Stjórn fiskveiða
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Herra forseti. Það kom fram ósk um það frá hv. 14. þm. Reykv. að sá ráðherra sem fer með atvinnumál verði viðstaddur þessa umræðu, hæstv. ráðherra Hagstofu Íslands. Við þurfum að leggja fyrir hann nokkrar spurningar og ég geri ráð fyrir því að hæstv. forseti fallist á að það sé nauðsynlegt.
    Í öðru lagi vil ég benda á að það er nú komið í ljós að bæði þingflokkur Alþb. og þingflokkur Borgfl. hafa gert sérstakar samþykktir um það frv. sem fyrir liggur en á hinn bóginn liggur það líka fyrir að í þeirri nefnd sem fjallaði um frv. lýsti formaður þingflokks Alþfl. því yfir að Alþfl. hefði mjög deildar meiningar uppi um þetta frv. miðað við meiri hlutann í nefndinni. Og það var vegna beiðni Alþfl. sem það dróst fram yfir jólahátíð að skila nál. í þessari endurskoðunarnefnd.
    Nú er einn þingmaður Alþfl. á mælendaskrá, hv. 3. þm. Vestf., og ég hlýt að gera þá kröfu að þm. Alþfl. gefist kostur á því að tala þegar við 1. umr. Hv. 3. þm. Vestf. á sæti í sjútvn. og eðlilegt að við því verði orðið. Ég þarf ekki að minna á að það var rætt hér fyrir skömmu um annað stjfrv. sem fyrir lá, það var um svokallaðan orkuskatt. Þá kom það í ljós eftir að okkur hafði tekist að knýja ráðherra Alþfl. til að taka til máls að hann var í grundvallaratriðum á móti þeirri stefnu sem kom fram í þessu frv. þó svo að hæstv. fjmrh. hafi upplýst að krafan um orkuskattinn í þessari lotu væri frá Alþfl. komin. Ég hygg því að það sé sjálfgert fyrir hæstv. forseta að verða við þessari kröfu stjórnarandstöðunnar, annars vegar að sá ráðherra sem fer með atvinnumálin í ríkisstjórninni verði viðstaddur við þessa umræðu og hins vegar að þeim þingmanni Alþfl. sem á sæti í sjútvn. og hefur beðið um orðið verði gefinn kostur á því. Það mun svo fara eftir viðbrögðum hæstv. sjútvrh. eða hæstv. forseta hvort ég hef ræðu mína í kvöld. En að sjálfsögðu stendur ekki til að ljúka þessari umræðu þegar kvöldmatarhlé verður gert, kl. 7 að þingvenju. ( Forseti: Hv. 3. þm. Vestf. tjáði mér að hann óskaði ekki eftir að umræðunni verði frestað sín vegna. Þannig að það er ekki þörf á því.)