Stjórn fiskveiða
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég hafði ekki, frekar en hv. 6. þm. Vesturl., tekið að mér það hlutverk að hlaupa í skarðið fyrir hv. 4. þm. Vesturl. sem ætlaði að vera hér í ræðustóli þangað til hv. 14. þm. Reykv. gæti komið aftur í deildina til þess að hefja sína ræðu, en hann mun vera næstur á mælendaskrá að því er mér skilst. En það verður svo að vera. Ég ætlaði ekki að setja hér á langa ræðu en get ekki stillt mig. Ég á ekki sæti í sjútvn. og hef því ekki tækifæri til að koma með þær athugasemdir sem mig langar til að gera hér, sérstaklega við eitt atriði þessa frv.
    Ég vil byrja á því að taka undir það sem komið hefur fram í máli þeirra sem hafa talað, bæði hv. 4. þm. Vesturl. og 6. þm. Vesturl. Það er greinilegt að hagsmunaaðilar sem koma inn í þessi mál, þ.e. í hinum ýmsu greinum sjávarútvegsins, eru hreint ekki sammála um þetta frv. jafnvel þó þeir hafi tekið þátt í að semja það. Þó þeir hafi ekki skilað séráliti kemur það fram að þeir hafa af því miklar áhyggjur, sérstaklega með tilliti til þess að það muni, ef að lögum verður óbreytt, valda mikilli röskun og ósamlyndi innan samtaka sjómanna eins og ég hef heyrt eftir einum af þessum aðilum og reyndar fleirum.
    Sterk umræða hefur verið í þjóðfélaginu að undanförnu um atvinnuástand víða út um land og ekki síst í sjávarplássunum. Ég held að óhætt sé að segja að ekkert geti styrkt landsbyggðina á þeim svæðum meira en einmitt arðbær sjávarútvegur. Manni sýnist að þá þurfi að huga vel að bátaútgerðinni og að hennar hagur verði ekki lakari en hinna stærri skipa.
    Það sem ég vildi fyrst og fremst gera athugasemdir við eru 4. og 6. gr. þessa frv. Í 4. gr. stendur: ,,Enginn má stunda veiðar við Ísland nema hafa fengið til þess almennt veiðileyfi. Veiðileyfi eru tvenns konar; leyfi til veiða í atvinnuskyni og leyfi til tómstundaveiða. Veiðileyfi skulu gefin út
til eins árs í senn.``
    Það er auðvitað ráðherra sem á að ákveða hverjir hljóta þessi veiðileyfi og eins og kom fram í máli hv. 4. þm. Vesturl., sem flutti hér mjög athyglisverða ræðu, eru allar ákvarðanir í höndum hæstv. ráðherra. Eftirlitið, rannsóknarþátturinn og úthlutun leyfanna. En það var þetta með tómstundaveiðarnar sem fer svolítið fyrir brjóstið á mér. Mér finnst vera orðin fullmikil miðstýring og ofstjórnun ef menn mega ekki fara út á skektu sinni og veiða sér í soðið. Í 6. gr. kemur fram að þeir sem ætla að stunda slíkar tómstundaveiðar þurfa að biðja um leyfi til veiða ,,með handfærum án sjálfvirkniútbúnaðar til eigin neyslu``, stendur hér í frv., mér skilst að það séu þau tómstundaveiðileyfi sem heimild verður veitt til. Þeir mega ekki selja eða fénýta afla sinn á annan hátt og manni verður á að hugsa: Hvernig í ósköpunum ætlar hæstv. ráðherra að fylgja því eftir hvað menn gera við þennan afla sinn? Ég spyr bara vegna þess að mér koma í hug t.d. laxveiðimenn og silungsveiðimenn sem fara í veiðiferðir í frístundum sínum. Sumir kjósa

að veiða í vötnum og ám. Aðrir vilja kannski frekar fara út á saltan sjó og veiða sér í soðið. Ef veiðin verður umfram þarfir heimilisins hef ég aldrei orðið vör við að maður megi ekki selja veiðina, silunginn eða laxinn sinn, að verið sé að gera athugasemdir við það og fylgjast með því. Þetta fer að minna svolítið á lögregluríki, ég get ekki að því gert. Mér finnst þetta svo fráleit grein þarna að ég gat ekki annað en komið hér upp og gert athugasemd við þetta.
    Nú skal ég viðurkenna að ég er ekki sérfræðingur í þessum málum og kannski eru til einhverjar tölur um að þessi frístundaveiði þeirra sem fara að gamni sínu út á sjó á handfæraveiðar eða jafnvel á bryggjusporðinn sé svo stór þáttur í heildarveiði landsmanna að þurfi að setja á það bönd. Vonandi gengur það ekki svo langt að krakkar megi ekki veiða marhnútinn sinn af bryggjusporðinum. Ég gat ekki látið hjá líða, hæstv. forseti, að koma inn á þetta atriði hér af því að það hefur, að ég held, ekki verið minnst á það hérna, enda varla von. Þetta er kannski svo mikið smámál miðað við heildina. Ég get alveg tekið undir það því að ég lít svo á að það mál sem hér er verið að fjalla um sé eitt af þessum stórmálum sem koma inn á hv. Alþingi, eitt af þessum þýðingarmiklu málum sem varða framtíð okkar, hvernig okkur gengur að lifa í þessu landi. Þetta er ein undirstöðuatvinnugrein Íslendinga. Þess vegna er það líka sem mörgum er heitt í hamsi og eru ekki sammála um hvernig á að skipa þessum málum. Ég vil taka það fram að ég tel að hæstv. sjútvrh. sé ekki öfundsverður af því að finna lausn á þessum málum svo allir geti vel við unað. En ég vil jafnframt taka það fram, --- ég ætla ekki að trufla meðan hv. formaður þingflokks Framsfl. á tal við hæstv. ráðherra. ( PP: Hann er hættur.) Hann er hættur, já. Þá ætla ég að halda áfram með þessa setningu mína sem ég er auðvitað búin að gleyma hver var. Mér lá mikið á hjarta en meginatriðið, eins og ég sagði, er að ég tel að hæstv. sjútvrh. þurfi, og það sé þýðingarmikið fyrir hann, að hlusta á þau sjónarmið sem menn hafa hér fram að færa í þessum málum og ekki síst með tilliti til þess að hagsmunirnir eru mismunandi.
    Hér hefur verið minnst á og ekki síst af hv. 4. þm. Vesturl. og hv. 4. þm. Vestf. að það fyrirkomulag sem hefur verið í gildi hefur ekki reynst vel. Mér dettur í hug að í gærmorgun heyrði ég af tilviljun samtal við skipstjóra sem var í miðri loðnutorfunni. Það var verið að kasta og það var fullur sjór af loðnu og í lok samtalsins spurði fréttamaðurinn: Hvernig er það, hafið þið ekki áhyggjur af því að þið eruð að veiða ætið frá þorskinum? Svarið var stutt og laggott eins og sjómanna er siður. Það er engin tæpitunga þar. Svarið var: Nei, vegna þess að það er enginn þorskur í sjónum.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri, en mér fannst ég vera nauðbeygð að koma þessum athugasemdum mínum að eins og ég sagði í upphafi varðandi 4. og 6. gr. þessa frv.