Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Það mál sem hér er til umræðu snýst ekki um hvort sameina skuli viðskiptabanka heldur hvernig. Hver eigi að standa að slíkri sameiningu og hver kostnaðurinn sé við hana og hvort blanda eigi fjárhagserfiðleikum einstakra fyrirtækja, í þessu tilviki Sambands ísl. samvinnufélaga, inn í slíka samninga um samruna eða yfirtöku.
    Áður en ég ræði sérstaklega vissan þátt í þeirri framhaldssögu sem kaup Landsbankans á hlut SÍS í Samvinnubankanum hefur verið undanfarna mánuði vil ég fjalla um nokkur atriði sem komu fram í ræðu hæstv. viðskrh. þegar hann flutti skýrslu sína sl. fimmtudag.
    Hæstv. ráðherra lýsti framtíðarsýn sinni í bankaþjónustu hér á landi og nefndi sérstaklega að hann teldi að erlendir bankar ættu að starfa hér á landi í samkeppni við íslenskar lánastofnanir. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta hafi verið rætt í ríkisstjórninni, hvort hæstv. ríkisstjórn hafi mótað afstöðu til þessara hluta, og hver sé skoðun stjórnarflokkanna.
    Í öðru lagi fagna ég því að hæstv. ráðherra skuli telja það skynsamlegustu leiðina í eignarhaldsmálum bankanna að breyta ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélög og bjóða skuli út nýtt hlutafé til almennings. Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra hvort von sé á slíku frv. á þessu þingi, ekki síst í ljósi þess að Sjálfstfl. hefur lýst yfir þeirri stefnu sinni að gera ríkisviðskiptabankana að hlutafélögum. Ég spyr enn fremur: Hefur þetta mál verið rætt í ríkisstjórninni, hver er skoðun stjórnarflokkanna og hefur ríkisstjórnin tekið afstöðu til málsins? Ástæðan fyrir þeirri fsp. minni er að sjálfsögðu sú að í viðtali við Val Arnþórsson í laugardagsblaði Morgunblaðsins segir hann orðrétt: ,,Ég hef á undanförnum mánuðum ítrekað átt viðræður við forsrh. Íslands, Steingrím Hermannsson, um afstöðu
ríkisstjórnarinnar til ríkisviðskiptabankanna. Í þeim samtölum hefur komið fram að stefna ríkisstjórnarinnar væri eindregið sú`` og ég endurtek, ,,væri eindregið sú að ríkisviðskiptabankarnir yrðu reknir áfram sem slíkir í óbreyttu formi. Vangaveltur viðskrh. á Alþingi um hugsanlega breytingu á ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélagabanka koma því sem þruma úr heiðskíru lofti og eru mér lítt skiljanlegar.`` Lýkur hér lestri úr viðtali við Val Arnþórsson, bankastjóra Landsbankans, þar sem hann vitnar í samtöl sín við hæstv. forsrh. sem ég satt að segja hélt að yrði hér við umræðuna. Því eins og hv. síðasti ræðumaður sagði þá var umræðunni frestað hér á fimmtudaginn var vegna þess að hæstv. forsrh. gat ekki verið við umræðuna þar sem haldinn var fundur í framkvæmdastjórn Framsfl. á sama tíma. Það væri nefnilega full ástæða til, auk þess sem ég legg þessa fsp. fyrir hæstv. viðskrh., að heyra álit hæstv. forsrh. og fá svar við þeirri spurningu hvort hann viðurkenni það sem Valur Arnþórsson hefur eftir honum eða hvort hann er sama sinnis og sá maður sem fer með

æðsta vald í bankamálum þjóðarinnar þessa stundina, hæstv. viðskrh.
    Í þriðja lagi kemst ég ekki hjá því að nefna hugmynd hæstv. ráðherra um að Búnaðarbankinn komi inn í kaupin á Samvinnubankanum. Eins og hæstv. ráðherra veit hefur meiri hluti bankaráðs Landsbankans samþykkt að kaupa hlut annarra hluthafa en SÍS og stefnir að samruna bankanna. Slíkur samruni getur ekki átt sér stað samkvæmt lögum nema með leyfi hæstv. ráðherra. Það liggur því beint við að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé samþykkur þeirri stefnu sem bankaráð Landsbankans hefur mótað. Sé hann það ekki og vilji að Búnaðarbankinn gangi nú þegar til samstarfs við bankaráð eða bankastjórn Landsbankans þá er brostinn grundvöllur fyrir kaupunum eins og Ríkisendurskoðun undirstrikar rækilega í skýrslu sinni.
    Ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra svaraði þessari fsp. Og af því að hæstv. forsrh. er kominn í salinn vil ég benda honum á og endurtaka að ég spurði fyrr í minni ræðu hæstv. viðskrh. að því hver væri stefna hæstv. ríkisstjórnar varðandi þá framtíðarsýn að gera ríkisviðskiptabankana að hlutafélögum. Og í tilefni af viðtali Morgunblaðsins við Val Arnþórsson sl. laugardag óskaði ég eftir því, fyrst beðið var um frestun á þessum umræðum til að hæstv. forsrh. gæti tekið þátt í þeim, að heyra hvert viðhorf hæstv. forsrh. væri til þessa máls.
    Í fjórða lagi var athyglisvert að hlýða á hæstv. ráðherra lýsa ástæðunum fyrir fjárhagsvanda samvinnuhreyfingarinnar. Hann sagði í ræðu sinni sl. fimmtudag að í viðskrn. lægju frumvarpsdrög til nýrra laga um samvinnufélög þar sem gert væri ráð fyrir þeim möguleika að gefa út stofnsjóðsbréf eins og hlutafélög gefa út hlutabréf. Hann bætti því við að lítill áhugi væri á slíkri lausn hjá forsvarsmönnum samvinnuhreyfingarinnar. Þetta kemur satt að segja nokkuð á óvart og ég tel nauðsynlegt að hæstv. viðskrh. skýri það nánar. Getur verið að forsvarsmenn samvinnuhreyfingarinnar séu á móti því að nýta sér slíkt fyrirkomulag til að efla eiginfjárstöðu samvinnufyrirtækjanna? Sé svo er það auðvitað alvarlegt mál sem nauðsynlegt er að hæstv. ráðherra skýri betur og botni það sem hann sagði í ræðu sinni sl. fimmtudag.
    Virðulegur forseti. Ég mun hér á eftir ræða einn þátt þessa máls sérstaklega en það eru umframgreiðslur til SÍS vegna kaupanna á hlutabréfum Sambandsins í Samvinnubankanum, þ.e. umfram tilboðsverðið. Einnig mun ég ræða sérkennileg afskipti stjórnvalda af þessu máli. Þau afskipti eru að minni hyggju skólabókardæmi um undirmál, yfirklór og klúður. Í þeim skollaleik hafa hæstv. ráðherrar leikið stór hlutverk.
    Ég skil vel að hæstv. ráðherra skuli í ræðu sinni sl. fimmtudag hafa vikið að trúnaðarskyldu einstakra bankaráðsmanna og starfsmanna Landsbankans vegna lánsviðskipta SÍS í Landsbankanum. Það gerðist sl. haust, hinn 15. sept. 1989 nánar tiltekið, að bankaeftirlitið sá ástæðu til að senda þá sitjandi bankaráði og bankastjórum bréf til að minna þá á

trúnaðarskylduna. Ástæðan var sú að einstakir aðilar nefndu tölur um skuld Sambandsins vegna lánsviðskipta við bankann og aðra aðila. Lögmælt trúnaðarskylda nær hins vegar ekki til kaupa Landsbankans á hlut SÍS í Samvinnubankanum. Þau viðskipti eru ekki lánsviðskipti heldur kaup á eignum. Slík viðskipti hljóta eðli máls samkvæmt að fara fram fyrir opnum tjöldum. Trúnaðarskyldan má aldrei verða einhvers konar ábreiða eða hulinshjálmur til að fela kaupverð sem bankinn greiðir. Eigendur Landsbankans eiga kröfu á því að það sé upplýst, þótt viðkomandi aðilar eigi þar fyrir utan í lánsviðskiptum, þar sem fullur trúnaður skal ríkja. Ég tel því mjög mikilvægt að þetta mál sé rætt ítarlega hér á Alþingi.
