Stjórn fiskveiða
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Herra forseti. Við höfum nú hlýtt á hæstv. sjútvrh. mæla fyrir frv. til laga um stjórn fiskveiða. Það er ekki í fyrsta sinn sem slíkt skeður. Í fyrsta sinn mælti þessi hæstv. sjútvrh. fyrir frv. til laga um stjórn fiskveiða hér í þessari hv. deild í desember 1983. Það var þá sem mörkuð var ný stefna í fiskveiðimálum. Það er stefna sem síðan hefur verið fylgt og stefna sem hefur verið viðhaldið með því að samþykkja hvað eftir annað lög um framlengingu þessarar stefnu. Hæstv. ráðherra hefur alltaf talað fyrir þessum frv. um framlengingu. Það vill svo til að ég hef alltaf komið í kjölfarið á hæstv. sjútvrh. og geri það líka nú. Ég hef lýst mínum skoðunum á þessu máli, en ég hef verið mjög andvígur þeirri stefnu sem mótuð var með lögunum frá 1983. Ég mun halda uppi viðtekinni reglu. Ég er kominn hér í kjölfarið á hæstv. sjútvrh. og ég mun lýsa skoðunum mínum á þessu máli. ( StG: Er ekki hægt að fá þingmanninn um borð?) Hv. 3. þm. Norðurl. v. er velkominn um borð til að vera með þeirri skipshöfn sem berst gegn þeirri fiskveiðistefnu sem fylgt hefur verið.
    Ég er sammála því sem hæstv. sjútvrh. sagði í upphafi ræðu sinnar að þetta mál er eitt það allra mikilvægasta sem um ræðir fyrir framtíð íslensku þjóðarinnar. Og eftir að hafa heyrt ræðu hæstv. sjútvrh. kemur margt upp í hugann og margt er vissulega umhugsunarefni. Það getur vart verið til mikilvægara mál en það sem við nú fjöllum um. ,,Föðurland vort hálft er hafið``, sagði skáldið. Ég skal nú ganga vafningalaust til verks og ræða vandamálið sem frv. þetta fjallar um.
    Við Íslendingar stöndum vissulega frammi fyrir miklum vanda í fiskveiðistjórnun. Sóknargeta fiskiskipaflotans er meiri en samsvarar veiðiþoli fiskistofnanna. Góð ráð eru dýr. Minnka verður sóknargetuna annaðhvort með því að takmarka fiskveiðiflotann eða takmarka not skipaflotans. Geta menn sagt sér sjálfir hvað sé skynsamlegra eða þjóðhagslega hagkvæmara, að
takmarka fjárfestinguna sem lagt er í eða takmarka nýtingu þeirrar fjárfestingar sem kostað er til. Þegar alls er gætt er nauðsynlegt að hafa hugfast hver tilgangurinn er með fiskveiðistjórnun. Grundvallaratriðið er verndun fiskistofna jafnframt hámarksafrakstri af fiskveiðum.
    Og hver er þá okkar hlutur í þessum efnum? Á undanförnum árum hefur fiskveiðiflotinn stækkað. Nýting skipastólsins hefur versnað. Afrakstur fiskveiða hefur minnkað. Verndun fiskistofnanna hefur hrakað og veiðiþolið minnkað. Þannig höfum við ekki gengið til góðs götuna fram eftir veg. Þvert á móti er hér um að ræða hrakfallasögu. Menn þegja þunnu hljóði um þessa staðreynd. Það skaðar ekki að láta tölurnar tala, af mörgu er að taka. Hér eru örfá dæmi sem ég skal minna á.
    Á árunum 1984--1988 fjölgaði fiskiskipum um 121 skip og smálestatala jókst um 9879 lestir. Auk þess fjölgaði opnum vélbátum um 161 og smálestatala

þeirra jókst um 1725.
    Á árunum 1979--1983 fækkaði hins vegar skipum um 71 og smálestatala jókst um 5357 lestir. Auk þess fjölgaði opnum vélbátum um 517 og smálestatala þeirra jókst um 1653.
    Á árunum 1980--1983 fór þorskafli 64.000 tonn fram úr tillögum fiskifræðinga um veiði. Á árunum 1984--1988 fór þorskafli hins vegar 691.000 tonn fram úr tillögum fiskifræðinga um veiði.
    Þjóðhagsstofnun hefur reiknað út áhrif vannýtingar fiskiskipa á afkomu botnfiskveiða. Samkvæmt þeirri athugun gæti hagur útgerðar árið 1987 hafa batnað um nálægt því 1 milljarð kr. eða nálægt 5% í hlutfalli við tekjur ef fiskiskipum hefði verið fækkað um 10%. Þetta segir sína sögu. Ég gæti lengi haldið áfram og komið með fleiri tölur en ég neita mér um það.
