Stjórn fiskveiða
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Vegna orða hv. 2. þm. Norðurl. e. og ósk hans um að umræðu um þetta mál verði frestað í kvöld vildi ég leyfa mér að spyrja hæstv. forseta hvort það sé meining hans að fresta fundi. Mér skildist á hv. þm. að hann ætti eftir að halda hér tölu. Ef umræðan á að halda áfram á morgun vildi ég frekar taka þátt í umræðunni þá eða eftir kvöldmat. ( Forseti: Ég hef ekki reiknað með kvöldfundi í kvöld. Ég hef reiknað með að umræðan gæti haldið áfram fram undir hálf átta. Það fer að sjálfsögðu eftir því hverjir verða á mælendaskrá.) ( HBl: Það var beðið um ráðherra Hagstofu hingað.) ( Forseti: Hann er ekki í húsinu, eins og hér kom fram.) ( HBl: Og er það Salómonsorðið að stjórnarandstaðan eigi ekki að fá að ræða við ráðherra Hagstofu án þess að út úr því verði einhver átök í þinginu?) ( Forseti: Hv. 4. þm. Vesturl. hefur orðið.)
    Ég þakka hv. 14. þm. Reykv. fyrir yfirgripsmikla ræðu sem fjallaði á góðan hátt og kunnuglegan um stöðu fiskistofnanna. Hann skýrði rit Hafrannsóknastofnunar um fiskstofnana eins og hlutirnir lágu fyrir á síðasta hausti. En upphafsorðum hv. þm. um það að ég hefði verið að líkja hæstv. sjútvrh. við Castro á Kúbu vil ég vísa alveg frá. Aftur á móti benti ég á, og ég get endurtekið það, að málin virtust vera að þróast á svipaðan veg hér í íslenskri pólitík eins og ætti sér stað á Kúbu, þ.e. að á meðan austur-evrópskir kommúnistar köstuðu frá sér miðstýringunni þá héngi Castro á Kúbu við miðstýringarpólitíkina. En ég var hvorki að jafna hv. 14. þm. Reykv. Guðmundi H. Garðarssyni við Castro né hæstv. sjútvrh. Þegar ég ræði um kvótastuðningsmenn þá jafna ég þar alveg saman hæstv. sjútvrh. og hv. 14. þm. Reykv. Og ef hv. 14. þm. Reykv. hefur fundist ég vera að jafna hæstv. sjútvrh. við Castro, sem ég alls ekki var að gera, þá hefði hann mátt alveg eins taka það til sín. Vegna þess að ég er
ekkert að gera upp á milli manna í þeim flokki sem stendur fast að kvótakerfinu. Þar eru jafnir hæstv. sjútvrh. Halldór Ásgrímsson og hv. 14. þm. Reykv. Guðmundur H. Garðarsson, sem telja þetta grundvallaratriði í fiskveiðistefnu. Og ég get ekkert verið að gagnrýna þeirra skoðun á því máli. Þeir hafa þessa skoðun á málinu, en ég er bara á annarri skoðun.
    Talað var um að ég hafi staðið að Atvinnutryggingarsjóði, hinum mikla miðstýringarþætti þess sjóðs og einnig í sambandi við húsnæðismál og annað eftir því. Ekki ætla ég að bera á móti því að ég hafi staðið að samþykkt þess að þessar stofnanir gætu orðið til, en ég hef ekki verið mjög hrifinn af starfsemi Atvinnutryggingarsjóðs. Margir sjálfstæðismenn hafa verið miklu hrifnari og mælt vinnubrögðum þar bót langt umfram það sem ég hef tekið mér í munn. Og það sama má segja um vissa þætti í ráðstöfun fjármagns í sambandi við húsnæðiskerfið. Þar hafa ýmsir tekið þátt í.

    Ég sé ekki að þetta tengist í sjálfu sér nokkuð umræðunni um þá miðstýringaruppbyggingu sem er í fiskveiðistjórnarfrv. Mér fannst einhvern veginn að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson væri að réttlæta sína stöðu að vissu leyti á þann hátt að fyrst einhverjir og einhverjir hefðu staðið með miðstýringarfrv. Atvinnutryggingarsjóðs og húsnæðismála þá væri svo sem ekkert mjög vont þó að hann stæði að miðstýringunni þegar hún kæmi fram í þessu máli sem verið er að fjalla um hér. Það kallast á venjulegri íslensku hundalógík þegar verið er að rökstyðja mál á þennan máta og skapa sér stefnu og skoðun út frá þessum grunni.