    Afskipti stjórnvalda af þessu máli ná aftur til 7. nóv. 1988, þ.e. á afmæli rússnesku byltingarinnar, þegar hæstv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson boðaði til sín tvo bankastjóra Landsbankans, þá Sverri Hermannsson og Björgvin Vilmundarson, og ræddi við þá um hugsanleg kaup Landsbankans á Samvinnubankanum. Áður höfðu forráðamenn Sambandsins verið í sambandi við fulltrúa ríkisstjórnarinnar, m.a. um þetta mál og reyndar einnig um sölu á hlut Regins hf. í Aðalverktökum. Það er athyglisvert að þessi fundur hæstv. fjmrh. átti sér stað um svipað leyti og hann lýsti því yfir hér á Alþingi að Samband ísl. samvinnufélaga yrði gjaldþrota á næstu 12--16 mánuðum ef fram héldi sem horfði.
    Ég ætla ekki að rekja kaup Landsbankans á hlut Sambandsins í Samvinnubankanum allar götur frá upphafi. Því er lýst í skýrslunni sem hér er til umræðu en einnig gerði hv. 1. þm. Suðurl. Þorsteinn Pálsson þessari sögu skil í sinni ræðu. Ég vil þó leggja áherslu á að það sem Sverrir Hermannsson og Guðjón B. Ólafsson undirrituðu hinn 1. sept. sl. var viljayfirlýsing um að gera kaupsamning en ekki kaupsamningur eins og haldið hefur verið fram í umræðunni.
    Hinn 29. des. voru kaupin til umræðu í bankaráði Landsbankans, þ.e. í gamla bankaráðinu. Það er kannski athyglisvert fyrir hið háa Alþingi að gera sér grein fyrir því að allt í einu lá gífurlega mikið á að afgreiða þetta mál, jafnvel þótt nokkrum dögum áður hafi verið kosnir á Alþingi nýir bankaráðsmenn. Málið var keyrt í gegn 29. des. og afgreitt á þeim fundi þar sem samþykkt var bindandi kauptilboð á þeim hluta sem Sambandið á í Samvinnubankanum.
    Þann 29. des. var sem sagt tekin sú ákvörðun í bankaráðinu að ýta út af borðinu samningsdrögum sem þá lágu fyrir á grundvelli áðurnefndrar viljayfirlýsingar Sverris Hermannssonar og Guðjóns B. Ólafssonar. Í stað þess að samþykkja fyrirliggjandi samningsdrög ákvað bankaráðið samhljóða að gera Sambandinu tilboð upp á 605 millj. kr. og miðuðust kaupin við 1. jan. Enginn fyrirvari var í þessu tilboði en tilboðið er að finna í þeirri skýrslu sem hér er til umræðu. Ekkert var minnst á lækkun fasteigna vegna munar á annars vegar bókfærðu verði og hins vegar á fasteignaverði, ekkert minnst á töpuð útlán og því síður á lífeyrisskuldbindingar Samvinnubankans.

    Þegar stjórn Sambands ísl. samvinnufélaga kom til fundar föstudaginn 5. jan. sl. til að ræða þetta tilboð kom hins vegar babb í bátinn. Meiri hluti stjórnarinnar reyndist ekki vera samþykkur því að taka tilboðinu eins og það lá fyrir samþykkt af bankaráðinu. Þá var gert fundarhlé á fundi stjórnar Sambands ísl. samvinnufélaga og nokkrir stjórnarmenn áttu viðtöl við nokkra ráðherra. Þetta sáu landsmenn í sjónvarpi, heyrðu í útvarpi og sáu myndir af þeim þar sem þeir hímdu fyrir utan stjórnarráðsskrifstofuna þessa helgi. Þá áttu fulltrúar stjórnar Sambandsins viðtal við hæstv. viðskrh. og formann bankaráðs Landsbankans. Að sögn forráðamanna SÍS sögðust hæstv. ráðherra og formaður bankaráðs á þeim fundi mundu beita sér fyrir því að greiddir yrðu vextir fyrir tímabilið 1. sept. til 1. jan. af kaupverðinu. Það eru einmitt þessir vextir sem hér hafa verið til umræðu, en þeir samsvara tæplega 60 millj. kr.