    Þessum ósköpum veldur röng fiskveiðistefna. Það fer ekki á milli mála að þessi óheillaþróun magnast um allan helming eftir að ný fiskveiðistefna var tekin upp með lögunum frá 1983 um fiskveiðistjórn. Það er að berja höfðinu við steininn að neita að draga ályktanir af þessari staðreynd. Samt er það sá skollaleikur sem stjórnvöld hafa leikið og enn heldur þessum leik áfram.
    Við höfum nú hlýtt á mál hæstv. sjútvrh. Í ljósi þess sem hæstv. ráðherra sagði skulum við líta nánar á málið. Mér er spurn: Hvað gengur hæstv. ráðherra til að flytja annað eins frv. og hér er til umræðu? Í sannleika sagt var ég engu nær þegar hæstv. ráðherra hafði talað fyrir frv. Ég var engu nær um það sem mér er efst í huga. Það er brennandi spurning. Mín spurning til hæstv. sjútvrh. er: Hvers vegna vill hæstv. ráðherra halda áfram kvótakerfinu með tilliti til reynslunnar af því í sex ár? Og aftur spyr ég: Kemur ekki til greina með tilliti til reynslunnnar, hæstv. ráðherra, að taka upp á ný fiskveiðistjórnun sem byggist á sóknarstýringu eftir almennum reglum líkt því sem var 1976--1983? Enn spyr ég hæstv. ráðherra: Er kvótakerfið góð aðferð til fiskveiðistjórnunar með tilliti til fiskverndar þegar því fylgir að farið er tífallt meir en áður fram úr tillögum fiskifræðinga um leyfilega heildarveiði?
Má ég einnig spyrja, hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að haldið er við kvótakerfið sem aðferð til fiskveiðistjórnunar þegar það er staðreynd að því fylgir tvisvar sinnum meiri aukning fiskiskipastólsins en áður var?
    Sjá menn ekki að það hljóta að vera ríkar ástæður sem geti í ljósi reynslunnar réttlætt framhald kvótakerfisins? Hæstv. sjútvrh. verður að skýra betur þessar ástæður en komið hefur fram í framsöguræðu hans og í grg. frv. sem við nú fjöllum um. Hæstv. ráðherra verður, honum ber að draga upp skýra mynd af þessu. Engar felumyndir duga. Ég á fleira vantalað við hæstv. sjútvrh.
    Það segir að tilgangur frv. sé að marka meginreglur varðandi framtíðarskipan stjórnar fiskveiða og skapa grundvöll fyrir hagkvæmari og skynsamlegri nýtingu fiskistofnanna. Ég get ekki varist að spyrja hæstv. sjútvrh.: Hvernig má þetta ske með aðferð

kvótakerfisins sem leiðir til stækkunar fiskveiðiflotans, verri nýtingar skipastólsins, minnkandi afraksturs fiskveiða, hrakandi verndunar fiskistofna og minnkandi veiðiþols? Ég spyr. Hinn yfirlýsti tilgangur frv. er hvorki meira né minna en bein þversögn við veruleikann. Fyrr má nú rota en dauðrota. Hæstv. ráðherra kemst ekki fram hjá því að gera hreint fyrir sínum dyrum um þessa framsetningu.
    Þá segir í greinargerð með frv. að því sé ætlað að skapa sjávarútveginum almenna umgjörð og leikreglur. Almenna umgjörð og leikreglur. Innan þessa ramma sé þeim sem við sjávarútveg vinna hins vegar falið að taka ákvarðanir á þann hátt sem þeir telji hagkvæmast. Með því að nýta þekkingu og dugnað þeirra er gerst þekkja megi ætla að heildarafrakstri af framleiðsluauðlindinni verði náð fyrir þjóðfélagið í heild. Þannig hljóðar það. En þetta kemur eins og skollinn úr sauðarleggnum. Hér er gefin lýsing á eðli almennrar sóknarstýringar sem er í hreinni mótsögn við einstaklingsbundna stjórnun fiskveiða, svo sem kvótakerfið er. Hvað á þetta að þýða? Á þetta kannski að rugla menn í ríminu? Blekking eða hvað? Nei, hæstv. ráðherra verður að svara fyrir þetta.
    En snúum okkur þá að þeim breytingum frá núgildandi lögum sem felast í þessu frv. Er þá fyrst til að taka að lög um stjórnun fiskveiða skuli vera ótímabundin, svo sem algengast sé hér á landi, eins og það er orðað. Rétt er nú það. En málið er ekki svona einfalt. Man nú enginn hvað sagt var þegar kvótahelsinu var smeygt, í skammdeginu 1983, á líftaug undirstöðuatvinnuvegs þjóðarinnar? Hæstv. sjútvrh. lagði þá ríka áherslu á að kvótakerfið væri sett til reynslu og til bráðabirgða ef svo bæri undir. Og þessu til áréttingar lagði ráðherra til að lögin um kvótakerfið yrðu aðeins til eins árs. Svo er nú farið að. Og framlagning laganna síðan hefur einnig verið tímabundin. Við hverja framlengingu hefur farið fram svokölluð endurskoðun. Og við hverja endurskoðun hefur árangurinn af kvótakerfinu birst í lakari verndun fiskistofnanna og minnkandi möguleikum á hámarksafrakstri fiskveiða.
    Nú segir hæstv. sjútvrh., sami ráðherrann og í upphafi sagði kvótann til reynslu, að nú sé fullreynt. Hann segir að reynslan af þessari fiskveiðistjórnun sé slík að kerfið skuli sett á til frambúðar. Manni er spurn, hæstv. sjútvrh.: Hvað hefði að mati ráðherra fiskverndinni mátt hraka mikið meir og afrakstur fiskveiða mátt vera mikið lakari til þess að draga mætti þá ályktun að reynslan af kvótakerfinu réttlætti ekki framlengingu þess? Hverju svarar ráðherra þessu? En þögn um þetta atriði kallar á aðra spurningu. Getur verið að hæstv. sjútvrh. hafi alla tíð verið staðráðinn í að koma kvótanum á til frambúðar? Getur verið að talið um reynslutíma hafi alla tíð verið fyrirsláttur? Getur verið að hæstv. ráðherra hafi verið ákveðinn að fara sínu fram hvað sem tautaði og raulaði? Reynslan af kvótakerfinu gefur vissulega tilefni til að spyrja. Og svo gerir þráhyggja hæstv. ráðherra við að framlengja lífdaga þess. Og víst er það að ekki hefur það reynst að ófyrirsynju sem ég sagði þegar ég andmælti við 1.

umr. hér í hv. deild kvótafrumvarpinu í desember 1983. Ég minnti á það sem eftir vitrum manni hafði verið sagt, að það sem í löggjöf héti að væri til reynslu eða til bráðabirgða væri oftast lífseigast og til mestrar frambúðar. En auðvitað á slík regla ekki að geta átt við slíkt afstyrmi löggjafar sem kvótakerfið er.
    Þá er ein breytingin sem felst í frv. þessu að botnfiskheimildir verði miðaðar við tímabilið 1. sept. til 31. ágúst ár hvert en ekki almanaksárið eins og nú er. Þetta á að nefnast fiskveiðiár. Hæstv. ráðherra skýrði þetta. Mér þykir ástæða til þess að fara nánar út í þetta. Ástæðurnar sem eru fram taldar fyrir þessari breytingu eru sannarlega nokkuð skondnar. Það er tekið fram að með þessari skipan verði fyrr ljósar nauðsynlegar forsendur fyrir gerð þjóðhagsáætlunar og fjárlaga fyrir komandi ár. En bætt er við að á hinn bóginn sé því ekki að neita að aðskilnaður fiskveiðiárs og almanaksárs geti gert þessar forsendur ótryggari. Þá er tekið fram að þessi breyting á fiskveiðiárinu skapi vissa byrjunarörðugleika. Já, mikið skal til mikils vinna.
    Fjarri er mér að stinga undir stól nokkru sem gæti mælt þessari breytingu bót. Þessi aðskilnaður fiskveiðiárs og almanaksárs er rökstuddur með því að hagkvæmara sé að láta þá þurrð á veiðiheimildum sem oft fylgir síðustu mánuðum hvers veiðitímabils koma frekar niður á sumrinu en öðrum árstíma. Bent er á að
á þeim árstíma séu aflabrögð oft góð en fiskur verri til vinnslu en á öðrum árstímum og fiskvinnslan vanbúin að taka við miklum afla vegna sumarleyfa. Svo hljóða þau orð. Allt kemur þetta spánskt fyrir sjónir. Það er gert ráð fyrir að það dragi úr veiðum á þeim árstíma sem aflabrögð eru góð. Þá er gert ráð fyrir að dragi úr veiði. Það er gengið fram hjá þeirri augljósu staðreynd að hagkvæmast er fyrir sjálfa útgerðina að halda sér sem mest að veiðum þegar aflabrögðin eru sem best. Þannig er hagkvæmast fyrir hvert skip að veiða upp í kvóta sinn án tillits til þess hvort fiskur er verri eða betri til vinnslu eða fiskvinnslan sé vanbúin að taka við miklum afla vegna sumarleyfa starfsfólks. Kvótakerfið hefur ekkert innbyggt skipulag sem mælir fyrir hvenær skip skuli halda sér að veiðum. Það er hins vegar eðli fiskveiðistjórnunar sem er fólgin í sóknarstýringu eftir almennum reglum þar sem beitt er tímabundnum veiðibönnum, eftir árstímum og veiðisvæðum.
    Til þess að ná því hagræði fyrir fiskvinnsluna og þjóðhagslegum ávinningi sem talað er um dugar ekki ákvæði frv. um fiskveiðiár. Það dugar ekkert nema að afnema sjálft kvótakerfið og taka upp almenna sóknarstýringu við stjórn fiskveiða. Hér breytir engu um þó að kvótaár sé tekið upp í tímatalið. Það hefði þess vegna alveg eins mátt notast við kirkjuárið. Ef menn vilja endilega afleggja almanaksárið í tilbeiðslu sinni við kvótakerfið. Og þetta kallaði hæstv. ráðherra hér í ræðu sinni róttæka breytingu, tilkomu kvótaársins.
    Ein breyting með frv. er skýrð svo að útgáfa

veiðileyfa verði einfölduð verulega frá því sem nú er og gerð skil milli veiða í atvinnuskyni og tómstundaveiða. Hæstv. ráðherra skýrði þetta nokkuð út í ræðu sinni hér áðan. En ég kemst ekki hjá því að koma nokkuð nánar að þessu. Því það verður ekki séð að reglur frv. einfaldi leyfisveitingar frá því sem nú er. Þvert á móti er stefnt í þveröfuga átt með því að gera tómstundaveiðar háðar veiðileyfum. Er nú skörin farin að færast upp í bekkinn.
    En hvað sem líður framkvæmd þessara fyrirmæla um tómstundaveiðar hnykkir manni við sjálfa miðstýringuna og alls ráðandi ríkisforsjá, hugsunina og lífsviðhorfið sem liggur hér að baki. Nú skulu menn sækja um leyfi til þess að geta varið tómstundum sínum. Í dag er það tómstundaveiði. Hvaða tómstundaiðkanir koma á morgun? Spyr sá sem ekki veit. Ef mönnum leyfist ekki að eiga fyrir sig tómstundir og njóta þeirra er friðhelgi einkalífsins stefnt í bráðan voða.
    Og hvað felst í tómstundaveiðum samkvæmt frv.? Það er veiði til þess að fiska í soðið. Nei, nú hef ég ekki farið alveg rétt með. Það er veiði til að fiska sér í soðið, sér í soðið stendur þar. Sá sem fiskar verður að borða það sjálfur, þýðir þetta víst. En eiginkonan, jú, maður og kona eru að sjálfsögðu eitt. Börn, a.m.k. innan 16 ára. Gerum við ráð fyrir að heimilið allt fái soðningu? Við skulum gera það. En ef tvö heimili eru á sama sveitabæ eða tvíbýli þá vandast nú málið. Má þá bóndinn sem reri til fiskjar skektunni sinni láta hinn bóndann fá í soðið? Eða hvað um bóndann á næsta bæ? Væri hægt að bjarga honum með í soðið? (Gripið fram í.) Ég efast um að hv. 3. þm. Norðurl. v. hafi kynnt sér frv. og efni þess en það undrar mig ekki þó hann hafi kannski ekki mikinn áhuga á því. Væri hægt að bjarga bóndanum á næsta bæ með í soðið? Kannski hefði hann ekki getað róið sjálfur til fiskjar vegna þess að báturinn hans var í lamasessi eða hann lá veikur í bólinu.
    Það þótti löngum engin goðgá að manni væri gefið í soðið. En æ sér gjöf til gjalda. Og bannað er að fénýta aflann eins og það er orðað. Það er orðað svo, fénýta aflann. Vandast þá málið ef handhafa tómstundaveiðileyfis hefði orðið á að gefa vini sínum eða nágranna svo sem spyrðling, þaraþyrskling eða annan tísling. Er þá gamanið tekið að grána þegar gefandinn fer að greiða sektir fyrir athæfið jafnframt því að sjálfsögðu að greiða gjald sitt fyrir tómstundaveiðileyfi sem honum ber að standa skil á samkvæmt ráðherralegri reglugerð. Hins vegar getur leyfishafi tómstundaveiðanna glaðst yfir því að gjaldinu sem af honum er tekið er ætlað að verja til eflingar hafrannsókna. Og segi menn þá að frv. sem við nú ræðum sjái ekki vel fyrir öllu. Margar spurningar rísa og margt kemur upp í hugann þegar við veltum þessu og þvílíku fyrir okkur.
    Sú var tíðin að dyggðug hjú máttu hafa á báti húsbónda síns nokkra öngla í eigin þágu, svokallaða marköngla. Af því að markönglafiskurinn þótti reynast meiri en góðu hófi gegndi afdæmdi Alþingi árið 1689 alla marköngla vinnumanna. Spurningin er: Verður

Alþingi nú jafnstrangt og forðum? Það er spurningin um hvaða merkingu eigi að leggja í það sem frv. þetta nefnir tómstundaveiði.
    Svo er annað mál að vandséð verður að skilja hvernig jafnvel hið alsjáandi auga sjútvrn. má fylgjast með, svo og hvernig framkvæmdar verði reglur laga um fiskveiðistjórn, um allt er lýtur að tómstundaveiðum. Kannski mætti hafa til hliðsjónar tilskipun frá árinu 1781 um vegabréf sem framfylgja mátti með því að sóknarprestar neituðu útróðrarmönnum um altarisgöngu ef út af settum reglum
var brugðið.
    Ég hef ekki gert svo mjög tómstundaveiði að umtalsefni fyrir það að þær hafi nokkra þýðingu fyrir sóknargetu fiskiskipastólsins og veiðiþol fiskistofnanna, heldur til þess að vara við því að fara inn á þá braut að leyfisbinda tómstundaiðju á borð við tómstundaveiði til að fá sér í soðningu. En fyrst og fremst mega fyrirætlanir frv. um þetta efni vera glöggur vottur þess í hvert skötulíki fiskveiðistefnan er komin.
    Enn fremur er tiltekið sem ein af meginbreytingum í frv. þessu frá gildandi lögum að óheimilt verði að fjölga öllum gerðum og stærðum fiskiskipa sem fái leyfi til að veiða í atvinnuskyni. Jafnframt verði teknar upp samræmdar endurnýjunarreglur fyrir þessi skip. Hvað er nú þetta? Hefur það ekki átt að heita svo sem með kvótakerfinu hafi átt að koma í veg fyrir að skipum fjölgaði og reglur um endurnýjun áttu að gilda? En það hefur bara komið fyrir ekki. Aldrei hefur skipum fjölgað meir og sóknargetan aukist meir en eftir að núgildandi reglur kvótakerfisins komu til eins og ég hef áður vikið að. En þetta er náttúrlega engin tilviljun. Kvótakerfið hefur í sér fólginn innbyggðan hvata til að koma í veg fyrir og torvelda að skipum geti fækkað og sóknargetan minnkað. Það varðar mestu að halda úti hverju skipi, hversu óhentugt og óhagstætt sem það er til útgerðar, í þeim tilgangi að fá útdeildan kvótaskammt á skipið. Ekkert fley er svo hrörlegt að því sé ekki haldið á floti til þess að það geti fengið kvótann sinn. Það er aðalatriði jafnvel þó að ekki sé til annars en að gera veiðileyfið að verslunarvöru.
    Af þessum ástæðum fær ekkert breytt óheillaþróun síðustu ára og dregið úr sóknargetunni nema horfið verði frá kvótakerfinu. Hvorki Úreldingarsjóður fiskiskipa né aðrar beinar aðgerðir duga til að stuðla að jafnvægi milli sóknargetunnar og veiðiþols fiskstofnanna. Það dugar ekkert meðan kvótakerfið er við lýði vegna þess að það viðheldur vandanum sem við er að glíma. Ef menn vilja leysa vandann verða þeir að vera sjálfum sér samkvæmir og afleggja kvótakerfið. Því gerir þetta frv. ekki ráð fyrir. Þess vegna eru allar meiningar þess um takmörkun fiskiskipastólsins og endurnýjunarreglur skipa léttvægar fundnar og ábyrgðarlausar.
    Ég hef hér, herra forseti, vikið að nokkrum atriðum sem eru tilgreind sem meginbreytingar frá gildandi lögum. Fleira er tilgreint í þessu efni en ég skal ekki

fara að fjölyrða um þau atriði. Það er fyrst og fremst um að ræða atriði sem varða beina framkvæmd kvótakerfisins en ekki undirstöðu þess og grundvallarhugsun. Þessi atriði geta verið betri eða verri en nú gildir en allt slíkt fellur í skuggann fyrir eðlisbundinni óhæfu kvótakerfisins sem aðferð til fiskveiðistjórnunar. Og þess vegna má aldrei missa sjónar á að mikilvægast er að taka upp aðra fiskveiðistefnu.
    Reynslan sýnir að betri fiskveiðistefna er finnanleg. Það hefur verið vísað á þá stefnu. Það hefur verið gerð tillaga um þá leið. Og það sem hefur verið lagt til er ekki óraunhæfara en svo að það er að grundvelli sama fiskveiðistefnan og fylgt var á árunum 1976--1984. Og hver er þá munurinn á því sem er og því sem koma skal? Ég skal ekki víkja mér undan að koma inn á það. En það er munurinn á einstaklingsbundinni stjórnun atvinnulífs og stjórnun almenns eðlis. Með einstaklingsbundnum stjórnunaraðferðum eru hverjum einstaklingi gefin bein fyrirmæli um athafnir sínar, um hvað hann megi gera og hvað mikið aðhafast. En stjórnun almenns eðlis er fólgin í reglum þar sem einstaklingnum er heimilað að athafna sig eins og hann hefur vilja og getu til innan ramma þeirra stjórnvaldsfyrirmæla sem sett eru á hverjum tíma. Hér skilur á milli frelsis og ófrelsis, valddreifingar og miðstýringar. Önnur leiðin stuðlar að hagsæld og velmegun, hin er dragbítur á efnahagslegar framfarir.
    Með kvótakerfinu sem nú er við lýði eru veiðiheimildir bundnar við einstök skip og því takmörk sett með hvað hvert skip má veiða mikið. Þannig er kvótakerfið einstaklingsbundin stjórnun fiskveiða með þeim göllum og annmörkum sem slíkri skipan fylgir. Árangur kvótakerfisins hefur borið þessu vitni en samt sem áður sitja kvótamennirnir fast við sinn keip. Það skal haldið við kvótakerfið hvað sem það kostar, já, hvað sem það kostar. Þeir tala um endurbætur á kerfinu sem raunar hefur verið lofað allan tímann. En það kemur fyrir ekki því að fyrir hvern og einn vankant sem sniðinn kann að vera af skjóta tveir hálfu verri upp kollinum í staðinn. Þannig hefur kerfið orðið óbærilegra við hverja breytingu sem gerð hefur verið. Þessu er svo farið vegna eðlis málsins. Vandinn liggur í kvótakerfinu sjálfu. Þess vegna verður vandamálið ekki leyst nema með afnámi kvótakerfisins. Samt þráast menn við og lofa endurbótum á kerfinu svo að sóknargetan verði ekki meiri en þarf til að fullnýta fiskistofnana. Hæstv. sjútvrh. kom inn á þetta áðan og hann var að gefa fyrirheit um að hans stefna gæti leitt til þess árangurs. Og þessu er verið að gera skóna með því frv. sem við nú ræðum.
    En þetta verðum við að athuga nánar því að þetta er hjóm eitt svo sem ég hef raunar þegar skýrt út. Í þessu efni er frv. hvorki fugl né fiskur. Það verður að velja á milli markaðskerfis og skömmtunarkerfis kvótans. Þetta fer fyrir
brjóstið á kvótamönnum, a.m.k. sumum. En það er enginn millivegur fremur en í uppgjörinu á milli

markaðsbúskapar og kommúnismans austan járntjaldsins sem einu sinni var. Frv. ber þessa glögg merki með ráðleysi sínu, þversögnum og fyrirvörum höfunda þess.
    Það er til þess aðeins að bæta gráu ofan á svart ef taka á alvarlega talið um endurbætur á kvótakerfinu. Það getur ekki merkt annað en að herða eigi á miðstýringunni sem er eðlisbundin kvótakerfinu. Þetta þýðir í framkvæmd að stjórnvöld ákveði hvað fiskveiðiskipastóllinn skuli vera stór, hvaða skip skuli úrelda, hvaða ný skip megi koma til, hvaða skip skuli endurbyggð, hver skuli vera eigandi að hverju skipi og frá hvaða verstöð skuli gera það út. En fyrirmæli stjórnvalda fela ekki í sér neina tryggingu fyrir hagkvæmum rekstri sjávarútvegsins. Þvert á móti skortir þessa aðferð það sem nauðsyn krefur til að stuðla að þjóðhagslegri hagkvæmni. Engin miðstýring eða ríkisforsjá getur í eðli sínu verið fær um að gæta þess. Samkvæmt eðli málsins hljóta ákvarðanir stjórnvalda í þessum efnum að vera að meira eða minna leyti geðþóttaákvarðanir þegar best lætur. En hvað á að koma í staðinn? Aflatakmarkanir skulu ekki bundnar við skip heldur verði hverju einstöku skipi frjálst að afla og flytja þá björg í bú sem það er fært um innan þeirra marka sem leyfilegur hámarksafli úr hverjum einstökum fiskstofni heimilar. Verstöðvar skulu njóta aðstöðu sinnar til fiskimiðanna þannig að stuðlað sé að hagkvæmri verkaskiptingu í atvinnulífi landsmanna eftir byggðarlögum og með því eflt þjóðhagslegt gildi og heildarafrakstur fiskveiða.
    Þessi skipan er frumskilyrði þess að ráðið verði við vandann. Þessi skipan felur í sér það úrval sem þarf að fara fram til að fækka fiskiskipum og minnka þannig sóknargetuna til samræmis við það sem nægir til að fullnýta fiskistofnana. Slíkt úrval geta engar stjórnvaldsráðstafanir framkvæmt. Það verður einungis gert í frjálsri samkeppni þar sem hæfni og arðsemi fá að ráða. Þeir halda velli sem kunna best til verka. Hinir falla fyrir borð. Í frjálsum atvinnurekstri geta þeir einir verið þátttakendur sem standast samkeppnina. Þannig verður best tryggður hagkvæmur rekstur sjávarútvegsins. Þannig njóta sín fiskiklærnar en fiskifælurnar stoðar ekkert. Þannig fær hagkvæmni, kunnátta og hagsýni að njóta sín í útgerðarstjórn en fúskurum ekki séð farborða í skjóli meðalmennskureglu skömmtunarkerfisins. Þannig heltast úr lestinni þau skip sem eru óhagkvæm og úrelt til reksturs. Það borgar sig hreinlega ekki að gera þau út. Þannig getur sóknargetunni miðað þegar til lengdar lætur í átt til jafnvægis við fiskistofnana.
    En til að flýta fyrir þessari þróun og að fiskiskipaflotinn verði ekki stærri að sóknargetu en hámarksnýting fiskistofnanna krefur og stuðla að því að svo geti jafnan verið þarf að gera sérstakar ráðstafanir. Stofna verður úreldingarsjóð fiskiskipa til að taka af skipaskrá skip sem ekki eru hagkvæm til reksturs. Um þetta efni er ég algerlega sammála hæstv. sjútvrh. Okkur greinir samt á. Hann telur að þetta geti komið að gagni við kvótakerfið en ég tel að það sé vonlaust, eins og ég hef áður greint frá. Þá

þarf að setja þær reglur að endurnýjun skipastólsins, sem stöðugt þarf að eiga sér stað, megi ekki leiða til stækkunar hans meðan sóknargetan er umfram það sem nægir til að ná hámarksnýtingu fiskstofnanna. Allt miðar þetta að góðri stjórnun. En fiskveiðistjórnun er þeim mun betri sem minni veiðitakmörkunum er beitt. Og víst er það að æskilegasta ástandið í þessum efnum er ekki komið fyrr en náð er jafnvægi milli sóknargetunnar og veiðiþols fiskstofnanna. Þá á heldur ekki að þurfa að búa við sérstakar endurnýjunarreglur fiskiskipastólsins. Um þetta atriði er ég sammála hæstv. sjútvrh. er hann vék að þessu. En okkur greinir á um það að hann telur að hægt sé að ná þessu ástandi innan kvótakerfisins en ég tel að það sé vonlaust og tel mig hafa fært rök fyrir því.
    Þó aldrei sé of mikil áhersla lögð á mikilvægi þess að jafnvægi komist á milli sóknargetu fiskiskipastólsins og veiðiþols fiskstofnanna verður að gera ráð fyrir því að til veiðitakmarkana verði að koma og nú um þessar mundir er það vissulega höfuðnauðsyn og viðfangsefni. Varðar þá mestu að aðgerðirnar séu ekki einstaklingsbundnar með aflatakmörkunum á hvert einstakt skip heldur sóknarstýring eftir almennum reglum um gerð skipa og útbúnað veiðarfæra, veiðisvæði, veiðitíma og meðferð afla. Hér er um að ræða aðferðina sem byggt var á áður en kvótakerfið var tekið upp. Viðfangsefni er að bæta alla framkvæmd við þessa sóknarstýringu. Það má gera með ýmsu móti, svo sem að skipta afla milli báta og togara og skipta árinu í veiðitímabil. Ákveða má tiltekna veiðibanndaga og fjölga, ef veiði ætlar að fara fram úr leyfilegum heildarafla. Margt fleira kemur til greina, svo sem að setja sérreglur um netaveiðar báta, togveiðar og aðrar veiðiaðferðir. Slík sóknarstýring eftir almennum reglum er ekki einungis besta leiðin til að halda veiðinni innan leyfilegs heildarafla af hverri fisktegund heldur og til að stuðla að sem
jafnastri hráefnisöflun til fiskvinnslufyrirtækjanna. Þá er og hin almenna sóknarstýring leiðin til verndar og friðunar hrygningar- og uppeldisstöðva með svæðisbundnum og tímabundnum veiðibönnum. Með slíkum vinnubrögðum má gera það sem dugir til að ná hámarksafrakstri fiskveiða og leggja traustan grundvöll að vernd fiskstofnanna.
    En allt kemur fyrir ekki. Kvótamenn berja sér á brjóst. Þeir forherðast við hverja raun. Engu breytir þó að engin dæmi séu þess í hinum svokallaða vestræna heimi að nokkur önnur þjóð búi undirstöðuatvinnuvegi sínum svo þröngan kost miðstýringar og ríkisforsjár sem við Íslendingar gerum. Og jafnvíst er það að kvótamennirnir geta hafa átt sína aðdáendur austan járntjalds áður en þar var lagt inn á braut markaðsbúskapar. En hætt er við að lítið færi fyrir markaðslögmálum ef beitt væri ráðum kvótamanna víðar en við fiskveiðistjórnun. Mörg eru gæðin takmörkuð önnur en fiskurinn í sjónum, en samt byggir markaðsbúskapur á frjálsri samkeppni en ekki skömmtun. Það kemur því spánskt fyrir sjónir þegar frjálshyggjumenn ganga fram fyrir skjöldu í

lofinu um ríkisforsjá kvótakerfisins og bregðast þá krosstré sem önnur tré.