    Nokkuð talaði hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson um stöðu mála hér á hv. Alþingi árið 1983 og umræðu um þetta mál þá og minnti á að hann hefði haldið hér tölu um fiskveiðistefnuna þar sem hann andmælti mjög þessu kerfi. Hann hefur sem sagt skipt um skoðun og um það er í sjálfu sér ekkert að segja. En það gæti verið að margt af því sem Guðmundur sagði þá ætti við enn þann dag í dag og við sem enn erum á móti þessu kerfi gætum notað það sem rök í umræðum um þetta mál á ósköp svipaðan máta og við getum notað ræður hæstv. sjútvrh. frá þessum tíma. Bent á það að hverju skyldi stefnt í sambandi við fiskveiðistefnuna og undirstrikað það hvað þar hefur margt mistekist. Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson talaði um að það gerðist ekkert með gífuryrðum eða stóryrðum í sambandi við fiskveiðistefnuna, þar yrðu menn að taka á hlutunum með alvöru. Ég tek undir þetta, undirstrika það að menn þurfa að taka á málum eins og fiskveiðistefnunni með mikilli alvöru og taka til greina þá þróun sem hefur átt sér stað á undanförnum árum og þá stöðu sem er í þessum málum í dag. Það finnst mér aftur á móti að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson geri ekki. Hann tekur ekki til greina að öll þau stóru orð sem sögð voru í umræðum 1983, 1984 og 1987 um að hverju skyldi stefnt og að hverju væri verið að stefna í sambandi við fiskveiðimálin. Hann tekur ekki til greina hvað gjörsamlega allir hlutir hafa þar mistekist. Ég kalla það nokkuð mikil gífuryrði að standa á því, þegar öll þau markmið sem sett voru á þessum árum í sambandi við fiskveiðistefnu hafa mistekist, að menn skuli eftir sem áður segja að þetta sé sú leið sem við skulum halda. Það kalla ég ekkert annað en gífuryrði.
    Í anda Sjálfstæðisflokksstefnunnar sagði hv. þm. að það skyldi stefna að því
að öll veiði væri frjáls. Ég hef þá skoðun að miðað við alla þá tækni og allan þann búnað og alla þá möguleika sem við höfum til þess að sækja fisk í sjó geti sá tími aldrei komið, hvort sem það er í anda sjálfstæðisstefnunnar eða annarrar stefnu, að við getum sótt fisk í sjó án þess að hafa þar á einhverja skipulagningu. Það sem við þurfum aftur á móti að velja um er hvernig við viljum skipuleggja þetta og á hvaða grunni við viljum byggja það kerfi sem við notum til þess að vinna að þeim markmiðum sem voru sett hér 1983.
    Hv. þm. nefndi ýmsa hluti sem væri freistandi að

fjalla um en ég ætla ekki að gera það að sinni, við eigum sjálfsagt eftir að fjalla um þetta í hv. sjútvn. En hann nefndi einn þátt sem ekki hefur verið hér sérstaklega fjallað um, þ.e. hvernig þróunin hefur verið í sambandi við fiskstærðina, hvað fiskurinn væri orðinn smár. Þetta er eitt af einkennum þess þegar verið er að ganga á veiðistofna, fiskurinn verður smærri og smærri, bein ábending um það að við séum að ofveiða stofninn. Og ekki aðeins það heldur að við séum að gera stofninn þannig að hann verði okkur mikið verðminni auðlind en ef við leyfðum fiskinum að stækka í eðlilega veiðistærð. Ætli það sé ekki um 40% verðmunur á svokölluðum fullstórum saltfiski og smæsta fiskinum. (Gripið fram í.) Þá erum við að ræða um eins og sagt er 20--40 upp í 10--20, svona venjulegan vertíðarfisk hér sunnan lands, fimm til sjö eða níu kílóa fisk. Sá fiskur er um 40% verðmeiri í útflutningsvöru en smáfiskurinn, smæstu tegundirnar. Það er hrikaleg staða sem er að skapast þegar við erum að sækja meginhluta hráefnisins af þessari smástærð og þýðir að útflutningsafurðir okkar eru 40% verðminni en verið gæti. Fyrir utan það að vinnan og kostnaðurinn í kringum það að vinna smáfisk er náttúrlega mikið meiri en við að vinna stærri fisk og það þekkir enginn betur en hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson. En þetta hefur verið þróunin á undanförnum árum og ég kenni það fyrst og fremst þeirri stefnu sem við höfum fylgt í fiskveiðistjórninni.
    Á annan máta nefndi hv. 14. þm. Reykv. Guðmundur H. Garðarsson að það mundi enginn verða til þess að óska eftir því að fiskiskipaflotinn yrði skorinn niður, það mundi enginn þora að gera það. Ég held að þetta sé einhver misskilningur vegna þess að það var eitt af stefnumiðunum í sambandi við fiskveiðilögin 1983 að minnka flotann. Og það varð varla gert á annan máta en að skera niður, á einhvern máta þurfti að minnka flotann. Aftur á móti hefur þróunin verið sú á undanförnum árum að flotinn hefur stækkað eins og hefur komið fram í ræðum manna og hann hefur ekki aðeins stækkað í tonnatölu og hestaflatölu, heldur hafa skipin stækkað og einmitt verið að gerast það sem hv. þm. benti á að mætti ekki gerast, að skipunum fækkaði og grundvöllurinn undir ákveðnum byggðum í landinu brysti þar með. Þetta eru allt afleiðingar þessa fiskveiðikerfis sem við höfum búið við. Stærri og stærri skip, öflugri og öflugri skip, færri og færri skip. Vitaskuld er það andstætt allri byggðastefnu í landinu, þveröfugt við það sem hv. þm. var að segja að menn vildu ekki taka þátt í. Þeir eru að gera þetta. ( GHG: Er ekki hv. þm. stjórnarstuðningsmaður? Er þetta ekki stefna núv. ríkisstjórnar?) Jú, jú, stefna núv. ríkisstjórnar? Mér heyrðist þetta vera stefna hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar.