Stjórn fiskveiða
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil við 1. umr. um frv. til laga um fiskveiðar segja nokkur orð og gera grein fyrir afstöðu Borgfl. til þessa frv.
    Eins og fram kom hjá síðasta ræðumanni þá skilaði fulltrúi Borgfl. séráliti í þeirri nefnd sem skipuð var við samningu þessa frv. Þegar málið kom til þingflokks Borgfl. áður en það var lagt fram var málið afgreitt með svofelldu bréfi og vil ég lesa það til þess að það komi skýrt fram hver afstaða míns flokks er til frv. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Þingflokkur Borgfl. hefur fjallað um drög að frv. til laga um stjórn fiskveiða sem taka eiga gildi í ársbyrjun 1991. Þingflokkur Borgfl. er ekki samþykkur þeirri fiskveiðistefnu sem frumvarpsdrögin bera með sér, sbr. sérálit fulltrúa flokksins í ráðgjafarnefnd um stjórn fiskveiða. M.a. telur flokkurinn vafasamt að eftirfarandi markmið sem þingflokkurinn leggur áherslu á nái fram að ganga:
1. Að þróun fiskveiða og vinnslu gangi sem jafnast miðað við hlutdeild yfir byggðir landsins.
2. Að aflanýting verði betur tryggð en nú er. En það mætti t.d. gera með sérstakri löndunarheimild fram hjá aflamarki skipa til frádráttar aflamarki í umsjón Úreldingarsjóðs og með skiptingu arðs af þeim afla.
3. Að hlutdeild sóknarmarksskipa verði nægilega sanngjörn miðað við aflareynslu. Auk þeirrar heildarhlutdeildar í aflamarki mætti aðstoða þau með sérstakri fyrirgreiðslu úr Fiskveiðasjóði til umþóttunar.
4. Að fylgt verði nægilega fast eftir kröfum um vigtun alls afla. Til að svo megi verða telur þingflokkurinn að leggja beri allt kapp á að leysa þau vandamál sem talin eru hindra það.
5. Að lagagerð, eftirlit með fiskveiðum og viðeigandi dómsvald verði ekki í höndum sama aðila.
6. Að fiskveiðistefnan leiði ekki til þess að fámennur hluti þjóðarinnar ávinni sér eignarhald á fiskveiðiauðlind Íslands.
    Þingflokknum er ljóst að í þjóðfélaginu eru mjög skiptar skoðanir um hvernig haga beri stjórn fiskveiða. Á þetta ekki síst við hagsmunaaðila í sjávarútvegi svo og þingmenn í öllum flokkum. Þingflokkur Borgfl. gerir sér hins vegar ljóst að á ríkisstjórninni hvílir sú skylda að leggja sem fyrst fram frv. til laga um stjórn fiskveiða. Því felst þingflokkur Borgfl. á að drögin verði lögð fram á Alþingi sem stjfrv. Þingmenn Borgfl. áskilja sér rétt til þess að flytja brtt. við það eða fylgja öðrum er fram kunna að koma við frv.``
    Ég vildi að þetta kæmi hér fram til skýringar á því að þingflokkur Borgfl. hefur ekki breytt frá þeirri stefnu sem boðuð var þegar núgildandi lög tóku gildi árið 1987 og að við höfum ákveðnar athugasemdir við það frv. sem hér er rætt um.
    Við gerum okkur hins vegar fyllilega grein fyrir því að það verði að nást samstaða um stjórn fiskveiða næstu ár. Og þess vegna viljum við ekki standa í vegi fyrir því að það frv. sem hér er um fjallað og er niðurstaða nefndar sem skipuð er helstu hagsmunaaðilum og fulltrúum úr öllum

stjórnmálaflokkum verði lagt fram og rætt og fundin niðurstaða.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri en geri ráð fyrir því að mér verði heimilað að sitja fundi í sjútvn. þegar málið verður rætt þar, þó ég sé ekki kosinn í sjútvn., og vil því frekar við 2. umr. frv. fjalla um inntak þess nánar og það sem við komum til með að leggja megináherslu á.