    Þessu til staðfestingar má vitna í Morgunblaðið hinn 10. jan. sl. þar sem haft er orðrétt eftir Eyjólfi K. Sigurjónssyni á þessa leið, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Mér finnst að það sé sanngirnismál, þar sem við tökum nú yfir bankann og fáum arð allt árið, að Sambandið fái reiknaða vexti af þessum 605 millj. kr. frá 1. sept. sl. Ég mun mæla með því að sá háttur verði hafður á og þannig fái
Sambandið um 60 millj. kr. aukreitis``, sagði Eyjólfur K. Sigurjónsson, formaður bankaráðs Landsbankans, í viðtali við Morgunblaðið hinn 10. jan. sl.
    Reyndar hefur þetta sjónarmið verið staðfest af öðrum sem komu að málinu, t.d. hæstv. forsrh. sem hefur lýst því yfir opinberlega að hann telji að Landsbankanum beri að greiða vexti af kaupverðinu þennan tíma, þ.e. frá 1. sept. 1989 til 31. des. sama ár. Hinn 10. febr. staðfestir hæstv. forsrh. þetta í Tímanum og segir þar, með leyfi forseta, að í ljósi þess að nánast hafi verið kominn samningur á 1. sept. sé eðlilegt að miða vaxtagreiðslur af kaupunum við þá tímasetningu en það þýði að Landsbankinn spari sér ekki 60 millj. kr. á þeim drætti sem varð við að ganga frá kaupunum. Varla getur nokkur maður talað skýrar um það hvað við hafi verið átt, hvaða mál gengu á milli stjórnvalda og forráðamanna Sambands ísl. samvinnufélaga þegar stjórnarfundur Sambandsins stóð yfir snemma í janúarmánuði.
    Strax á þessum tíma var ljóst að ekki var meiri hluti fyrir þessum sjónarmiðum í bankaráði Landsbankans því að láðst hafði að fá fylgi Lúðvíks Jósepssonar, fulltrúa Alþb., við þessa hugmynd. Hann lýsti því afdráttarlaust yfir í blaðaviðtölum, fleiri en einu, aftur og aftur, að hann mundi aldrei standa að því að greiða vexti af kaupverðinu í þessa fjóra mánuði, þ.e. frá 1. sept. til 1. jan. Nú var staðan orðin flókin því að erfitt var að möndla málið í þeim anda sem hæstv. ráðherra og formaður bankaráðs höfðu gefið fyrirheit um án þess að meiri hluti bankaráðs væri fyrir hendi. Það skal tekið fram að kaup á hlutabréfum og kaupverð eru að sjálfsögðu í höndum bankaráðsins en lánsviðskipti við

viðskiptamenn í höndum bankastjórnar.
    Í bankaráðsfundi sem haldinn var 8. febr. sl. var málið tekið fyrir. Fyrir þann fund var ljóst að ég gat ekki setið fundinn nema til kl. 5. Ég bað um frest á því að málið yrði afgreitt, sérstaklega vegna þess að ég hafði í mörgum liðum hinn 11. jan. sl. farið fram á það að fyrir lægju ákveðnar upplýsingar sem varða þetta mál áður en málið yrði endanlega afgreitt í bankaráði. Enn fremur var ljóst að það skaðaði ekki málið þótt geymt yrði í örfáa daga, einfaldlega vegna þess að andvirðið sem greiða átti fyrir hlutabréfin var ekki greitt Sambandinu út heldur kom til skuldajöfnunar á reikningum Sambandsins hjá Landsbankanum. Það var ekki fallist á þessa frestun, engin skýring gefin á því hvers vegna þurfti að klára málið á þessum fundi. Bankaráðið samþykkti að ganga frá kaupunum og samþykkti jafnframt, svo að ég vitni orðrétt í þá tillögu sem samþykkt var og snertir þetta mál sérstaklega, með leyfi forseta:
    ,,Bankaráð vísar beiðni stjórnar Sambandsins um vaxtaleiðréttingu, sbr. bréf forstjóra Sambandsins dags. 15. fyrra mánaðar, til bankastjórnar til afgreiðslu.``
    Hér lýkur tilvitnun í samþykkt meiri hluta bankaráðsins frá 8. febr.