    Forvitnilegast af öllu er framlag hinna lærðu manna í umræðunni um kvótann, háskólamanna og vísindamanna. Þar er að finna miklar og gagnlegar upplýsingar og fróðleik um sjálfstæðar athuganir og jafnvel vísindarannsóknir. En einn er galli á gjöf Njarðar. Þessi lærða umræða kemur yfirleitt of lítið eða alls ekki neitt inn á það sem í upphafi skyldi skoða. Það er gengið fram hjá spurningunni hvort halda skuli við kvótakerfið eða falla frá því og hvað væri þá að velja um. Menn þessir gefa sér sem forsendur að einstaklingsbundin stjórnun með aflatakmörkunum á hvert skip skuli það vera. Umræðan snýst því ekki um grundvöllinn að kvótakerfinu heldur um útfærslu og framkvæmd þess. Það er að sjálfsögðu um veigamikil atriði að ræða, svo sem hvort úthluta eigi kvóta ókeypis eða selja veiðileyfi, hvort kvóti eigi að vera til sölu á uppboði eða fyrir fast gjald, hvort kvóti eigi að vera framseljanlegur eða ekki og svo hverjum beri eignarrétturinn að fiskimiðunum. Ívaf rökræðunnar um þetta allt saman er sjálfur auðlindaskatturinn og er þá gefin sú forsenda að ekki sé hægt að skattleggja sjávarútveginn sem skyldi nema kvótakerfið sé til staðar.
    Svo vafasamar sem forsendurnar eru má hitt vera ljóst að öll atriði þessarar lærðu umræðu hafa þá náttúru að efna til slíks ágreinings að með eindæmum er. Þessi ágreiningsmál kljúfa þjóðina niður í andstæðar fylkingar eftir mismunandi sjónarmiðum, hagsmunaárekstrum, siðferðisskoðunum, byggðatogstreitu og stéttaríg. Hér er um að ræða djúpstæð mál sem höfða til réttlætiskenndar og tilfinninga sem valda sundurþykkju, úlfúð og illvígum deilum og er til þess eins fallin að sundra þjóðinni þegar mest ríður á samstilltu átaki til úrlausnar þeim vanda sem nú er á höndum til mótunar fiskveiðistefnu. Og vissulega er það kaldhæðnislegt að svo miklu skuli fórnað í vonlausum lífgunartilraunum á þeirri aðferð til fiskveiðistjórnunar sem er undirrót erfiðleikanna sem við er að fást. Hins vegar verður því ekki neitað að býsna fróðlegt er og eftirtektarvert að fylgjast með fræðilegum vangaveltum hvers og eins, svo að ekki sé minnst á leikni, rökfimi og skylmingar hinnar nýju skólaspeki þegar menn leiða saman hesta sína.
    En á meðan þessum leikum fer fram magnast eldurinn sem fer eyðandi hendi um þjóðarbúið. Annmarkar kvótakerfisins færast meir og meir í aukana. Stöðugt verður augljósara að með kvótakerfinu næst ekki tilgangurinn með fiskveiðistefnu, hámarksafrakstur fiskveiða og verndun fiskstofnanna. Alltaf verður þungbærara að kvótakerfinu fylgir kostnaður langt umfram það sem þarf til þess að bera að landi það aflamagn sem kostur er á. Af þessum ástæðum er ekki einungis sjómannshluturinn æ rýrari og útgerðin lakar sett en vera þarf. Þess vegna verður framleiðslukostnaður hráefnis til fiskvinnslunnar meiri en nauðsyn krefur.

Af því leiðir að útflutningsframleiðslan kallar á sífellt lægra gengi krónunnar. Það leiðir hins vegar til hærra og hærra verðs á lífsviðurværi almennings. Þannig dregur kvótakerfið dilk á eftir sér. Það er þjóðin í heild sem verður að axla byrðarnar af kvótakerfinu í stöðugt lakari lífskjörum en vera þyrfti.
    Og nú er enn verið, með frv. því sem hér er til umræðu, að endurskoða kvótakerfið til að viðhalda því og styrkja í sessi. Það er verið að skara í eldinn. Í frv. kennir ýmissa kynlegra grasa svo sem ég hef vikið að. En ég ætla að athyglisverðast af öllu sé að kvótalöggjöfinni er ekki ætlaður tímabundinn lífdagi svo sem verið hefur fram til þessa og hefur þrátt fyrir allt gefið vonarglætu um betri tíð. Nú er gildistíminn ætlaður ótakmarkaður í þeim yfirlýsta tilgangi að kvótakerfið fái að njóta sín til fullnustu og má það vera fullkomlega ljóst út í hvaða foræði stefnt er ef engum vörnum verður við komið.
    Herra forseti. Megum við ekki, þrátt fyrir allt, vona að hér í hv. Ed. geti meðferð þessa frv. sem við nú ræðum orðið til nokkurs gagns? Megum við ekki vona að upp ljúkist augu þeirra sem haldnir eru efasemdum og kvíða um
fiskveiðistefnu undanfarinna ára og þeim megi verða ljóst að ekkert úrræði er né sáluhjálp við hugarangri þeirra annað en afnám kvótakerfisins? Megum við biðja þess að hinir forhertu kvótakerfiskarlar snúi frá villu síns vegar. Ef frv. þetta fær verðuga afgreiðslu í þessari hv. deild, mun rofa til. Þá mun aftur morgna.