýrslu þá sem hér er til umræðu.
    Fyrri hluti umræðunnar fór fram sl. fimmtudag en var ekki lokið vegna sjónarspils sem þá fór í gang. Hv. þm. Þorsteinn Pálsson, sem var einn skýrslubeiðenda, hafði samkvæmt upplýsingum virðulegs forseta Sþ. farið fram á að viðskrh. yrði viðstaddur umræðuna um skýrsluna sem hann og var. Jafnframt virðist hv. þm. hafa gert ráð fyrir að forsrh. yrði líka viðstaddur. Vegna tafa á dagskrá fór svo að forsrh. þurfti að yfirgefa þingið og var fjarvera hans útskýrð með fullkomlega viðunandi hætti. Hv. þm. Þorsteinn Pálsson lét það ekkert á sig fá og ræddi ótrauður um skýrsluna í löngu máli, lét þess að vísu getið að hann hefði heldur kosið að forsrh. væri viðstaddur en þótti það ekki brýnna en svo að hann hélt áfram máli sínu þrátt fyrir skort á áheyrendum.
    Þegar hv. þm. hafði lokið ræðu sinni kvaddi hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sér hljóðs um þingsköp og lýsti undrun sinni á því að umræðan færi fram án þess að forsrh. væri viðstaddur þar sem sú ósk hefði verið látin í ljós að hann væri það. Þá fannst hv. þm. Þorsteini Pálssyni það allt í einu þjóðráð, fór í pontu og óskaði eftir því að umræðunni væri frestað og var orðið við þeirri beiðni.
    Ég vil taka skýrt fram, virðulegur forseti, að ég tel ekkert óeðlilegt við það að þegar málshefjandi fer fram á frestun fái hann hana. Hv. þm. hafði þó þegar flutt sína ræðu sem maður skyldi ætla að í hefði birst aðalerindi hans við hæstv. forsrh. Hver var þá ástæðan fyrir frestunarbeiðninni? Eitthvað annað en áhugi á því að forsrh. hlýddi á mál hans. En fjölmiðlarnir voru auðvitað búnir
að heyra mál hans, enda uppskar hann í fréttum útvarps og sjónvarps um kvöldið. Þar komst mjög greinilega til skila að viðskrh. og hv. þm. Þorsteinn Pálsson ræddu kaup Landsbanka Íslands á Samvinnubankanum. Aðrir komu þar ekki við sögu, enda umræðu frestað eins og áður sagði. Þar með var tilganginum kannski náð. Síðan heldur umræðan áfram en kastljósið er komið eitthvað allt annað og skilaboð til þjóðarinnar eru skýr: Það er Sjálfstfl. sem hefur skoðun á málinu, aðrir ekki.
    Svona nokkuð á sér allt of oft stað í þingstörfum. Hver þekkir ekki þegar stórmál eru til umræðu, sem ég er nú ekki að fullyrða að þessi skýrsla sé, að viðkomandi ráðherra mælir fyrir málinu, stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn talar næst, báðir lengja mál sitt úr hófi, komið að fréttatíma, allir drífa sig heim til að heyra hvað stórmennin sögðu. Fáeinar hræður mæta svo e.t.v. á kvöldfund í framhald umræðunnar, allur vindur úr umræðunni, fjölmiðlasjónarspilinu lokið, og hún fær hægt andlát. Því miður finnst manni oft að svona vinnubrögð séu úthugsuð til að sigra eða a.m.k. verða ofan á í kapphlaupinu mikla um athygli fjölmiðla. Og þeir bíta á agnið og spila með. Þessir hlutleysis- og sannleikselskandi ungu menn sem er

falið það ábyrgðarhlutverk að upplýsa þjóðina í anda lýðræðis og hlutleysis bíta allt of oft á agnið.
    Virðulegur forseti. Að þessu sögðu mun ég snúa mér að því sem hér er til umræðu, þ.e. skýrslunni.
    Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa skýrslu sem er ágætlega upplýsandi plagg. Við stóðum, nokkrar kvennalistakonur, að þessari beiðni ásamt nokkrum þm. úr Sjálfstfl., ekki vegna þess að okkur þætti nokkuð athugavert við það að Landsbanki Íslands óskaði eftir kaupum á hlutabréfum SÍS í Samvinnubankanum heldur hitt að málið var farið að fá á sig nokkuð sérkennilegan blæ og helst var af því að frétta úr fjölmiðlum svo að það var ágætt að fá það skýrt á viðunandi hátt. Nú stöndum við að vísu frammi fyrir orðnum hlut. Kaupin hafa þegar gengið um garð og með þeim aukaskilmálum sem fylgdu í lokasamningum, þ.e. að Samvinnubankinn fær greiddar 60 millj. í vexti sem bætur fyrir óhóflegan drátt á málinu.
    Eins og ég sagði er okkur kvennalistakonum það ekki á móti skapi að Landsbanki Íslands kaupi þessi hlutabréf, bæði vegna þeirra sjónarmiða að samruni banka sé af hinu góða en eins vegna hins að þarna voru miklir hagsmunir í húfi. Það er þó nokkuð einkennilegt sem fram kemur í skýrslunni, þar sem verið er að skýra frá aðdraganda kaupanna, að það sé sett þannig fram að upphaf málsins hafi verið að á sl. vori hafi hafist að frumkvæði Landsbankans viðræður milli bankastjóra Landsbanka Íslands og forsvarsmanna Sambands ísl. samvinnufélaga um kaup bankans á hlutabréfum Sambandsins í Samvinnubanka Íslands hf.
    Það virðist mega ráða af mörgu að svo sé alls ekki. Upphaf málsins hafi ekki verið með þeim hætti sem hér er skýrt og hlýtur maður að spyrja: Yfir hvað er verið að draga fjöður með þessari fullyrðingu? Því að það mun mála sannast að enginn þarf að bera neinn kinnroða fyrir þessi kaup. Það hlýtur að vera hagur Landsbankans og er vissulega hagur Sambandsins og auðvitað ríkisstjórnarinnar líka þar sem málum var þannig komið að það þurfti líklega að grípa til ráðstafana til að hjálpa Sambandi ísl. samvinnufélaga yfir örðugan hjalla. Þá
er alveg sama til hvers þessara þriggja aðila er litið. Ábyrgð þeirra allra er stór þegar um er að ræða svo stórt og voldugt fyrirtæki eins og Samband ísl. samvinnufélaga er sem teygir starfsemi sína út um allar byggðir landsins og veitir fjölda manns atvinnu og væri svo sannarlega grínlaust ef skakkaföll þess yrðu svo mikil að alvarlegar afleiðingar hlytust af. Áhugi Landsbankans hlýtur auðvitað að markast af tvennu. Annars vegar að gera tiltölulega hagstæð kaup í góðu fyrirtæki en hins vegar að huga að hagsmunum stærsta viðskiptavinar, það er Sambandinu. Hagsmunir Sambandsins ættu auðvitað að vera augljósir í þessu efni. Þegar kemur að hlut ríkisstjórnarinnar er ekki óeðlilegt að hún hlutist til um að kaupin megi takast því að það hlýtur að vera ríkisstjórninni mikið áhugamál að það takist að hjálpa Sambandinu yfir örðugasta hjallann og vonandi einhverja tímabundna örðugleika og ef kaupin mega verða til þess að greiða

götu Sambandsins þá er það vel.
    Nú greinir menn auðvitað örlítið á um það hversu góð kaup Landsbankinn hafi gert. Í lok þessarar skýrslu er að finna skoðun Ríkisendurskoðunar á þessum kaupum þar sem þeir fullyrða að kaupverðið sé of hátt og að virði alls hlutafjár Samvinnubankans gæti verið um 900 millj. kr. Í lokakafla frá Ríkisendurskoðun segir, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisendurskoðun lítur svo á að til þess að hægt hefði verið að byggja nákvæmt mat á virði hlutabréfa í Samvinnubanka Íslands hf., hefðu þurft að liggja fyrir fyllri upplýsingar um þann sparnað sem af sameiningu bankanna hlytist. Stofnunin telur að forsendur kaupverðs Landsbankans á hlut Sambands ísl. samvinnufélaga hf. sé alfarið háð árangri í sparnaði við sameiningu bankanna í framtíðinni og að Landsbankanum takist að halda meginhluta innlánsviðskipta Samvinnubanka frá því sem nú er.``
    Að þessu sögðu er lögð áhersla á að kaup Landsbankans á 52% hlutabréfa í Samvinnubankanum þjóni engum tilgangi og sé ekki virði þess sem greiða á fyrir nema til komi frekari kaup Landsbankans á hlutabréfum í Samvinnubankanum, lágmark 15% til viðbótar þannig að um samruna geti verið að ræða.
    Það er út af fyrir sig athyglisvert að Ríkisendurskoðun skuli komast að þessari niðurstöðu um kaupverð þegar þeir jafnframt lýsa því yfir að til að hægt hefði verið að byggja nákvæmt mat hefðu þurft að liggja fyrir fyllri upplýsingar. Auk þess virðist af því sem hér er sagt a.m.k. ekki verða ráðið að Ríkisendurskoðun hafi í rauninni haft nokkuð í huga hag Sambands ísl. samvinnufélaga í þessu máli og líti einungis á þetta út frá viðskiptalegu sjónarmiði Landsbankans. Hvort þetta eru óyggjandi tölur um virði hlutabréfa Sambandsins í Samvinnubankanum sem nú eru keypt er því vafamál.
    Þá erum við kannski komin að því að við þessi kaup verður að ýmsu að hyggja. Staldra ég m.a. við það sem segir í 22. gr. laga um viðskiptabanka, ,,en samkvæmt því er viðskiptabanka óheimilt að hafa samráð við aðrar innlánsstofnanir. Miðað við áform Landsbankans með kaupunum sýnist sem þetta lagaákvæði kunni að valda nokkrum vandkvæðum``, segir í áliti Ríkisendurskoðunar. Það þarf víst ekki að draga í efa að það hlýtur að vera erfitt fyrir Landsbankann að eiga 52% í þessum banka en ætla ekki að hafa samráð við hann um nokkurn hlut. Og sérstaklega verður manni hugsað til máls sem vakti mikla athygli upp úr áramótum, þ.e. kosningar fulltrúa Kvennalistans, Kristínar Sigurðardóttur, í bankaráð Landsbankans, þar sem mönnum varð mjög tíðrætt um hagsmunaárekstra, og ég er ekki að segja að ósekju, en maður hlýtur að spyrja: Hvernig verður þessu hagað og eiga sér ekki alvarlegir hagsmunaárekstrar þarna stað? Og hver á að sitja í bankastjórn Samvinnubankans? Ætlar Landsbankinn ekki að hafa neina aðild að stjórn þess banka? Vona ég að hæstv. viðskrh. geti skýrt nokkuð hér á eftir hvernig þessu verður hagað.
    Jafnframt því að við kvennalistakonur setjum okkur

hreint ekki upp á móti þessum kaupum, og gerðum heldur ekki áður en þau voru um garð gengin, er þó ýmislegt sem er athugunar virði í aðdraganda málsins. Hlýtur maður þá fyrst að staldra við þann samning, eða hvaða nafn sem við gefum því plaggi sem Sverrir Hermannsson bankastjóri undirritar fyrir hönd Landsbanka Íslands og Guðjón B. Ólafsson forstjóri fyrir hönd Samband ísl. samvinnufélaga, 1. sept. 1989. Margir virtust og virðast enn hafa litið á þetta sem samning, aðrir kalla þetta drög, enn aðrir kalla þetta minnispunkta o.s.frv. En hvað svo sem menn vilja nefna það er alveg ljóst að í því samkomulagi sem þessir tveir menn undirrita er gert ráð fyrir að Landsbanki Íslands greiði Sambandi ísl. samvinnufélaga 828 millj. fyrir þau hlutabréf sem hann síðan keypti.
    Það mun náttúrlega öllum kunnugt hvernig þetta mál gekk áfram. Ég ætla ekki að rekja það hvernig mál breytast en svo er komið mánuðum síðar, nánar tiltekið 29. des., að verð bankans hefur fallið um 220 millj. Því er borið við að ýmislegt hafi komið í ljós í millitíðinni sem hafi lækkað töluna. Það kann vel að vera rétt og eru helst nefndar til sögunnar skuldbindingar um lífeyrisgreiðslur til starfsmanna sem ekki hafi verið teknar með í reikninginn í fyrsta tilboði. Hvað svo sem veldur þessari lækkun er það mjög athyglisvert að fyrsta tilboð, eða fyrstu hugmyndir hvað svo sem við viljum kalla það, hafi
verið byggt á svo óraunsæju mati sem raun bar vitni í þessu fyrsta undirritaða plaggi þar sem talað er um 828 millj. Það kemur fram hér í skýrslunni að það er ekki fyrr en eftir að viðskrh. fer fram á greinargerð um fjárhagsstöðu Samvinnubankans, ítarlega úttekt, sem tölur taka að breytast. Hvernig stendur á því að fram hjá þeim forsendum sem seinna eru inni í dæminu og gengið er út frá í kaupverði var litið í þessum fyrstu drögum?
    Það er út af fyrir sig svo að í öllum venjulegum viðskiptum hefði verið erfitt að ganga fram hjá þessu fyrsta tilboði og jafnvel hefur maður heyrt þær raddir að það mundi ekki standast fyrir dómi að breyta þessari upphæð. Ég skal ekki fullyrða neitt um það en staðreyndin er sem sagt sú að það tekst að lækka verðið um 220 millj. á ekki lengri tíma. Hvað varðar vaxtagreiðslurnar sem síðan koma til sögunnar sem einhvers konar uppbót vegna dráttar málsins, þá er mjög böksulega að því staðið. Það er vel skiljanlegt að ýmsir bankaráðsmenn hafi efast um að þessar greiðslur ættu að eiga sér stað, sérstaklega með tilliti til þess að ef til stendur, og viðskrh. hefur reyndar lýst því yfir, að reyna að festa kaup á fleiri hlutabréfum, þá er alveg ljóst að þessar 60 millj. hljóta að koma þar inn í sem ákvörðun á kaupverði þeirra bréfa. En á hinn bóginn verður líka að líta til þess að þarna var mjög óeðlilega að hlutum staðið og því kannski skiljanlegt að bankinn reyni að setja plástur á sár. Klaufaskapurinn var kannski að vísa því út fyrir bankaráð og láta það í hendur bankastjóra sem þegar höfðu nefnt þessar tölur, þegar lýst því yfir að 60 millj. skyldu greiðast. Bankaráðið sjálft hefði átt að

taka á þessu máli og hefði eflaust haft betri samningsstöðu varðandi þessa umtalsverðu vaxtaleiðréttingu, eins og það nefnist hér, en bankastjórarnir sjálfir höfðu.
    Það er sem sagt fyrst og fremst allur aðdragandi og umfjöllun málsins sem okkur þykir ámælisverð. Í raun og veru hlýtur maður að spyrja hver skýringin sé á þessu ofmati í fyrstu tillögum og hvaða hagsmunir sátu þá í fyrirrúmi. Getur verið að Landsbankinn hafi ekki þar gætt eigin hagsmuna sem skyldi en hagsmunir Sambandsins setið í fyrrirúmi. E.t.v. var þetta einungis hefðbundið gönuhlaup í sérstökum og persónulegum stíl eins bankastjórans. Eða var það e.t.v. einhver annar sem stendur óhóflega nærri þessum stærsta viðskiptavini bankans sem togaði í spottana? Svona spurningum er sjálfsagt ekki auðvelt að fá svar við en í ljósi þess sem ég nefndi áðan um þá umræðu og fjaðrafok sem varð út af hagsmunaárekstrum og hagsmunatengslum vegna setu Kristínar Sigurðardóttur í bankaráði hlýtur þessi spurning að vakna í huga manns: Hvaða hagsmunir sátu í fyrirrúmi þegar 828 millj. voru kaupverðið?