    Það sem verið er að vísa til er bréf frá forstjóra Sambandsins til Landsbankans þar sem sagt er að tilboð Landsbankans sé samþykkt og ég vitna í þetta bréf, orðrétt, með leyfi forseta: ,,Þetta er samþykkt í trausti þess að umtalsverð vaxtaleiðrétting fáist vegna þess mikla dráttar sem orðið hefur á afgreiðslu málsins.``
    Það er kristaltært, og ég get staðfest það eftir viðtöl við þá menn sem þarna komu nærri, við hvað var átt. Það var átt við það sem hæstv. forsrh. nefndi og ég hef vitnað til og það var átt nákvæmlega við það sem formaður bankaráðsins, Eyjólfur K. Sigurjónsson, sagði 10. jan. að hann mundi mæla með í bankaráði. Það var sem sagt átt við það að Sambandið fengi um það bil 60 millj. kr. fyrir tímabilið 1. sept. til 1. jan.
    Þegar hér var komið sögu, og ekki síst vegna þess að einn bankastjóranna lýsti því fyrir að hann teldi að þessi samþykkt meiri hlutans þýddi að greiða ætti Sambandinu 60 millj. kr., fannst mér ekki stætt á öðru en að bankaráðið væri kallað aftur saman og tilmælin til bankastjórnarinnar væru það skýr að bankastjórarnir vissu nákvæmlega hvað þeim bæri að gera. Þetta var auðvitað vegna þess að einn af bankaráðsmönnunum, Lúðvík Jósepsson, fulltrúi Alþb., sagði um þetta leyti að hann hefði aldrei samþykkt að greiða þessa vexti fyrir tímabilið 1. sept. til 1. jan., aldrei. Það var ljóst að eitthvað var athugavert við þessa samþykkt bankaráðsins. Og eftir að þrír bankaráðsmenn óskuðu eftir að halda fund í bankaráðinu féllst formaður bankaráðsins loks á að það væri gert, enda var það þá orðin skylda skv. lögum. Sá fundur var síðan haldinn miðvikudaginn 14. febr. sl. Og hvað gerðist á þeim fundi? Ég lagði fram á fundinum tillögu sem nánast var orðuð nákvæmlega eins og Lúðvík Jósepsson hafði orðað sínar hugsanir í blöðum. Tillagan er á þessa

leið, með leyfi forseta:
    ,,Í tilefni af þeim skilningi Sverris Hermannssonar að bankaráð hefði veitt bankastjórn umboð til þess að greiða allt að 60 millj. aukalega til SÍS samþykkir bankaráð Landsbanka Íslands, í samræmi við samþykkt sína 29. des. sl., að greiða ekki vexti af kaupverði hlutabréfa SÍS í Samvinnubankanum hf. fyrir tímabilið 1. sept. 1989 til 1. jan. 1990 eins og farið er fram á í bréfi forstjóra Sambandsins dags. 15. jan. 1990, enda er slík vaxtaleiðrétting ekki
í samræmi við bindandi kauptilboð bankaráðs frá 29. des. 1989.``
    Nú halda menn áreiðanlega hér í þessari lýðræðislegu stofnun að þessi tillaga hafi fengið umræðu í bankaráðinu. Svo var ekki því um leið og tillögu minni hafði verið lýst dró formaður bankaráðsins upp frávísunartillögu sem meiri hlutinn stóð að þar sem þessari tillögu var vísað frá þar sem málið væri afgreitt. Það sem hins vegar er athyglisvert við frávísunartillöguna er að hún er ekki eins orðuð og sú tillaga sem bankaráðið hafði samþykkt 8. febr. því að nú er sagt að óskir Sambandsins um vaxtaleiðréttingu séu annað mál en kaup bankans á hlutabréfum í Samvinnubankanum. Og hvers vegna skyldi þetta hafa verið orðað um? Auðvitað vegna þess að Lúðvík Jósepsson varð að geta sýnt fram á að hann hefði aldrei samþykkt að vaxtaleiðrétting fyrir þetta tímabil yrði greidd. Ef á að leggja þann skilning í þetta, þá er ljóst að formaður bankaráðsins hefur ekki gert það sem hann ætlaði sér að gera og kom fram í viðtalinu sem ég nefndi áðan. Með öðrum orðum, menn fóru að reyna að klóra yfir það sem áður hafði gerst í þessum málum, klóra yfir það. Fela það sem raunverulega hafði gerst, en það voru þau undirmál sem áttu sér stað á sínum tíma þegar stjórn Sambands ísl. samvinnufélaga lenti í erfiðleikum og vildi ekki samþykkja kauptilboðið eins og það lá fyrir frá bankaráði Landsbankans og samþykkt hafði verið 29. des. Þeir sem stóðu að því að vísa þessu máli frá voru fulltrúar stjórnarflokkanna en fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna, þ.e. þeirra sem eiga sæti í bankaráði, Sjálfstfl. og Kvennalista, greiddu atkvæði gegn þessari frávísunartillögu.
    Síðan gerðist það, virðulegi forseti, að sl. föstudag notuðu bankastjórarnir umboð sitt sem þeir fengu hjá meiri hlutanum og gengu endanlega frá kaupunum. Greiddar voru tæplega 60 millj. kr. í vaxtaleiðréttingu af kaupverðinu fyrir tímabilið frá 1. sept. til 1. jan. og þar með voru efnd þau fyrirheit sem hæstv. ráðherra og formaður bankaráðs höfðu gefið forráðamönnum SÍS. Ég hef reyndar ekkert heyrt í Lúðvík Jósepssyni en hann ruddi vissulega brautina á sínum tíma.
    Ég tel það skyldu mína að skýra hv. Alþingi frá þessu sérkennilega máli. Það hlýtur að vera eðlilegt að kaup eins og þessi séu rædd á Alþingi. Ríkisendurskoðun telur að hlutur SÍS í Samvinnubankanum sé 450--500 millj. kr. virði. Bankaráð Landsbankans samþykkir 605 millj. kr. tilboð. Hæstv. ráðherra og formaður bankaráðs bæta síðan litlum 60 millj. við og meiri hluti bankaráðsins

fellst á að gefa bankastjórunum umboð til að ganga frá málinu. Ég tek það fram að það er ekki við SÍS að sakast í þessu máli. Auðvitað vilja forráðamenn Sambandsins fá sem mest verð fyrr hlut sinn í Samvinnubankanum. Afskipti hæstv. ráðherra og formanns bankaráðs voru hins vegar óheppileg og eru skólabókardæmi um undirmál, yfirklór og klúður.
    Af þessu tilefni, virðulegur forseti, vil ég spyrja hæstv. ráðherra tveggja spurninga:
    1. Telur hann að Landsbankinn hafi staðið við þau fyrirheit sem hann og formaður bankaráðs gáfu SÍS á sínum tíma?
    2. Telur hann að aðrir eigendur Samvinnubankans eigi að fá sams konar vaxtauppbót?
    Verði það niðurstaðan verður heildarkaupverðið yfir 1300 millj. kr. eða álíka mikið og lá fyrir að greitt yrði samkvæmt fyrstu samningsdrögum að teknu tilliti til lækkunar fasteigna, tapaðra útlána og lífeyrisskuldbindinga Samvinnubankans. Það verð er um það bil 400 millj. kr. hærra en mat Ríkisendurskoðunar á kaupverði bankans er og skal ég ekki leggja dóm á það hvort það verð sé réttara en annað. En það er athyglisvert að það var hæstv. ráðherra en ekki Alþingi sem fór fram á það að Ríkisendurskoðun tæki þetta mál út á sínum tíma.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, rifja upp spurningar mínar, hafi þær farið fram hjá hæstv. ráðherra. Hver er afstaða hæstv. ríkisstjórnar til starfsemi erlendra banka hér á landi? Hvenær má búast við frv. um að gera ríkisviðskiptabankana að hlutafélögum? Er hæstv. forsrh. sammála hæstv. viðskrh. í því máli? Er hæstv. ráðherra sammála þeirri stefnu bankaráðs og bankastjórnar Landsbankans að yfirtaka Samvinnubankann og vinna að samruna áður en talað er við aðra banka? Hver eru rökin gegn fyrirliggjandi frumvarpsdrögum sem liggja í viðskrn. um samvinnufélög? Og loks: Telur hæstv. ráðherra að Landsbankinn hafi staðið við þau fyrirheit sem hann og formaður bankaráðs gáfu SÍS á sínum tíma? Telur hann að aðrir eigendur Samvinnubankans eigi að fá sams konar verð?
    Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra svari þessum spurningum og gefst honum þá tækifæri til að slá pólitískar keilur á réttum vettvangi.